Hvað getum við gert?
Í morgun var ég að hlusta á Rás 1 og þar var þetta ljóð lesið upp:
Er það heilög himnesk sjón
hér á frjórri nægtarströnd,
börnum numlegt náðarbrauð
náköld skammtar okkar hönd.
Getur þessi tregatónn
táknað sögn né gleði óð?
Sástu fyrr svo blásnauð börn?
Byggir landið fátæk þjóð.
Þeirra sáðjörð ófrjó er,
engin sól frá himni skín.
Þeirra braut er þyrnum stráð,
þar sem aldrei vetur dvín.
Hvar sem sól á himni skín
þar sem daggir vökva láð.
Ungbarn soltið aldrei fær,
engin fátækt hugann þjáð.
Ljóðið er eftir William Blake og þýtt af Þóroddi Guðmundssyni. William orti ljóðið árið 1700 og eitthvað.
Það athyglisverða er, að í dag, árið 2020, er það sama uppi á teningnum. Úti um allan heim svelta blásnauð börn á meðan við hin syndum í sundlaugum vellystinganna. Úrvalið er svo mikið að okkur er ráðlagt að versla alltaf í sama kaupfélaginu til að halda sönsum. Sum okkar verða pirruð ef að við fáum ekki jarðarber í janúar og ef beikonið er búið í búðinni. Sum okkar vilja alltaf eiga beikon og setja það á allt. Kaninn pantar sér 340 gramma nautasteik og klárar hana upp til agna.
Síðan bankar Rauði Krossinn, Unicef eða Hjálparstofnun Kirkjunnar upp á og biðja um pening til að geta mettað soltnu börnin. Við erum auðvitað 500kalls aflögufær, fáum góða samvisku því að okkur finnst við hafa gert stórgóðverk, köllum síðan á krakkana í kvöldmat og allt er gott.
Ef allir sem geta, myndu minnka neysluna bara örlítið á því sem tærir jörðina mest, væri hægt að metta langflesta, ekki bara okkur sjálf sem efni hafa á.