Hvorum megin viltu vera?
Erum við mannskepnurnar sítuðandi? Já stundum, við tuðum yfir rigningunni og ríkisstjórninni. Hrekkjavökunni og Valentínusardeginum. Gísla Marteini og grænkerum. Við erum sítuðandi spendýr. Ekki öll samt, en mörg.
Það er mjög misjafnt hvernig tuð fer í fólk. Sumum virðist líka það vel á meðan það fer illa í aðra. Oftast er tuð tilgangslaust og hefur sáralítið uppbyggilegt í för með sér. Sérstaklega þegar tuðað er yfir einhverju sem ekki er hægt að breyta eða hafa áhrif á, eins og t.d. veðrinu. Eða þegar tuðað er yfir einhverju sem hægt er að hafa áhrif á, en það er ekki gert. Bara tuðað. Eins og t.d. yfir ríkisstjórninni. Tilhvers að tuða yfir henni og sleppa því t.d. að kjósa eða reyna að hafa áhrif til að breyta til hins betra. Statusar á Facebook munu sáralitlu breyta.
Í fyrradag var Valentínusardagurinn sem heitir eftir rómverska prestinum Valentín. Hann vígði hermenn, þrátt fyrir að keisarinn Claudius II hafði harbannað hermönnum að ganga í hjónabönd. Þetta gerðist á fimmtu öldinni niður í Ítalíu. Valentín var talsmaður ástarinnar.
Í fyrradag voru ófáar tuðuppfærslurnar á Facebook þar sem besta fólk tuðaði yfir deginum og hefðunum sem honum fylgir. Mitt ráð er að taka ekki þátt í þessari hefð ef að hún fer ógurlega í taugarnar á fólki. Gerið bara eitthvað annað í staðinn. Það sama á við um Hrekkjavökuna. Ef að sú gamla hefð borast djúpt inn í fínustu taugarnar, eins og hún virðist gera hjá mörgum, þá er bara best að sleppa því að taka þátt og færa athyglina yfir á eitthvað sem veitir gleði og ánægju.
Svo er það Gísli Marteinn. Ég bara skil ekki afhverju hann er svona umdeildur. Ég sé ljóshærðan breiðbrosandi mann sem dreifir gleði til hægri og vinstri. Þættirnir hans Vikan á RÚV, eru ekkert nema jákvæðnin og skemmtilegheitin og hann er passlega hress og þægilegur í útvarpinu um helgar. Fyrir utan það verð ég lítið vör við hann. Ef að ég þyrfti að bæta við bróður, þá myndi ég velja mér Gísla. En það kemur líklega ekki til þess. Maggi er nóg. Samt sem áður, langar mig til að gefa tuðurum skothelt ráð; skiptið um stöð eða rás. Það er úr nógu að velja. Reynið að forðast að yfirfæra neikvæðar og tilgangslausar skoðanir ykkar yfir á ættingja og vini.
Grænkerar virðast enn verri en Gísli, því samkvæmt athugasemdum og stöðuuppfærslum, ætla þeir að sleppa öllum búfénaði út og fylla plánetuna af lausagangi. Auk þess virðast þeir vera að eyðileggja móður Jörð með soya- og maísneyslu …? Aftur skal ég ausa úr góðraráðaskálinni minni: Reynum að virða lífsstíl hvers og eins. Gerum allavega okkar besta. Við erum endalaust að velja misjafnt og það er vonlaust að vera sammála öllu því sem að hinir velja sér, en við þurfum ekki að vera óvinir vegna þess. Tölum frekar saman og hlustum af alvöru á hvort annað. Byggjum brú og mætumst á henni miðri.
Tuð er tærandi.
Tuð er tilgangslaust.
Tuð er eins og dauður túlipani.
Áður en við tuðum, ættum við að velta fyrir okkur hvort tuðið skipti raunverulegu máli. Hvort það hafi eitthvað jákvætt í för með sér og hvort það hafi eitthvað gildi fyrir aðra í kringum okkur. Afhverju skyldi okkur finnast okkar eigin skoðanir, byggðar á eigin tilfinningum og án rökstuðnings, svona mikilvægar? Ég þoli ekki Valentínusardaginn, er skoðun byggð á tilfinningum sem virkar svipað og skot úr haglabyssu. Fólk fær eitt hagl í sig og það er óþægilegt, án þess að vera hættulegt. Að tuða svona gildislaust og án nokkurs uppbyggislegs rökstuðning gerir lítið annað en að dreyfa neikvæðnishöglum í kringum sig.
Hvort sérð þú Rubins vasann eða manneskjurnar. Hvort ertu jákvæðu megin eða neikvæðu megin í lífinu? Hvoru megin viltu vera? Hvoru megin líður þér betur?
Þetta var tuð dagsins.
Kær kveðja
Takk kæra vinkona fyrir frábæran lestur og til hamingju með karlinn, gefðu honum stórt knús í tilefni afmælis 🙂
Flottur pistill og margt til í þessu. Ef mér líkar ekki efnið þá sneiði ég hjá því já og slekk á sjónvarpinu og geri eitthvað sem mig langar að gera.
Æjji eins og talað úr mínum munni afskaplega geta margir látið margt fara i taugarnar á sér. ?