Sumarfríið þar sem allt varð um og yfir 2000.

Það er stórundarlegt að lítill flekkur eins og Danmörk skuli vera svona margbreytilegur landslagslega séð.
Alveg stórundarlegt – hver hefði trúað því nema berja það sínum eigin augum?

Mig dreymdi um að fara til Íslands í sumarleyfinu mínu en taugarnar eru smám saman orðnar svo frauðkenndar að ég lagði ekki í aðstæðurnar í Leifstöð. Ég bý að reynslu síðan í maí.
Sá gamli ætlaði að fara en snéri við í Kaupmannahöfn. Sagðist vera orðinn of gamall fyrir svona ringulreið eins og virtist vera á kæra Íslandi.  Úr varð að hann kom með mér og hundinum í sumarbústað nálægt einum af fimm þjóðgörðum Danmerkur. Þjóðgarðurinn heitir Thy. Thy kemur af þjóð – í gamla daga Thiud sem síðan varð að Thy með tímanum. Þetta var fjórða bústaðaferðin okkar á innan við ári sem er þó nokkuð merkilegt því fyrir ekki svo löngu síðan hefði ekki hvarflað að mér að hanga í bústað. En ég skipti um skoðanir eftir því sem ég verð lífsreyndari.

Ég er alltaf að spara. Spara spara af því bara. Og einsetti mér að finna sumarbústað á sama verði og flugmiði fyrir mig  frá Kaupmannahöfn til Keflavíkur og frá Reykjavík til Egilsstaða og alla leið til baka aftur. Og datt heldur betur í lukkupottinn þegar ég fann bústað sem jafngilti verðinu á miðanum Kaupmannahöfn – Keflavík – Reykjavík – Sprengisandur og ekki feti lengra. Reyndar var ég að panta á síðustu stundu og í erfiðum aðstæðum þar sem Danir gerðu sögulegt sumarbústaðanotkunarmet í sumar og því ekki um marga bústaði að velja.

Við höfðum að sjálfsögðu þaulskipulagt vikuna matar- og afþreyingarlega séð og fylltum bílinn því af mat, bókum, tölvunni, spilum, garni og einum hátalara.
Ég ætlaði mér stóra hluti. Marga hluti.
Ég ætlaði mér að hverfa aftur í tímann og pantaði Wi-Fi lausan bústað – sem er frekar tilgangslaust því ég hef aldrei loggað mig inn á netið í bústöðunum sem við höfum leigt áður. Alltaf bara verið á þremur og fjórum gé.
Ég sagði við Fúsa áður en við lögðum af stað: Fúsi minn, símarnir verða settir í skál við komu og aðeins teknir upp úr henni tvisvar á dag í hálftíma í senn.

Það var blessuð blíðan þegar við loksins fundum bústaðinn vel falinn innan um há tré. Draumastaðsetningin þar sem mig langaði að vera útaf fyrir mig.
En gleðivímunni brá fljótt af þegar inn var gengið. Á móti okkur tók þessi afar sterka fúkkalykt. Gekk ég niður í gamlan rakan kjallara án þess að ég tæki eftir því? Fari það í grábölvað bölbrókarlaust helvíti. Andskotakornið. Við heimkomu keypti ég Rodalon í fyrsta skipti á ævinni og þvoði allt á 60-90 gráðum. Ég held að mér hafi tekist að bjarga tauinu.
Allavega, lítið við lyktinni að gera á meðan við vorum þarna – um að gera að liffa bara og njódda. Sem minnir mig á það að önnur dóttir mín hélt að orðin liffa og njódda væru bara þróun á íslenskri tungu og væru komin til að vera í stað lifa og njóta. Vissi ekki að þetta tengdist texta. Ég var fljót að leiðrétta það og sagði henni að þetta væru orð sem við notuðum ekki í daglegu tali. Bara upp á grínið. Þó svo að ég sé hlynt þróun tungumálsins.

Veröndin við húsið var yfirbygð sem þýddi að óháð veðri vörðum við vökutíma okkar að mestu úti við í þægilegum hornsófa. Ég hreifst strax af þessari síðustu aldar stemmingu sem ég gerði mitt besta til að skapa. Bara bækur og útvarp …
Við lásum töluvert á meðan á dvölinni eða samanlagt tæplega 2000 blaðsíður. Fúsi las fleiri síður en ég. Ég las fleiri bækur því mínar voru styttri.
Ég prjónaði úti en ég efast um að ég hafi náð 2000 lykkjum svona ef bera á lykkjurnar saman við blaðsíðurnar,  nema það séu svo margar lykkjur í einum peysukraga. Ég ætlaði að prjóna meira en ég var svo upptekin af að stara útí loftið að það gafst ekki tími til meiri prjónaskaps.
Við borðuðum allar okkar máltíðir úti og innbyrgðum langt yfir 2000 kalóríur. Reyndar teljum við ekki kalóríurnar. Við borðuðum pasta pomodoro (að venju), quinoa- og baunasúpu, helling af rúgbrauði og bökuðum kökur. Borðuðum grauta og grænmeti. Bökuðum brauð og pizzu. Og ég uppgötvaði leyndardóma glerkáls. Nei þið lásuð ekki glerskál. Glerkál. Reyndar er þetta bein þýðing hjá mér og eftir leit á netinu þá komst ég að því að þetta heitir hnúðkál á íslensku. Alveg ljómandi gott bæði hrátt og eldað.
Við hlustuðum á tónlist úti í meira en 2000 mínútur.
Við slepptum því að nota verksmiðjuframleidd handklæðin eftir sturtu og leyfðum sólinni að þerra líkama okkar þegar hennar naut við. Mikið fleiri en 2000 geislar skullu á berri húðinni. Það var gott að þorna svona.
Við týndum meira en 2000 krækiber á heiðinni þar sem mikið meira en 2000 ára gamlir höfðingjar hvíla lúin bein undir torfuhlöðnum hólum. Við borðuðum berin út á grautana okkar.
Við gengum fimm sinnum 2000 skref einn daginn og sáum súlu. Ég mundi ekki hvort hún myndi æla eins og fýllinn svo að ég þorði ekki að klappa henni. Ekki gat ég gúgglað því ég var stödd á síðustu öld og kunni það ekki þá.
Við störðum 2000 sinnum útí loftið og gleymdum að fylgjast með klukkunni. Ég var nánar tiltekið, að reyna að vera í 1994 fíling. Engir samfélagsmiðlar, engar sjónvarpsstreymisveitur. Fyrir utan að hafa ekki wifi, voru þrír og fjórir gé með slakasta móti, rétt marði Spotify og ég hafði gleymt hleðslutækinu af tölvunni heima. Hún var því aldrei opnuð. Ekkert sjónvarp því að allir dagar voru fimmtudagar.
Við týndum yfir 2000 grömm af steinum með götum í og ostruskeljar og tókum með okkur heim.
Við létum símana að mestu liggja óáreitta og var ég samtals 93 mínútur á Instagram og Facebook á sjö dögum eða í 13 mínútur á dag sem gerir 797 sekúndur á dag sem er langt undir 2000 sekúndum.
Fúsi bjó til indverskan rétt sem var svo góður og hreyfði við meira en 2000 bragðlaukum í munninum á mér. Í uppskriftinni er sagt að það sé hægt að sleppa cayennepiparnum en það myndi ég aldrei í lífinu gera.
Við skoðuðum vita og fengum meira en 2000 metra útsýni.
Við gengum eftir ströndinni á brimbrettabænum Klitmöller – hinni frægu Cold Hawai strönd og sáum 2000 bárur brotna við fæturnar okkar. Í Klitmöller er gott að vera vegan. Þar er góð ísbúð nær eingöngu með vegönskum ís. Konan sagði að það væri mikið einfaldara og gróðvænlegra, þá gætu þeir sem væru með laktósa- og glútenóþol verið óhræddir – bingó! Allir gætu fengið ís. Ekkert ves. Hún sagði okkur að veitingastaðirnir byðu langflestir upp á eitthvað gott vegan því það væru langt yfir 2000 veganistar að jafnaði í Klitmöller. Hún sagði að það tengdist brimbrettamenningunni og náttúruunnendum, bæði dönskum og þýskum – hraust fólk í tengslum við náttúruna?
Við gengum rúma 2000 metra í nágrenni við Vandets sø sem er eitt tærasta vatn Danmerkur. Ég hafði lesið bók (Kvinderne fra Thy) sem gerist á þeim slóðum og varð að hafa komið þangað. Það var þar sem ég nældi mér í skógarmýtil og tók með mér heim til Sönderborgar. Ég uppgötvaði hann pikkfastann, sjúgandi blóðið úr mér í sturtunni undir 2000 dropum af vatni á mínútu og hrópaði eins hátt og ég gat: Fúsi, komdu með töngina!

Þetta var gott sumarfrí. Ég var hress þegar ég mætti í vinnuna á mánudeginum. Ekki uppgefin heldur nánast úthvíld.

Með færslunni fylgir snefill af myndum.

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *