6. nóvember 2020
Tímabilið frá maí til nóvember er og verður líklega alltaf smekkfullt af „afmælis“ dögum.
Í ár eru tvö ár frá þessu og tvö ár frá hinu. Í dag eru tvö ár frá síðustu lyfjameðferðinni.
Árið 2021 verða þrjú ár frá öllu saman.
Þó svo að ég reyni að dvelja ekki í fortíðinni og finnst ég ekki gera það, er samt gott og nauðsynlegt að líta annað slagið til baka og rifja upp. Fyrir mér snýst það um að sjá heildarmyndina. Svipað og þegar ég keyri bíl, þá ég horfi mest út um framrúðuna en verð samt að líta annað slagið í baksýnisspegilinn. Þegar ég gjóa augunum til baka, á ég auðveldara með að sætta mig við núverandi aðstæður. Það er skýring á þeim. Í viku 43 (nú er vika 45) var árlega krabbameinsvikan í danska sjónvarpinu. Ég keypti bolinn en horfði ekki á þessa sjónvarpsstöð alla vikuna, vegna þess að ég meika ekki að hrærast of mikið í þessu. Það gróir sem vökvað er og það er meining með að framrúðan í bílum er stærri en afturrúðan.