Sæl og blessuð gæskan. Já sæl.
Jæja þá er komið að því.
Að hverju?
Nú að stíga fyrsta skrefið út á vinnumarkaðinn aftur.
Í alvörunni? Ertu að byrja í starfsþjálfun á morgun?
Jebb, eftir eitt og hálft ár í veikindaleyfi.
Já vá … Þú verður að fara varlega! Byrja hægt og hlusta á líkamann og andlegu hliðina og allt það. Ertu vitsmunalega skert?
Já svolítið.
Hvernig þá?
Skammtímaminnið er ekki nógu gott og þolið takmarkað.
Hvernig þá?
Tja, til dæmis fæ ég oft skyndilega nóg þegar ég er innan um fólk og verð bara að fara heim. Líka ef að ég spyr að einhverju einföldu og býst við einföldu svari en fæ 1000 orða langt svar. Þá er eins og einhver hafi helt steypu ofan í lungun á mér sem harðnar á svipstundu og það eina sem ég hugsa um er: HVERNIG KEMST ÉG Í BURTU. Oftast finn ég útgönguleið en það er hægara sagt en gert í vinnunni.
Hvernig ætlarðu að tækla það?
Það er nú það … Ég hoppa líklega bara út um gluggann ef ég verð króguð af.
Láttu ekki svona, þú ferð ekkert að kála þér bara af því að einhver talar svo mikið að þér finnst þú vera að kafna.
Nei nei, Gjörið er ekki það hátt uppi að fólk deyi af því að hoppa út um gluggann. Sumstaðar kemst ég beint út á þak og get farið inn annarsstaðar. Það er snilld því þannig get ég flúið erfiðar aðstæður.
Kannski ætti þú frekar að læra að tækla þær. Einhverntímann og einhvern veginn verðurðu að tækla talandi lækna á stofugangi og aðstandendur í áfalli. Hlakkar þú annars til að byrja?
Já smá en samt ekki. Alveg þangað til um helgina hlakkaði ég 80% til og var 20% taugaóstyrk. Nú hefur það snúist við þannig að taugaóstyrkleikinn er 80% og tilhlökkunin 20%.
Hva, þetta verður ekkert mál, þú ert að fara á Gjörið, gömlu vinnuna þína, allir þekkja þig, þú þekkir sérsviðið og sagðirðu mér ekki um daginn að þetta væru bara tveir tímar í einu, tvisvar í viku fyrstu vikuna?
Ekkert mál? Þú heldur það … Það eru tvö og hálft ár síðan ég var að vinna á Gjörinu í Sönderborg, ég vann í Noregi mannstu og svo ég er búin að vera eitt og hálf ár í veikindaleyfi, helmingurinn af starfsfólkinu er nýtt, ég þarf að kynnast 25 nýjum hjúkkum og slatta af læknum, deildin er nýuppgerð og gjörbreytt og ég er líkamlega og vitsmunalega skert eins og ég vaaar að segja þér. Þetta verður huge. Hugsaðu þér ef að sondumaturinn klárast hjá sjúklingi og ég gleymi að slökkva á insúlíndælunni af því að mynnið er í molum – þá getur sjúklingurinn dáið. Vinnutengt sjálfstraust hefur líka beðið hnekki skal ég segja þér. Einu sinni var ég ein af þeim sem kunni og vissi nánast allt á Gjörinu, ein af þeim sem gat kastað 10 boltum upp í loftið og gripið þá alla aftur án teljandi vandræða. Ég vann 100% vinnu, var sjaldan veik og reytti af mér aulabrandara lon og don. Núna þegar ég mæti á morgun verð ég eins og hvolpur. Ég á bara að elta Janne, ég fæ enga ábyrgð (sem betur fer) og ég mun heilsa gömlu nemunum mínum sem er núna búið að ráða því þeir eru orðnir hjúkrunarfræðingar. Núna eru þeir í 100% vinnu og sjaldan veikir. Ég verð bólusetta týpan!
Bólusetta týpan? Hvað meinarðu?
Ég meina, ég er 44 ára og búin að fá flensusprautuna eins og hver annar ellilífeyrisþegi og krónískur sjúklingur. Ég fór til læknis í dag til að panta stuðningssokk á hina löppina og hún vildi endilega sprauta mig. Hún sagði að lyfjameðferðarlyfin væru enn að gera usla og jú jú það fer svo sem ekkert á milli mála, en kommon, í hvað hef ég breyst? Manneskju sem höndlar illa eina skitna flensu? Mér varð svo um að ég þegar ég klæddi mig í skyrtuna aftur hjá lækninum, hneppti ég henni rammskakt. Hún benti mér á það brosandi og ég hneppti henni frá aftur og byrjaði upp á nýtt en tókst ekki betur en svo að hún varð enn jafn hrikalega skökk. Ég gafst upp, sagði að það skipti engu, ég væri hvort eð er að fara beint heim. Ja det er det med det kognitive, sagði hún, tók í hendina á mér og óskaði mér góðs gengis í lífinu.
Ha ha, þú ættir kannski bara að sleppa því að ganga í skyrtum. Myndi ekki henta þér best að vera bara í teygjukjólum?
Já kannski, allavega að fara ekki í skyrtu ef að ég veit að ég þarf að fara úr og í úti í bæ.
Hvernig ætlar þú að undirbúa þig í kvöld til að þú sért klár í slaginn á morgun? Ætlarðu að hugleiða?
Tja, kannski bara þrífa naglalakkið af, stytta neglurnar og taka af mér giftingahringana svo að ég tíni þeim ekki upp á sjúkrahúsi.
GiftingarhringANA? Áttu marga?
Ég á tvo.
Sko þig.
Heyrðu, þú leyfir mér kannski að heyra hvernig fyrsti vinnudagurinn æxlast.
Já auðvitað. Takk fyrir spjallið.
-Dagný
Gangi þér vel
Skemmtilegar hugleiðingar. Er mjög ánægð með þá staðreynd að um einungis eru tvær að tala saman. Fyrir mitt leyti er ég mjög spennt að vita hvernig fer allt saman. Kveðja frá einni að austan og örugglega eitthvað skilið þér eða Fúsa og er búin að njóta skrifanna frá þér lengi.
Gangi þér vel elsku Dagný. Alltaf gaman að lesa hugleiðingarnar hjá þér?
Gangi þér vel elsku Dagný. Alltaf gaman að lesa hugleiðingarnar hjá þér
Alltaf jafn gaman að lesa “þig” áfram elsku þú og ég veit að þu massar þetta