Þakklæti dagsins.
Eftir velheppnaða og yfirstaðna helgi sem að ég varði á suðvestur horni Íslands, er ég þakklát fyrir:
–Að eiga systkini eins og þessi tvö sem mér þykir óendanlega vænt um. Aldís dóttir mín segir að þetta sé skemmtileg mynd því að það sjáist að ég sé elst, svo kemur Maggi og Elva Rakel yngst. Er möguleiki á að Aldís þurfi gleraugu?
Á myndinni sjáiði Elvu Rakel sem er sister from another mother,
mig og Magga sem er brother from another father
– í bókstaflegri merkingu.
–Að eiga dóttur sem er til í að verja ultra stuttri helgi með fjölskyldunni sinni á Íslandi og taka þátt í að fagna fertugsafmæli móðursystur sinnar.
Þarna er Aldís stödd á Shoplifter sýningunni í Listasafni Reykjavíkur.
–Að eiga frænku eins og Ástu frænku sem er bara svo frábær og sá til þess að flugið mitt heim til Danmerkur í gær væri með allra besta móti.
Höfuðborgarsvæðið.
–Að eiga dóttur í Kaupmannahöfn sem spjarar sig svo vel í höfuðborginni og les Hrafnkelssögu Freysgoða þessa dagana. Ég sagði henni að hún gæti nú aldeilis slegið um sig í Hrafnkelstímunum í skólanum og sagt: „Hey, afi minn fæddist á Aðalbóli og sálfræðingurinn hennar mömmu er frá Hrafnkelsdal. Ég veit líka hvar Selfljótið er, já og Skriðdalurinn.“ Hún myndi eflaust slá í gegn.
Um daginn voru þau að lesa Völuspá úr Eddukvæðunum og Svala var beðin um að fara með eitt erindi á forníslensku fyrir framan bekkinn.
–Að eiga mann sem sá til þess að allt þetta beisik (sem er beisik fyrir mér) var til í ísskápnum þegar ég kom heim seint í gærkvöldi.
–Að eiga hund sem er til í að fara út í rigningu og 14 m/s til að smala mávum á ströndinni. Sólin hleður mig líkt og hún gerir við Mugison, en vindur og rigning gerir það líka. Að vera úti hleður mig.
–Auk þess er ég þakklát fyrir að Hildur Guðna og Joaquin Phoenix hafi unnið Óskarinn. Ég hélt nefnilega með þeim og mér finnst líka ræðurnar þeirra beggja vera frábærar.
Ykkar