Þegar einar dyr lokast …

… opnast aðrar. Eða – þegar eitt land lokast, opnast annað.

Þannig upplifði ég það í sumarfríinu. Upphaflega ætluðum við heim til Íslands um páskana í allar fermingarnar en þeirri ferð og fermingunum var frestað til lok ágúst. Síðan lokar Ísland aftur (ég veit að það er rangt að skrifa lokar en þannig er samt upplifunin – það er skrítið að hafa ekki tök á að fara „heim“ og að vera heldur ekki velkomin heima) og ég fer að leita að plástri til að setja á sárið. Já, þetta sveið svolítið. Ég fann plásturinn í formi sumarbústaðs á Suður-Sjálandi. Við höfum alltaf verið arfaslök að ferðast um Danmörku þar sem Ísland hefur alltaf verið efst á forgangslistanum og útlönd númer tvö og því nóg eftir að sjá og upplifa hér. Við völdum Sjáland til að Svala og Julian, kærastinn hennar, gætu komið til okkar án mikils ferðalags (Kaupmannahöfn er á Sjálandi).

Með stuttum fyrirvara pöntuðum við bústað með lokuðum garði og þar sem mátti vera með hund þannig að Vaskur kom með okkur. Planið var að slaka á, lesa heilan helling og spila. Við fylltum bílinn þess vegna af bókum, spilum, já og mat. Ég gerði matarplan fyrir vikuna og tók allt nýtilegt matarkyns úr eldhúsinu okkar með. Ég hafði reiknað út að við ættum eftir að borða minnst 20 höfuðmáltíðir (morgun-, hádegis- og kvöldmat) þessa vikuna og því alltof mikið vesen og kostnaður að vera að versla það á staðnum. Eftir á að hyggja, var þetta mjög skynsamlegt og streituminnkandi. Ég myndi gera það sama aftur.

Húsið okkar var í skógarjaðri við fáfarin sveitaveg þar sem akurhænur, fasanar, hérar og hestar voru á vappi í kring. Það voru líka mismunandi ávaxtatré í garðinum og stjörnuhimininn sá fegursti sem ég hef séð á fullorðins árum. Reyndar líklega sá fegursti sem ég hef á ævinni séð, þótt ég viti að hann hafi verið fallegur á Tókastöðum í svörtu myrkrinu þar, en ég veitti honum aldrei eftirtekt, enda upptekin af að vera barn og unglingur þá.

Planið um að lesa helling og spila öllum stundum fór svolítið fyrir bí þar sem Suður Sjáland býður upp á ótal náttúruperlur og mikla sögu. Svæðið hlýtur að vera algjört gósenland fyrir jarð- eða risaeðlufræðinga. Ég óskaði þess allavega margoft að vera með slíka menntun eða vitneskju þessa vikuna. Við skoðuðum kalknámuna í Fakse sem geymir 63 milljóna ára gamla sögu, klettasvæðið á Stevns, klettasvæðið á Mön (tvisvar vegna veðurs), kastalagarðinn í Liselund og gamla kirkju þar sem hluti af henni eða kórinn hrundi í hafið snemma morguns árið 1928.

Báðar ferðirnar til Mön voru eftirminnilegar. Sú fyrri því að það hafði rignt allan fyrripartinn en það átti að stytta upp samkvæmt öllum veðuröppum þannig að við ákváðum að láta á það reyna. Frá sumarbústaðnum er um klukkustundar keyrsla og alla leiðina ringdi eins og hellt væri úr fötu og á sama tíma sýndu veðurspárnar sólina skína. Við héldum ótrauð áfram, kannski aðeins of bjartsýn því að það jók bara í vatnsmagnið. Þegar til Mön var komið, var ekki bara hægt að snúa við, svo það var ákveðið að hlaupa niður tröppurnar  sem eru um þúsund talsins, til að kíkja og síðan beint upp aftur, enda náði sjórinn upp að tröppum og þurfti að bíða eftir fráöldunni til að geta stiklað á steinum yfir í smá fjörupláss. Það eru mörg ár síðan mér hefur verið svona rosalega kalt þegar við komum heim enda hvergi þurr þráður á mér. Það rigndi ofan í skelina þrátt fyrir að vera með hettuna …

Þegar við reyndum aftur við Mön, skein sólin og allt var hlýtt og gott. Við Svala fórum bara tvær. Julian var farinn til fjölskyldu sinnar í Aarhus og Fúsi valdi að eiga einn lestrardag. Vaskur afþakkaði 1000 tröppur pent og taldi sig hafa gott af vera heima í rólegheitunum.

 

Við vígðum kærastann hennar Svölu inn í fjölskylduna með því að horfa á Kill Bill eitt kvöldið en Kill Bill myndirnar og Moulin Rouge eru löngu krýndar sem fjölskyldumyndir númer eitt, tvö og þrjú. Við nutum þess að þurfa ekki að þvo þvott eða þrífa né að slá grasið í garðinum og við borðuðum mikið af góðum mat. Auk þess fengum við lengst úti í sveit, bestu vegan köku sem ég hef smakkað. Þetta var í Liselund sem er vinsæll ferðamannastaður þar sem mikið af þjóðverjum leggja leið sína og þeir eru margir hverjir veganistar.

Sumarfríið fór allt öðruvísi en ætlað var, en það fór alls ekki verr. Stundum þarf ekki að leita langt yfir skammt til að upplifanirnar verði jafngóðar og jafnvel betri. Þetta sumarfrí var ódýrara en Íslandsferð, kolefnissporið var mikið minna, hvíldin var meiri, rútínan (svefn og næring) hélst, Vaskur gat verið með, náttúran og umhverfið kom mjög skemmtilega á óvart og svona mætti lengi upp telja. Auðvitað er spælandi að hitta ekki fjölskylduna og vini þetta sumarið (árið?) en það er eitthvað sem þarf að sætta sig við. Kannski þurfum við að sætta okkur við að framtíðin er á Facetime?

Bein leið á fleiri myndir úr sumarfríinu okkar er á Facebook síðunni minni og þú getur ýtt hér.

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *