Í Stokkhólmi – fyrri hluti

Ég hafði aldrei komið til Stokkhólms áður þannig að þegar haustfríið var ákveðið, fór ég beinustu leið á bókasafnið og sótti mér ferðahandbókina Turen går til Stockholm en þessar bækur, Turen går til … nota ég mikið þegar ég ferðast. Þetta er reyndar smá lýgi, sannleikurinn er sá að  fljótlega eftir ákvörðunina, var ég stödd í einskonar Rauða kross búð (Kirkens Korshær) og rakst þar á slíkar bækur á skitinn tíkall. Önnur var um Stockholm og hin um Svíþjóð. Þegar heim var komið og ég fór að fletta bókunum, uppgötvaði ég að það var engin brú í þeim á milli Skánar og Danmerkur. Bækurnar voru síðan á síðustu öld og því algjörlega úreltar.
Í þessum ferðahandbókum er stiklað á stóru hvað varðar sögu, menningu, siði og margt fleira. Ásamt því hvað er vert að skoða, borða, gera og vera. Ég tek svona bók alltaf með mér og hef hana í veskinu þegar ég fer í ferðalög. Önnur dóttir mín benti mér á að nú til dags notuðust flestir við annarra manna blogg til að leiðsegja sér um borgir. Ekki ég, stundum finnst mér gott að vera steingervingur.

Við vorum í Stokkhólmi og nágrenni í fjóra heila daga og ætla ég að stikla á og deila með ykkur því stærsta á hverjum degi, sjálfri mér til minningar og ykkur vonandi til gagns og gamans. Þessi færsla inniheldur þó aðeins tvo fyrstu dagana því að mér liggur svo margt á hjarta og á erfitt með að takmarka skrifin. Því ákvað ég að deila henni í tvennt.

Dagur 1

Við byrjuðum daginn á Södermalm til að skoða Fiskargatan 9 en þar er íbúðin sem Lisbeth Salander bjó í, í Millennium þríleik Stieg Larssons. Þið ykkar sem hafið lesið bækurnar skiljið mjög líklega hversvegna við URÐUM að sjá húsið. Fyrir ykkur sem hafið ekki lesið þær, þá voru þetta geysivinsælar bækur fyrr á þessari öld og líklega eitt það mesta bókaæði sem ég hef upplifað í mínu lífi.

Íbúðina keypti Lisbeth sér fyrir peningana sem að hún dró að sér í fyrstu bókinni og flytur svo í hana í byrjun annarrar bókar ef að ég man rétt. Íbúðin sem er 21. herbergja, er á efstu hæð í þessari byggingu sem er frá 1909 og var áður fyrr kölluð Skandalahúsið því að það var svo hátt að það skyggði fyrir útsýnið á kirkjuna og með það voru nágrannarnir ekki par hrifnir. Þegar Lisbeth flutti inn í hana, átti hún engin húsgögn þannig að hún fór í Ikea og verslaði fyrir 1,7 milljónir íslenskar krónur á einu bretti. Það hefur líklega einhver fengið verki í vissa líkamshluta við tilhugsunina um að fylla svona íbúð af Ikea húsgögnum (þó að þetta hafi bara verið bók.)


 

Örlítið til hægri fyrir miðri mynd sjáið þið húsið í fjarska sem er gult og grænt. Í stóra panóramaglugganum í gula hlutanum sat Lisbeth oft og horfði yfir Saltsjön og Stokkhólm.
Við gengum líka eftir Bellmansgatan þar sem Michael Blomkvist (einnig persóna í Millenninum þríleiknum) bjó og rifjuðum upp bækurnar. Aldís hefur reyndar lesið þær tvisvar og var því með ferskasta minnið. Hún ákvað þegar hún flutti til Svíþjóðar að Millennium þríleikurinn yrði hennar sænskukennsla og las þær allar stuttu eftir flutning. Eftir að hafa gengið um hverfið og talað um fólkið í bókunum, áttuðum við okkur á að við töluðum um þau eins og þau hefðu verið til í alvörunni og væru núna dáin. Við erum örugglega ekki ein um það þegar um þessa sögu er að ræða. Reyndar er andlát persónanna samt frekar nærri lagi þar sem að Stieg Larsson, höfundurinn, dó í alvörunni árið 2004 og Michael Nyqvist, sá sem lék Blomkvist, dó árið 2017.  En þessi færsla átti nú ekki að fjalla um bækur heldur borgardvöl. Afsakið mig, ég skal reyna að halda mig á sporinu.

 

 

Svala kom fljúgandi frá Kaupmannahöfn, tók lestina frá Arlanda og hitti okkur á Södermalm. Við röltum kökusvöng yfir á Gamla Stan og settumst niður á Kaffekoppen við Stortorget sem býður upp á stóra kanilbulle (kanilbollu) ásamt fleiru bakkelsi og örugglega mat líka en það var ekki út af honum sem að ég var komin. Þetta var ekki fyrsta kanilbullan mín í ferðinni og langt frá sú síðasta.

Ég mæli með að borða mjög margar kanilbuller þegar farið er til Svíþjóðar til að geta hugsað. Það er nefnilega svolítill sykur í kanilbullum og heilinn þarf sykur til að skilja sænskuna.

 

 

Ég mæli með að fá sér í það minnsta kaffi á Kaffekoppen (eða á hinum stöðum torgsins,) kynna sér blóðuga sögu þess og jafnvel fórna sólargeislunum og sitja niðri í kjallara. Við sáum á torginu eða við það, að það eru fleiri veitingarstaðir og kaffihús niðurgrafin ofan í eða inn í jörðina og því drungalegir en um leið sjarmerandi.

Við röltum um með ferðahandbókina opna á kaflanum um Gamla Stan og vorum við leidd um þröngar götur og á milli fallegra bygginga.

 

 

 

 

Þennan dag var farið í þrjár búðir. Ég keypti mér varasalva í Lush og eyrnalokka í Snö. Við fórum líka í vísindaskáldsögubókabúð þar sem að Svala og ég spegluðum okkur að mestu leyti.

 

Dagur 2

Aldís, Fúsi og ég fórum á Vasasafnið en Svala valdi að verða eftir á Söder og gera lexíurnar sínar enda nóg að gera á fyrsta ári í dönskunáminu.

 

Vasasafnið segir frá og sýnir sögu Vasaskipsins sem var tilbúið til siglingar árið 1628 en sökk í jómfrúarsiglingunni, 20 mínútum eftir að það lagði úr höfn og náði aðeins að sigla eina sjómílu. Skipinu var bjargað upp úr hafsbotni 1961 í mjög heilu lagi og er nú til sýnis í öllu sínu veldi.

Við mælum með Vasasafninu og það þarf ekki að vera sögunörd né skipafræðingur til að finnast það vera áhugavert og tilkomumikið og hafa gaman af.

 

 

Við löbbuðum frá Djurgaarden (þar sem Vasasafnið er,) meðfram Strandvägen þar sem, samkvæmt ferðahandbókinni, mikið af aðalsfólki býr í þessum stórglæsilegum byggingum. Síðan áfram meðfram Grand Hótel sem kemur við sögu í eldheitu ríkmannsástarsögunni Aðeins ein nótt eftir Simone Ahlstedt og þaðan yfir á Gamla Stan. Vissuð þið að það er hægt að læra á götukort í gegnum bækur, án þess að hafa komið til borgarinnar?

 

 

 

Við hittum Svölu á Gamla Stan og fengum okkur að borða. Ekki man ég hvar en það skiptir heldur ekki máli. Það er urmull af kaffihúsum og veitingarhúsum í Stokkhólmi sem bjóða upp á hollan og góðan mat. Ágætis þumalputtaregla er að ef staðirnir bjóða EKKI upp á pepsi/coka cola eða hefðbundnar franskar, eru þeir nokkuð öruggir hvað gæði og hollustu varðar. Það gildir líka í Danmörku og víðar.
Ekki svo ýkja mörg ár eru síðan ferðalög þýddu pítsur, hamborgarar, franskar og nachos, skolað niður með kóki og heim kom fjölskyldan; bólugrafin, bjúguð og buguð af óhollustu. Það er sem betur fer af sem áður var. Nú til dags er það bara rúgbrauð með avókadó í öll mál á ferðalögum og heilbrigðið skín af hverju mannsbarni.
Við borðuðum heima hjá Aldísi þetta kvöld og á leiðinni á lestarstöðina fórum við upp í Katarinahissen sem er fljótlegt og ókeypis og veitir hið fínasta útsýni yfir borgina.

 

Fremst á myndinni er Slussen sem er umferðaræðarhnútur í eilífri endurbyggingu og aðallestarstoppið hennar Lisbeth Salanders. Ókei, nú er ég hætt að tala um Lisbeth. Lofa.

Við gistum í stúdíóíbúð í Älvsjö sem er mitt á milli Södermalm og Tullinge þar sem Aldís býr. Sú íbúð var alveg við lestarstöðina og kostaði álíka mikið og kúkur og kanill myndi gera ef að sú tvenna væri verðlögð.

Framhald síðar …

 

 

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *