Stríðsfiskur
… hvað er nú það?
Í seinni heimstyrjöldinni var of hættulegt að sækja fiskinn á haf út í dönsku lögsugunni. Hún var orðin full af kafbátum, herskipum og sprengjum.
En neyðin kenndi nöktum konum að spinna og hernumdu Danirnir voru skapandi og fundu leiðir til að halda fast í hefðirnar og reyna að njóta lífsins. Þeir fundu „staðgengla“ fyrir kaffi, te, tóbak og fisk! Þetta með fiskinn vissi ég ekki fyrr en fyrir stuttu. Það var seyðfirðingur sem sagði mér það og kenndi mér að elda hann.
Á stríðstímum varð/þarf að nota það sem hendi var/er næst. Ég skrifa líka í nútíð því enn geysa stríð víða í heiminum. Í seinni heimstyrjöldinni voru nípur (pastinak) notaðar í stað fisks og ætla ég að deila með ykkur nútíma uppskrift af stríðsfiski sem oftar er þó nefndur friðarfiskur í dag.
Fyrir fjóra.
300 g. stórar nípur (eða steinseljurætur, bragðið er keimlíkt).
2 dl. kjúklingabaunamjöl – eða eitthvað annað, t.d. bara hveiti. Að mínu mati á aldrei að hengja sig fast í uppskriftir, heldur bara nota það sem til er. Um daginn fórum við að róa á róðrarbrettinu í 3 stiga hita. Okkur var frekar kalt þegar við vorum búin og það eina sem ég hugsaði um á leiðinni heim voru hefðbundnar vöfflur með rjóma og sultu. Þegar heim var komið og ég ætlaði að skella í vöfflurnar átti ég ekki hveiti. Bara heilhveiti. Nú veit ég að heilhveitivöfflur með rjóma og sultu eru alveg jafn góðar.
2-2 1/2 dl. plöntumjólk
½ tsk. karrý
1 hnífsoddur af reyktu paprikudufti.
1 tsk. paprikuduft
1 feitur hvítlauksgeiri.
2 tsk. salt
Slatti af möluðum pipar.
Rasp (ég notaði pankó, það er eitthvað svo djúsí).
Aðferð.
Skrallið nípurnar og skerið þær langs í 0,5 cm þykkar sneiðar. Steikið þær upp úr olíu þangað til þær verða mjúkar. Ég sá í annarri uppskrift að þau voru bara soðnar í saltvatni í 4-5 mínútur, það er mikið fljótlegra – kannski ég geri það næst.
Hrærið saman í pönnukökuþykkt deig og veltið nípunum upp úr því. Þá næst raspinu og steikið. Ég notaði alla nípuna, líka endastykkin sem eru minni og spilaði tetris á pönnunni.
Stríðsfiskinn er hægt að borða á hefðbundinn íslenskan hátt; með kartöflum og hrásalati (coleslaw), eða ofan á rúgbrauð með remúlaði og sítrónu, eða eins og Danirnir; með soðnum kartöflum og steinseljusósu eða bara hverju sem er.
Okkur finnst þetta rosalega gott og ekki spillir fyrir að nípur eru hollar og mjög ódýrar.
(Remúlaðið er 50/50 blanda af Hellmanns vegan mayonesi og Piccalily frá Cervera – betra en hefðbundið remúlaði).
Mér varð einhverja hluta vegna hugsað til jökuldælinga þegar ég var að elda stríðsfiskinn – eða friðarfiskinn, ég get ekki ákveðið mig hvort nafnið ég vil nota.
Verði ykkur að góðu ef þið prófið.