Það er svo gott að hlæja.
Fimmtudagsmorgun og ég reif mig upp kl. 06:15 eins og fyrri daginn til að synda í sjónum. Var ég nokkuð búin að segja ykkur að sjósundsvinkonurnar eru tvær og önnur þeirra er matráðskona og hin er skáti? Matráðskonan er bara hefðbundin matráðskona með gleraugu eins og John Lennon og keyrir um í splúnkunýjum jeppa. En aðra sögu er aftur á móti að segja um skátann. Ég hef aldrei á ævinni séð svona fallegan og vellyktandi skáta í jafn smekklegum fötum. Þessi skáti skaut niður alla mína skátafordóma.
Annars byrjaði dagskráin með hinum hefðbundna morgunsöng og síðan kom næringarfræðingur og fræddi okkur um heilbrigðan lífsstíl í gegnum næringu. Mér finnst alltaf gott að vera minnt á og vera styrkt í að það sem ég geri nú þegar er rétt en ég má bæta um betur og ætla heim með tvö stór fæðumarkmið í farteskinu.
En hér er engin kæra mamma og kemst engin upp með að sitja á rassinum í marga klukkutíma í röð. Á þriðjudaginn fengum við þjálfunardagbók í hendurnar og í dag var hreyfing út frá þjálfunardagbókinni. Við fáum hana með okkur heim og erum kvött til að styðjast við hana þegar við stundum hreyfingu. Það er svo eftirfylgni á þessari dvöl í desember þar sem við komum aftur og verðum í tvo daga. Þá eigum við að koma með þjálfunardagbókina og það yrði nú aldeilis vandræðalegt ef að hún væri tóm.
Þegar hádegismaturinn sem samanstóð af grænmetisréttum og fiski, var snæddur, kom að hinu langþráða nuddi. 45 mínútur á hvert okkar við kertaljós og slakandi tónlist. Ég var búin að bíða eftir þessu alla vikuna!
Nokkru fyrir dvölina var sendur út spurningalisti og þar á meðal spurt hvort við óskuðum eftir einstaklingssamtölum og þá við hvern. Hægt var að velja á milli sálfræðings, hjúkrunarfræðings, kynlífsfræðings, læknis, félagsráðgjafa og prests. Ég valdi félagsráðgjafa út frá því sem ég er mest upptekin af núna og það eru vinnumálin. Samtalið var mjög gott því að allar mínar vangaveltur og plön hljómuðu vel í eyrum ráðgjafans og minnti hann mig á að hoppa yfir girðinguna þar sem hún er lægst. Hann sagði að það væru bara bjánar og sportsidíótar (hans orð) sem hoppuðu yfir hana þar sem hún væri hæst. Mikið rétt, mikið rétt. Svo sagði hann bara: „Jú gó görl.“
Ég steinsofnaði viljandi fyrir kvöldmat þar sem þetta var síðasta kvöldið og stemming fyrir að vaka fram eftir. Hin kvöldin höfum við öll verið komin inn á herbergi um hálf tíu. Ég skjögraði svefndrukkin fram í borðstofu klukkan sex og rak í rogastans þegar ég sá uppdekkað borðið með hvítum dúk og fallegum borðskreytingum. Það er víst alltaf hátíðarkvöldverður síðasta kvöldið. Eins og ég minntist á í færslunni á mánudaginn þá er Rehpa staðsett á sjúkrahúsinu í Nyborg sem er hluti af háskólasjúkrahúsinu í Odense (OUH). Rehpa er semsagt sjálfstæð eining innan OUH og er aðalmiðstöð rannsókna og þekkingar í líknum og í endurhæfingu á fólki með eða eftir lífshættulegra sjúkdóma (þaðan kemur nafnið Rehpa, rehabilitering og palliation.) Því má segja að við séum tilraunadýr, enda þurftum við að svara ótal spurningalistum og vorum mæld hátt og lágt. En þó að þetta sé innan OUH fáum við ekki sama matinn og venjulega er á boðstólnum þar. Og takk fyrir það, þið sem hafið lesið mig í meira en ár, hafið örugglega lesið um upplifun mína af OUH-fæðinu. Maturinn á sjúkrahúsunum í Aabenraa og Sönderborg er frábær en hræðilegur á OUH. Ef að við hefðum fengið það sama á Rehpa, hefði ég verið sígubbandi. En nei, á Rehpa kemur maturinn frá veisluþjónustu og er samkvæmt því.
Og þar sem að Rehpa er hluti af sjúkrahúsinu, þá er alltaf kvöldvakt en þau kalla það ekki kvöldvakt, heldur gestgjafann. Okkar heitir Susanne og sú er alltaf til í allt og við smitumst af henni. Gott dæmi er að ég elti hana niður í sal til að dansa línudans áðan og mér sem finnst línudans langleiðinlegasti dans sem til er. En það hvarflaði ekki að mér að segja nei og aðallega vegna þess að ég vissi að hin voru jafn léleg og ég, sem og þau voru. Enda endaði þetta allt í flækju og hláturskasti og Susanne missti alla stjórn og leyfði okkur bara að flækjast og hlæja. Eftir þetta var farið í leik sem heitir Margrethe skálinn (eins og skálin sjálf, sú eina og sanna) og gengur út að það að „getta persónur“ með útskýringum og látbragði. En þegar fólk kemur saman sem þekkist lítið og er rafvirki, lögfræðingur, matráður, tangódansari, línudansari, iðjuþjálfi, prófessor við háskóla, atvinnuleysingi, stjórnmálafræðingur og fylgdarkona, getur allt orðið vitlaust. Prófessorinn vildi breyta reglunum í miðjum leik, lögfræðingurinn var settur í málið og rafvirkinn reyndi að slaka á spennunni. En svona í alvöru talað, leikurinn varð að einu stanslausu hláturskasti og á tímabili óttaðist ég að ég myndi rífa upp á mér magann. Susanne gestgjafi spurði á hverju við værum eiginlega og við vorum sammála um að veisluþjónustan hefði sett eitthvað í hindberjasnitturnar sem voru með kvöldkaffinu.
Og það sem var frábærast við þetta var það að engin okkar hafði hlegið svona ofboðslega í mjög langan tíma og allra síst þau sem eru þunglynd og eiga erfitt með að kreista fram ekta bros svona dagsdaglega. Við skreiddumst því yfir okkur lukkuleg í rúmið rúmlega ellefu, alveg búin á því.
Myndin er frá miðbænum í Nyborg.
??