Ský með gati.
5. júlí 2018 byrjaði ég að horfa eftir og safna steinum með götum þegar ég gekk eftir fjörunni. Þetta var ágætis iðja, því að í þessu felst einbeitning og nærskoðun á umhverfinu. En svo fór garðurinn að fyllast af grjóti og grjótið flæddi inn í stofu, þannig að ég varð að hætta. Fyrir utan að steinarnir eiga meira heima í fjörunni en í miðbænum.
Í dag fann ég mér aðra iðju á göngutúrunum en það er að horfa eftir skýjum með götum.
Held að þessi iðja henti mér ágætlega því að með þessu verð ég að horfa upp og fram á við með höfuðið hátt. Auk þess hugsa ég ekki um neitt annað á meðan, sem getur verið mjög svo ágætt.
Það var gat í skýinu fyrir miðju sem lokaðist þegar ég seildist í vasann eftir símanum til að taka mynd. Skýin eru nefnilega svo hraðbreytileg eins og lífið.
Í dag var þriðji í fyrsta vormánuðinum af þremur, samkvæmt dagatalinu. Vetrarblómin eru sprungin út fyrir þó nokkru en það eru m.a. vetrargosarnir, krókusinn og erantis. Páskaliljurnar eru að springa út þessa dagana þó að það sé húfuveður þegar gengið er úti á berangri.
Grasið er ekki orðið grænt, það er alltaf grænt – nema þegar það sólin steikir það á sumrin og það verður gult.
Í ár hefur rignt og rignt. Sumir segja látlaust og þeir hafa víst rétt fyrir sér, því að á mörgum stöðum hafa myndast pollar eins og þessi á myndinni fyrir ofan.
Samt dregur alltaf ský frá sólu og það styttir upp inn á milli, eiginlega á hverjum degi. Mér finnst annað hvort rigna fyrir hádegi eða eftir hádegi. Það var allavega þannig í dag og í gær.
Stundum förum við með hádegismatinn út í náttúruna og borðum hann þar því að matur smakkast bara betur úti og það er vel hægt að borða í vettlingum.