Sjö sturlaðar staðreyndir – Af gefnu tilefni …

Fyrsta.

Ég er 168 sentimetrar á hæð en þegar ég fer í vinnuskóna mína, hækka ég um fjóra til fimm sentímetra (segjum fimm) og þegar ég helli stívelsispúðri í hárið og greiði það upp og aftur, hækka ég um aðra 4-5 sentímetra (segjum fimm), þannig að ég lít út fyrir að vera 178 sentímetrar á hæð þegar ég er í vinnunni.

Önnur.

Ég var að vinna í Noregi fyrir danskt afleysingafyrirtæki áður en ég veiktist. Ég var ekki fastráðin heldur freelancer. Ég sá sjálf um að borga í lífeyrissjóðinn og átti ekki rétt á veikindafríi frá fyrirtækinu. Svoleiðis er freelancelífið. Þess vegna fékk ég sjúkradagpeninga frá bæjarfélaginu þegar ég fór í veikindafrí sem að ég hélt að yrði í mesta lagi sex vikna langt. Ég hirti því ekki um að vinna mér inn réttindi sem hefðu skilað mér inn hæstu mögulegu sjúkradagpeningum. Sjúkradagpeningakerfið tekur nefnilega mið af meðaltali fjölda unnina tíma á viku, þremur vikum fyrir veikindi. Ég hafði unnið að meðaltali 25 tíma á viku – þess vegna vann ég í Noregi – ég naut þess að eiga mikið frí. En þetta gerði það að verkum að sjúkradagpeningarnir síðustu 18 mánuði hafa verið einn þriðji til einn fjórði hluti af laununum sem að ég hafði fyrir veikindi.
Ef að ég hefði verið fastráðin á Gjörinu í Sönderborg þegar ég veiktist, hefði það verið allt önnur Ella.

Þriðja.

Ég get mögulega verið atvinnulaus þegar veikindaleyfinu líkur þann 1. apríl 2020 (dagsetningin er samkvæmt læknisráði), því að Noregsvinnan hentar ekki í núverandi aðstæðum. En atvinnuleysi hentar mér ekki heldur og þess vegna er ég byrjuð í starfsþjálfun á gamla vinnustaðnum mínum; Gjörinu í Sönderborg. Það æxlaðist þannig að ég hafði samband við Gjörið um daginn og spurði hvort ég gæti komið í starfsþjálfun og var svarið játandi. Þá hafði ég samband við bæjarfélagið og sagðist vilja fara í starfsþjálfun á Gjörið.
Aukastaðreyndir: Starfsþjálfun er ekki launuð. Ég fæ áfram mína sjúkradagpeninga frá bænum. Starfsþjálfunin gengur út á að prófa mig og getu mína; andlega, líkamlega og vitsmunalega. Ég ber enga ábyrgð í vinnunni. Ég þarf að rifja upp, læra nýtt og aðlagast. Fyrstu tvær vikurnar er ég að vinna tvo tíma í einu, tvo daga í viku. Aldrei hefði mér rennt í grun hversu erfitt það getur verið að vinna tvo tíma í einu. Hvað er að mér eiginlega? Ég næ varla andanum þegar ég kem heim. 

Fjórða.

Ég fékk sogæðabjúg á vinstri fótlegg í apríl 2019 og það er ólíklegt að hann gangi til baka. En ég get haldið bjúgnum niðri með því að fara eftir settum reglum; hreyft mig smá, ekki of mikið, borðað hollt og verið í sexy sokknum sem að ég fékk til að vera í allan daginn alltaf. Ef að ég sleppi því að fara í hann, er voðinn vís. Ég gerði tilraun í haust og var sokkalaus í þrjá daga og þyngdist um tæplega fjögur kíló.

Fimmta.

Ég hætti við að fara á breytingarskeiðið því að ég met lífsgæði mikils. Í haust fóru nokkrar vikur í pælingar og spekúlasjónir ásamt samtöl við þrjá lækna til að komast að þessari niðurstöðu. 

Sjötta.

Ég tel mig ekki hafa lent í læknamistökum. Það er samt hægt að „klaga“ ferli án þess að um mistök sé að ræða. Ferlið getur hafa valdið það miklum sviða og sársauka að möguleiki er á að fá plástur á sárið. 

Sjöunda.

Ég er með 12 ör á 0,10 fermetra svæði á kviðnum. Þau eru jafn misjöfn og þau eru mörg og ég þekki hvert eitt og einasta og veit afhverju og hvenær ég fékk þau. Hvert ör á sér sögu og á bakvið hverja sögu eru tilfinningar.

Örin mín eru tákn um ótta, sorg og sársauka,
létti, gleði, bros og tár.
Þau merkja
 streitu og sár.
Örin eru merki um lærdóm og reynslu,
þakklæti,
sátt,
og þrótt mitt og þrek.
Afrek.
Örin á maganum mínum eru meistaraverk. 

–Dagný

2 Responses to “Sjö sturlaðar staðreyndir – Af gefnu tilefni …

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *