Ég er ástfangin af stað …
Þá er fyrsti dagurinn á Heilsuhælinu að kvöldi kominn og var hann bara nokkuð góður.
Ég tók ferjuna frá Als yfir á Fjón og fékk hina fallegustu siglingu í morgunsólinni og veltingnum á Suður Fjónska eyjahafinu. Við komuna á Rehpa áttaði ég mig á að þetta er SJÚKRAHÚS! Á hæðinni fyrir neðan okkur eru skurðstofur … Það var engin búin að segja mér það og ég hafði engan tíma til að lesa bréfið sem mér barst. Ég er ekki alveg að átta mig á hvað málið er. Ætli það eigi að krukka eitthvað í okkur?
Dagurinn hófst á að við fengum kort að herbergjunum okkar og síðan var síðbúinn morgunmatur. Þar á eftir kynnti félagsráðgjafi fyrir okkur staðinn og vikuna og eftir það var okkur smalað út í göngutúr. Ekki vissi ég að það væri kastali í Nyborg með virkisgröf í kringum. Ég hélt að Nyborg væri bara lítill bær með kirkju og kaupfélagi. Afhverju segir engin mér neitt?
Strax var kominn hádegismatur – sem betur fer því ég var á þessum tímapúnkti orðin hungurmorða því liðinn var einn og hálfur tími frá þriðja morgunverðinum mínum þennan daginn.
Eftir hádegið var stutt eyða í stundarskránni og síðan hittingur þar sem við áttum að kynna okkur með nafni, búsetu og greiningu í afar stuttu máli. Þegar því var lokið var komið að drekkutíma – guði sé lof því að ég var aftur orðin rosalega svöng …
Kaffinu og meððí var skolað niður og þeir sem vildu máttu fara í tíma sem snérist um vinnu, vinnuaðstæður, réttindi og paragröffur. Ég þáði það enda er ég algjörlega týnd hvað vinnumál varðar.
Sólin skein í allan dag og byggingin orðin heit og loftlaus og við vorum þrjár sem vorum að kafna. Þannig að þegar þessum tíma lauk, fórum við í göngutúr niður að strönd þar sem er fallegt útsýni yfir á Stóru Beltisbrúna. Ein af okkur þremur kastaði sér í öldurnar. Hún býr inn í landi og hefur ekki daglegan aðgang að sjónum og var þetta það sem hún hefur hlakkað mest til síðan hún fékk að vita að hún hefði fengið pláss á Rehpa. Ég hefði stungið mér á eftir henni ef að ég hefði ekki þurft að hætta að synda í sjónum eftir að hann fór undir 20 gráður en það fór ekki vel í útlimina mína, þessa sem eru allra yst.
Eftir kvöldmat var boðið upp á söng og píanóleik samkvæmt stundarskránni. En í rauninni var þetta barýtónn sem söng með undirspil á flýgil. Maðurinn er frægur óperusöngvari hérna í Danmörku og söng fyrir okkur í 90 mínútur. Bæði tók hann alvöru óperuaríur en líka Presley og þessháttar lög. Síðan var gamla góða Lýðháskólasöngbókin tekin fram og við máttum koma með óskalög og syngja með. Þetta var alvöru skal ég segja ykkur og ég elskaði þetta.
Þessum degi var slúttað með kvöldkaffi í svo flottri setustofu með svo fallegum húsgögnum að það steingleymist að við séum á sjúkrahúsi.
Ég er pínu ástfangin af þessum stað.
Myndin er tekin á stundu á milli stríða í dag.
Góður slatti af samgleði frá mér og til innilega til hamingju með Súper Dúper flotta magan þinn ?
Gott að lesa þetta,þú treður upp næst.eða hvað 😉