Mæðgnaferð til Stokkhólms

Í þar síðustu færslu, þar sem við vorum í Kaupmannahöfn að mestu, vorum við komin yfir til Skánar í lok færslunnar. Það var þann 5. júní. Ég skrifaði að við hefðum verið farin að sakna Svíþjóðar. Það voru engar ýkjur. Tilfinningin að keyra yfir Eyrasundsbrúna og inn í landið án nokkurs eftirlits, var svipuð og þegar ég flaug til Íslands um jólin 2018 eftir átta mánaða kyrrsetu. Við tókum þá lestina niður til Hamborgar í Þýskalandi og þegar ég stóð uppi á svölunum á brautarstöðinni og horfði niður á lestarnar, voru allar frumur líkamans við það að springa úr fögnuði. Mér fannst ég vera sloppin út og vera svo frjáls. Sama tilfinning gerði vart við sig Svíþjóðarmegin við Eyrarsundsbrúna.

Við áttum stuttan en yndislegan tíma hjá fjölskyldunni okkar á Skáni; innan um háu trén hjá litlu lækjarsprænunni.
Seinni parturinn kom og tími til að halda áfram. Við Svala keyrðum Fúsa til Malmö þar sem hann tók lestina til Kastrup og flaug þaðan heim. Þá héldum við mæðgur í hina áttina, norður til Stokkhólms. Svala fékk að velja Podcast seríu því hún er yngri. Ég læt enn alltof mikið eftir dætrum mínum. Líklega læt ég meira eftir þeim í dag en í denn. Þessi börn eru orðin að uppteknum ungum konum sem full ástæða er til að láta allt eftir því þær biðja um svo sáralítið.

Við Svala keyrðum upp með vesturströnd Skánar þar sem við sáum yfir til Kaupmannahafnar. Sólin skein í heiði og Podcastið Stalker – den fatale tindermatch hljómaði í hátölurunum. Við vorum ekki búnar að keyra lengi þegar nestisboxin sem voru stútfull af rúgbrauði, grænmeti og öðru góðgæti, voru tekin fram. Ég keyrði. Svala horfði út um gluggann. Við nutum nestisins og Podcast þáttannna. Við nutum veðursins og þægilegar umferðarinnar. Nutum sænskrauðu sveitabæjanna og trjánna sem þutu fram hjá á ógnarhraða. Nutum samverunnar.

Eftir tæpa tvo tíma vorum við aftur orðnar svangar. Við stoppuðum á MAX sem mætti líkja við N1 við þjóðveg eitt  á Íslandi. MAX er allsstaðar. Við gengum að pöntunarskjánum og byrjuðum að pikka og skrolla og eftir örfáar sekúndur fékk ég valkvíðakast. Á sambærilegum stöðum í Danmörku og á N1 er úrvalið sorglegt fyrir fólk eins og okkur Svölu sem viljum borða sem mest úr plönturíkinu. En á MAX var um nóg að velja – Svíar eru bara alltaf meðetta. Þeir kunnetta. Alltaf. Sjáið bara:

  • Volvo
  • Astrid Lindgren
  • Einar Áskel
  • Stieg Larsson og Lisbeth Salander.
  • IKEA
  • Stellan Skarsgård
  • Eurovision (þeir eiga þessa keppni)
  • Acne studios
  • Zlatan (en ókei, við í Danmörku erum með Nadia Nadim)
  • og MAX

Á MAX staðnum tók Svala við stýrinu. Við vorum þremur korterum frá Jönköbing og Vättern, næst stærsta vatni í Svíþjóð. Hjá Gränna fórum við útaf hraðbrautinni og niður að Vättern þar sem sólin sleikti með síðustu geislum sínum spegilslétt vatnsyfirborðið. Ég var dauðfengin að vera ekki að keyra. Ég gat hallað mér aftur og virt fyrir mér sólarlagið og sveitabæina.

Þegar Svala hafði keyrt í um þrjá tíma, bauðst ég til að taka við. En stúlkan var óstöðvandi. Vinnandi upp sára litla keyrslu síðustu fjögur ár. Hún keyrði því alla leið og við kláruðum Podcast seríuna (sem er sönn og um Eydísi sem lendir í eltihrelli). Við vorum rúma sjö tíma á leiðinni frá Malmö með stoppum.

Í Stokkhólmi bjuggum við á hóteli í Hammarby Sjöstad, í útkantinum á miðbænum. Þar sem hægt er að leggja bílnum. Við tókum morgnunum rólega, eða ég gerði það, Svala þurfti að vinna svolítið, taka viðtöl og skipuleggja næsta útvarpsþátt. Það hentaði mér vel. Það er svo auðvelt að búa með henni á hóteli. Hún er tiltölulega róleg, líka í svefni og svo lesum við það sama, bókstaflega. Við höfðum báðar tekið með okkur Meistarann og Margarítu eftir Mikhail Bulgakov. Eini munurinn var að  mín var á íslensku og hennar á dönsku. Ég var komin 40 blaðsíðum lengra en hún. Hún skoraði mig á hólm. Sú sem yrði fyrr búin, fengi óvænta bók frá hinni. Hún vann sem kom engum ekki á óvart. Ég gaf henni bók. Mína uppáhaldsbók.

Aldís var að vinna til fjögur. Aldís býr í Stokkhólmi, þess vegna fórum við þangað. Á meðan Aldís var að vinna fórum við Svala í naglasnyrtingu, henni finnst gaman að hafa litríkar neglur, mér finnst gaman að vera ekki með yfirgnæfandi naglbönd.
Við röltum um og sáum hóp af fólki á mínum aldri og aðeins eldra standa með myndir af krökkum á stórum spjöldum. Ég náði að hugsa hverskonar hittingur þetta væri eiginlega áður en hópur af ungu fólki með hvítar húfur á höfðinu kom hlaupandi og  fagnandi niður brekku, þar sem það stansaði á stalli miðja vegu í brekkunni, setti tónlist í gang og byrjaði að dansa. Fullorðna fólkið með spjöldin dansaði með fyrir neðan brekkuna. Þegar dansað hafði verið við tvö lög, hljóp hersingin niður restina af brekkunni í faðm fullorðna fólksins sem óskaði þeim til hamingju með stúdentsprófið. Sinn er siður í landi hverju. Þessi fannst mér skemmtilegur.

Það var alveg ægilega heitt í Stokkhólmi þessa tvo daga sem við vorum þar. Eiginlega ólíft að mínu mati. Við sóttum sífelt í skuggana. Á meðan við biðum eftir Aldísi, kíktum við á kaffihús, torg, búðir og styttur. Við ætluðum að hittast á Södermalm. Á Drop Coffee. Loksins sá ég hana koma hlaupandi við fót yfir Wollmar Yxkullsgatan – það er ekki eins erfitt að segja þetta götunafn eins og virðist í fyrstu. Við höfðum ekki séð Aldísi í 10 mánuði. Ímyndið ykkur að sjá ekki barnið ykkar í 10 mánuði vegna alheimsfaralds eða einhvers annars sem ekki er sjálfvalið. Það var komið sár í hjartað í mér. Það var við það að klofna – í rauninni veit ég ekki á hverju eða hvernig það hékk saman. Þarna á Drop Coffee, gréri það. Aldís og Svala létu það samstundis gróa með því að vera sameinaðar með mér.

Við fórum yfir í Hammarby og borðuðum á indverskum stað; Namaskaar, sem ég mæli með ef þú ert á ferð um Stokkhólm og í þessu hverfi. Ég elska indverskan mat og þjónustuna á þessum stöðum. Bragðið er svo gott. Ég elska bragð af mat. Vel kryddað, ekki of sætt. Svala skilur ekki að ég sé ekki komin með leið á indverskum mat því henni finnst ég alltaf vilja indverskt.

Síðast þegar við vorum í Stokkhólmi skoðuðum við Södermalm, Gamla Stan, Vasastan og Östermalm. Ekki hvern krók og kima, heldur vorum við í þessum hverfum. Daginn eftir var Aldís aftur að vinna og fórum við Svala yfir í Norrmalm á meðan – þar höfðum við ekki verið. Ég var svo sem ekkert búin að kynna mér hverfið, hélt að það væru bara búðir. En það eru líka fallegar styttur, gosbrunnar, torg og góðir staðir til að borða á. Einn af þeim var Mummus Hummus – lítill staður sem gerði meira úr hummusnum en ég er vön. Vanalega borða ég hummus með mat. Eða ofan á rúgbrauð og set gúrkusneiðar ofan á ef það á að vera fínt. Eða kaupi arababrauð og dýfi því ofan í hummussinn og borða. Það er meira svona snarl. En þessi gaur sem var frá Jordan steikti til dæmis sveppi og timian og setti ofan á hummussinn. Eða kjúkling og sólþurrkaða tómata. Við fengum eggaldin og eitthvað fleira, skreytt með granaeplakjörnum og möndlum ásamt falafel og úr varð heljarinnar hádegisverður.

