Afhverju Nicolas Cage?

Allt virðist svo mikið í röð og reglu. Allir reikningar eru greiddir, allt vel skipulagt og hugsað í þaula. Allt í föstum skorðum. Ein mjög náin mér sagði við mig um daginn að hún væri orðin minna kærulaus, minna hvatvís. Ábyrgðarfyllri. Leiðinlegri. Hún hefur alltaf verið mikið hvatvísari en ég. Ég var samt hvatvísari hér áður fyrr en ég er núna. Núna er ég svolítið orðin sú sem segir: augnablik, ég ætla að kíkja í kalandarinn minn … Ég viðurkenni að mér þykir gott að vera með eitthvað skipulag. Mér finnst þessi nákomna ekki vera orðin leiðinlegri, en mér finnst ég sjálf aftur á móti orðin leiðinlegri.
Einu sinni var ég sú sem efndi til skrifstofustólakappaksturs þegar keyptir voru nýjir stólar í vinnunni. Það þurfti að prufukeyra stólana. Það var mjög gaman. Ég myndi líklega ekki gera það í dag – langt komin á fimmtudagsaldurinn.

Ég er samt svo langt frá því að vera með allt í röð og reglu, ég meina, stundum hrynja plastdallar í bókstaflega hausinn á mér þegar ég opna efri skápinn (það gerist reyndar oft) og ég er enn sú sem getur sofið yfir sig. Það hefur reyndar ekki gerst síðan ég byrjaði að vinna aftur, en ég veit að það á eftir að gerast því að ég er sú sem ég er. Og það er í lagi. Það er ein í vinnunni minni sem hefur bara einu sinni sofið yfir sig. Hún vaknaði 06:49 og átti að mæta kl. 7. Hún náði því. Hún býr í næstu götu við sjúkrahúsið. En hún var allan daginn að jafna sig á þessu áfalli og þetta mun sko ekki koma fyrir aftur – að hennar sögn. Þetta var árið 2013. Ég veit þetta svona vel því að við vorum að ræða þetta í vinnunni um daginn. Glætan að ég fái áfall ef ég sef yfir mig í vinnunni. Mér bregður svolítið þegar ég uppgötva hvað klukkan er en þegar ég er búin að hringja upp í vinnu og láta vita, er læt ég mér vera slétt sama. Ég get engu breytt. Og svona hálf tíma eftir að ég er mætt, er ég venjulega búin að gleyma að ég svaf yfir mig og þegar Danirnir spyrja: Nåh sov du godt? svara ég bara með jái og skil ekki skotið. Mér finnst þetta góður eiginleiki hjá mér. Ekki samt halda að ég stundi það að sofa yfir mig, en það getur gerst. Ég vil samt frekar vera sú sem fæ plastdalla í hausinn og sefur yfir sig en sú sem aldrei feilar. Sú hlýtur að lifa leiðinlegu lífi.

Mánudagar geta líka verið svolítið ruglingslegir hjá mér ef ég þarf að mæta í vinnu. Það er sjaldgjæft að allt gangi snuðrulaust fyrir sig í byrjun dags. Ég hef m.a.

  • gleymt að skipta um föt (fara í hjúkkufötin) og labbaði inn á deild í síðum bláum blúndukjól.
  • gleymt að skipta um buxur og labbaði hálf ég og hálf hjúkka inn á deild.
  • labbað fram á gang í hjúkkubol en engum buxum.
  • gleymt veskinu heima og uppgötvað það þegar ég var hálfnuð í vinnuna (það er um kílómetri í vinnuna og ég hjóla).
  • gleymt veskinu heima og uppgötvað það þegar ég var komin upp á sjúkrahús.
  • gleymt nestinu margoft heima og uppgötvað það á misjöfnum stöðum á leiðinni upp á sjúkrahús.
  • margoft reynt að brjótast inn í skápinn við hliðina á mínum og ekkert skilið í að þessi helvítis hengilás sé bara allt öðruvísi en hann var fyrir helgi.

Og svona má lengi upp telja. Þetta getur verið smá pirrandi en á móti kemur, fær þetta mig til að brosa, jafnvel hlæja. Því það er betra að hlæja af minniháttar mistökum heldur en að gráta þau.

Þrátt fyrir að vera þessi týpa sem lifir ekki alveg fullkomnu og snuðrulausu lífi, er ég samt orðin leiðinlegri enn ég var og mér finnst það synd. Það var skemmtilegra að efna til skrifstofustólakappaksturs, vakna timbruð á sunnudagsmorgnum eftir að hafa hjólað syngjandi heim (mæli samt alls ekki með því), stelast upp á sjúkrahúsþakið til að taka prófílmynd fyrir Facebook o.s.frv. Þegar yogakennarinn minn hún Kassandra sagði einn daginn að ég ætti að vera kjánaleg og fíflast aðeins, tók ég það til mín og velti fyrir mér hvernig.
Örfáum dögum seinna kom tækifærið. Ég var í vinnunni og samstarfsmaður minn kom til mín til að leysa mig af í kaffi. Ég reisti mig upp frá tölvunni og fór. Og eins kærulaus og ég get þó verið, þrátt fyrir allt, skildi ég tölvuna mína eftir opna, enda ekkert þar að fela. Við eigum samt að skrá okkur út í hvert skipti, öryggisins vegna. Þegar ég kom til baka korteri seinna, héngu lamineraðar myndir af mér út um alla deild, þar sem búið var að teikna á mig gleraugu, skegg og fleira. Samstarfsmaður minn sem er gamli klíníski kennaramakkerinn minn og þekkir mig mjög vel, hafði rekið augun í ofurlítið íkón á skrifborðinu á tölvunni sem var vinnumynd af mér og dró hana beinustu leið yfir Paint forritið og dundaði sér á meðan ég drakk kaffið mitt grandalaus. Hann vissi að ég hefði gaman að þessu sem og ég hafði. En þetta kallaði á hefnd. Nokkrum dögum seinna var ég á kvöldvakt og kennaraskrifstofan er alltaf ólæst. Ég fór með límband og límdi allt sem var á borðinu fast niður í borðið – músina, lyklaborðið, penna, blokk, litla mjólkurþríhyrninga, óhreinan kaffibolla, tóma kókflösku, strokleður og fleira. Ég skemmti mér stórvel.

Nokkru seinna kom ég í vinnuna og fann vinnubókina mína (vasabók með plastvösum sem innihalda hinar ýmsu verklagslýsingar)  liggjandi á glámbekk, ég hafði auðvitað gleymt henni einhversstaðar. Þegar ég ætlaði að fletta í henni, voru allar blaðsíðurnar límdar saman. Það var brostið á stríð.
Við fyrsta tækifæri og eftir stutta umhugsun, var hent í næsta slag. Ég prentaði út 27 andlitsmyndir af Nicolas Cage og laumaðist inn á kennaraskrifstofuna í skjóli myrkus á einni rólegri kvöldvakt. Nicolas var límdur upp um alla veggi, á tölvuskjáinn og á rúðurnar. Ég ákvað að ganga aðeins lengra, fór inn á kaffistofu, skreið þar út um gluggann og læddist yfir þakið og límdi Nicolas á rúðurnar utan frá með andlitið inn. Mér fannst þetta svo fyndið að litlu munaði að ég pissaði smá í mig – þarna fannst mér vera ég sjálf.
Dagana eftir var algengasta spurningin á deildinni: Hey, afhverju Nicolas Cage? Já afhverju hann, spurði ég á móti.

 

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *