Minning um beykitréð.
Okkar ástkæra beykitré er fallið niður.
Myndin er tekin í febrúar 2014.
Myndin er tekin 13. mars 2020.
Almennt getur beyki orðið allt að þrjú hundruð ára gamalt og er 250 ár algengur aldur. Hæsta beykitré Danmerkur er 44,5 metra hátt.
Ég veit ekki hversu gamalt fallna beykitréð varð né hversu hátt það var en síðustu tuttugu árin var farið að halla verulega undan rótum þess.
Við fluttum til Sönderborgar árið 2001 og nokkrum árum seinna fórum við fjölskyldan að venja komur okkar í skóginn á hjólum. Við hjóluðum oftast meðfram ströndinni og vatninu Fredsmaj og út á bakkana. Yfirleitt var þetta mikil hættuför vegna þess að á stuttum spotta uppi á háu bökkunum var hægt að velja tvær leiðir. Önnur var á breiðum og öruggum stígnum en hin á örmjórri götu, alveg á kantinum. Þar varð að teyma hjólin og passa sig. Þessa mjóu götu völdum við alltaf því að það varð að vera smá spenna. Þessi kafli er hruninn fyrir nokkrum árum síðan. Einnig hefur þessi leið meðfram ströndinni og Fredsmaj, verið illfær/ófær hjólum síðan í oktober 2013 þegar stormurinn Allan sló met í Danmörku.
Á þessum hjólatúrum dáðumst við oft að trjánum sem héldu fast í lífið þrátt fyrir hallann og þá sérstaklega að þessu tré.
Eftir að Vaskur kom til sögunnar 2013, fjölgaði skógarferðunum til muna og hef ég ótalsinnum staldrað við og virt fyrir mér seiglu þessa trés.
Eftir því sem árin liðu, hallaði það meira og meira. Stundum velti ég því fyrir mér hvort að nágrannatrén héldu í það? Aldís og Greg gáfu okkur bók í jólagjöf sem heitir Træernes hemmelige liv eða Leyndarmál trjáanna. Eftir að hafa gluggað í hana, hljómaði það rökrétt.
Beykitréð féll í viku 11 árið 2020. Ef að ég reyni að koma nánar inn á dagsetninguna, myndi ég giska á 12. mars. En sú ályktun er miðuð við að það var ekki fallið fyrr í vikunni og veðrið þann tólfta var þesslegt að það gat grandað gömlu tré sem mátti ekki við miklu.
Vorið 2018.
Við Vaskur gengum niður brekkuna um sexleytið og hjartað í mér tók kipp þegar ég sá skarðið í samfélagi trjánna.
13. mars 2020.
Veðrið var grátt, það ringdi og vindurinn reif í okkur. Það viðraði ekki til myndatöku, þess vegna voru myndirnar teknar daginn eftir fall beykitrésins.
Við Vaskur gengum nær og ég trúði þessu eiginlega ekki, gat verið að ég væri að ruglast? Var ég annarsstaðar í skóginum en ég hélt? Beykitréð hafði bara alltaf verið þarna. Fastur punktur á gönguferðunum. Eilíf lífsseigla. Eilífð aðdáun af minni hálfu.
Þegar við komum niður að brúninni, blasti beykitréð við okkur, liggjandi í gröf sinni – fjörunni sem hefur beðið eftir að taka á móti því og vefja það steinum, sjó og salti. Tréð gegnir nú nýju hlutverki þar sem það er orðið hluti af öðru vistkerfi.
Oft heyrast gagnrýnisraddir um að það eigi ekki að persónugera dýr, plöntur og aðrar lífverur sem eru ekki mennskar. Afhverju ekki? Hvernig berum við fulla virðingu fyrir lífríkinu ef ekki má persónugera? Hvernig berum við fulla virðingu fyrir næringunni okkar ef ekki má persónugera? Því meiri virðing, því minni sóun á næringu. Tré er ekki bara tré, hæna er ekki bara hæna, gúrka er ekki bara gúrka. Að mínu mati á ekki að slíta upp blóm eða traðka á könguló bara að gamni og án tilgangs. Afhverju er kötturinn skammaður fyrir að koma með dauðan fugl inn í eldhús á meðan verksmiðjuframleiddum kjúklingi er stungið í ofninn? Afhverju þykir ljúffengt at borða eistun af föllnu nauti í nautaati en ógeðslegt að borða eistu fallna nautabanans? Eru eistu ekki bara eistu? Langflest líf á jörðinni hefur einhvern tilgang sem okkur ber að virða og þakka fyrir í staðinn fyrir að taka því sem sjálfsögðum og eilífum hlut.
Þess vegna leyfi ég mér að syrgja lífseiga og staðfasta beykitréð og minnast þess um ókomin ár.
Af moldu ertu komin, af moldu muntu aftur verða.
Elsku beykitréð.
Það hvílir á góðum stað og við munum njóta þess að staldra við, tilla okkur á það og virða fyrir okkur fallegt umhverfið þar sem engin vandamál finnast, engar áhyggjur eru og algjör friður ríkir.
Flott hjá þer, alltaf góð, algjörlega sammála og sérstaklega með köttinn og fuglana
Fallega skrifað!