Þarna var hummussinn í aðalhlutverki. Ég elska hummus. Ég er sannfærð um að fólk sem fílar ekki hummus, hefur lent á slæmri útgáfu. Þær eru jafn misjafnar og þær eru margar. Í Danmörku er langbesti matvöruverslana hummusinn að fá frá Salling (Fötex og Bilka). Hann er svo kremaður og með fullkomið bragð. Ég smakkaði frá Kvickly um daginn og hann var frekar leiðinlegur. Á Íslandi smakkaði ég tvær gerðir og þær voru báðar bæði mjöl- og vatnskenndar. Mjög glataður hummus.
Um daginn steikti ég lauk, sveppi, kúrbít, hvítlauk og toppkál (það sem var til í ísskápnum og passar saman) og kryddaði með salti og pipar. Síðan smurði ég hummus á disk með háum börmum, setti steikarsoppuna ofan á, náði mér í arababrauð og skóf þetta upp með því og aðstoð hnífs. Þetta var svo gott að ég endurtók þetta daginn eftir og tók með mér á kvöldvaktina. Ég er að gera samstarfsfólk mitt vitlaust. Þeim finnst maturinn minn næstum alltaf spennandi, alltaf góð og framandi lykt, líta vel út og spyrja hvernig ég gera þetta eiginlega. Ég sem hef alltaf verið frekar aum í eldhúsi. Þeim finnst þær vera að kafna í fríkadellum, fiskifríkadellum og pasta bolognese. Segja að þeim detti ekkert annað í hug. Ég yppi bara öxlum og segi þeim að þetta sé svooo einfalt. Ef ég er í stuði læt ég þær fá uppskriftir.

Eftir að hafa dáðst að Norrmalmhverfinu, hittum við Aldísi á Skeppsholmen til að fara á Moderna nýlistasafnið. Eitt safn í ferð, kemur skapinu í lag. Enda sýna rannsóknir frá Harward að list hefur lækningarmátt. Er það ekki frábært? Væri þá ekki upplagt að læknisávísa safn og listasýningaferðum til að minnka lyfjanotkun? Kannski er það nú þegar gert einhversstaðar án þess að ég viti af því. Enda veit ég ekki allt um það sem er að gerast í heiminum, enda meðvitað hætt að horfa á kvöldfréttirnar.

Á síðasta deginum tókum við morgunmatnum rólega, settum eldsneyti á bílinn og fundum bílaþvottastöð. Það væri fyrir neðan allar hellur að bruna niður í gegnum Svíþjóð á skítugri Civic. Reyndar hræddi þessi bílaþvottastöð líftóruna úr mér og ég sá fyrir mér að við þyrftum að taka flugið heim. Þetta var ryðguð stöð sem rennir bílnum í gegn og ég óttaðist mjög hjólabúnað bílsins þar sem hann „skakklappaðist“ framhjá burstunum og blásaranum. Ég er vön stöðvum þar sem burstarnir færast fram og aftur og bíllinn er kjurr. Þær henta mér betur.

Við sóttum Aldísi eftir vinnu og héldum heim á leið – hún hafði ákveðið að koma með okkur þar sem hún vinnur enn heima og skiptir því litlu hvaðan hún gerir það. Við vorum tæpa tólf klukkutíma heim til Sønderborgar með stoppum og viðkomu á Nørrebro til að setja Svölu úr. Ég elska roadtrip með stelpunum. Alveg frá því þær voru pínulitlar höfum við notið þess að vera saman í bíl. Svona oftast. Þegar við vorum búnar að kveðja Svölu, var farið að skella á myrkur og við Aldís orðnar lúnar. Til þess að halda okkur vakandi síðustu þrjá tímana, var hækkað vel í græjunum og tónlistin þeirra Amy Winehouse, Lay Low og fleirri góðra fékk að óma um bílinn og yfir brýrnar heim til Sönderborgar. Aldís keyrði fyrrihlutann, ég seinni. Aldís vildi fá að sjá Sönderborg óáreitt þegar við myndum keyra yfir Alssundsbrúna, síðustu brúna í þessari ferð.

Nokkrum dögum seinna, kom Svala heim. Þá var allt fullkomnað.

Ykkar Dagný


 

 

One Response to “Mæðgnaferð til Stokkhólms

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *