Á eftir slæmu getur gott komið.
Ó, ég hlakka svo til, ég hlakka alltaf svo til.
(Hvernig datt mér í hug að nota þessa setningu úr því jólalagi sem mér finnst minnst skemmtilegast af öllum jólalögum?)
Jæja hvað um það og fyrirgefiði ef að þið fenguð þetta á heilann. Ég sjálf fæ nefnilega svo oft brot úr lögum á heilann bara við að lesa eina setningu úr lagi og stundum er það bara alls ekki skemmtilegt.
En ég hlakka samt til því ég að fara að heiman á morgun í heila fimm daga. Fúsi segir að ég sé að fara á Heilsubæli í Nyborg. En þetta er ekkert svoleiðis. Þetta heitir Rehpa og er einskonar þróunar- og fræðslusetur sem býður fólki eins og mér að koma og vera í fimm daga og við höldum að við séum að fara í einhverskonar lúxusdvöl en í raun og veru er bara verið að gera tilraunir á okkur í þágu vísindana. Ég veit það því að ég les á milli línanna. Við verðum tuttugu og fáum einsmanns herbergi og fæði sem heilbrigðisstjórn Danmerkur mælir með. Þátttakendurnir verða að geta talað, skrifað og lesið dönsku og vera tilbúnir til að fylgja settri dagskrá sem er ansi þétt. Það sem er fyrst á dagsskránni er móttökuserómónía og alveg er ég viss um að við fáum sprautur í magann þar sem litlu „hrísgrjóni“ er skotið inn og okkur sagt að sé bara vítamín en er í raun örmerking. Þetta verður gert til að fylgjast mjööög náið með okkur. Svoleiðis er það í dag, allsstaðar er fylgst með okkur, allsstaðar eru myndavélar, vefkökur, sendar, hljóðnemar ásamt bútturum í Pakistan stjórnað af Ameríkönum sem að reyna að brjóstast inn á svæðið manns. Um daginn varð ég persónulega fyrir fleiri hundruð árásum frá Pakistan. Stundum koma árásirnar frá Tyrklandi. En það eru pottþétt Ameríkanar sem að stjórna þessu öllu saman, allavega á meðan Trump er forseti.
Heimilislæknirinn minn tók þátt í að fá pláss fyrir mig í Nyborg. Það var samt formaður Krabbameinsfélagsins hérna á svæðinu sem mælti með því við mig að sækja um og þá kom læknirinn minn inn í myndina því að það er ekki hægt að fá pláss í slíkri lúxusdvöl nema með beiðni frá lækni. Vesalings læknirinn minn, hún gerir lítið annað en að fylla út beiðnir fyrir mig, mér dettur alltaf eitthvað sniðugt í hug þegar ég hef hellings tíma til þess.
En að öllu gamni slepptu þá er þetta einhversskonar endurhæfing með þróunar- og rannsóknarlegu ívafi. Einungis fólki með eða sem hefur fengið lífshættulegan sjúkdóm býðst þessi dvöl. Minn hópur er fólkið sem er með eða hefur verið með krabbamein.
(Fyrir fólkið mitt sem fylgist meira með mér, gæti þetta virkað ruglandi, þar sem ég er líka í átta vikna endurhæfingu hjá bænum en sú endurhæfing er bara hefðbundin og tvisvar í viku í líkamsræktarsal, við erum mest að hlaða byssurnar þar. Það er algjörlega óháð þessu.)
Ef að allt hefði farið eins og við var búist í maí/júní á síðasta ári, hefði aldrei hvarflað að mér að sækja um svona dvöl. Ég hefði líklega aldrei fengið að heyra um hana af því að ég hefði ekki þurft á henni að halda. Ef allt hefði farið eins og það átti að fara, væri ég líklegast á fullu í vinnu núna og búin að vera það í uppundir átta mánuði. En aðgerðin afdrifaríka þann 8. júní 2018 breytti planinu. Ég veit ekki hvort það var slæmt … eða gott. Hverju skipta svosem átta mánuðir í vinnu? Miklu? Nééé held ekki. Hvað hef ég upplifað eftir þessa afdrifaríku aðgerð og hvað hef ég lært? Alveg heilan helvítis helling.
Þessi mynd var tekin um kl. 18 þann áttunda júní, 11 tímum eftir að fjórðu aðgerðinni lauk. Þeir stungu hnífnum í mig kl. 02:43 um nóttina og dróu hann úr mér kl. 07:19 um morguninn. Hnífatími: Fjórir tímar og þrjátíu og sex mínútur. Svona þegar ég spái í það, þá væri gaman að telja saman hversu mikill hnífatíminn (fjöldi klukkustunda sem læknar hafa verið með hníf inni í maganum mínum) er búinn að vera í heildina í þessum fimm aðgerðum. Ætli hann nálgist ekki á annan tuginn. Á myndinni er ég líka stútfull af vökva, mig minnir að það hafi verið um 10 kg auka utan á mér og ég varð skyndilega svo mjaðmabreið að ég þurfti að skáskjóta mér inn um dyrnar.
Ég hef aldrei komið til Nyborg sem er á Fjóni og aldrei hvarflað að mér að heimsækja bæinn nú þegar ég er búin að vera skoða what to do in Nyborg er ég orðin spennt að túristast í frítímanum.
Kannski gyrði ég mig líka í brók og hendi í fréttafærslu eftir hvern dag. Hvernig hljómar það?
Kær kveðja D
P.s. ég stóðst ekki freistinguna um að taka saman hnífatímann og var hann sextán klukkutímar og fjörtíu og fimm mínútur frá 8. maí 2018 til 14. júní 2019.
Gangi þér vel í þessari endurhæfingu elsku Dagný?
Það er alltaf gott að lesa pistlana þína og fylgjast með þér.
Góðar kveðjur til ykkar??
Lán í óláni að komast til Nyborg gangi þér vel og njóttu dvalarinnar í botn ?
Kveðja Magga Teits
Æi þú ert yndisleg frænka mín og endalaust dugleg. Pabbi þinn gisti eina nótt hjá mér á dögunum, og ég hefði mikið gaman af því að fara að hitta þig frænka mín og kynnast þér,, og er búin að heita mér því að gera í því að koma í Egilsstaði þegar þú kemur næst heim
Góðar óskir kæra Dagný 🙂
Uff hnífatíminn? go for it girl
Þú og vinnan, massar það seinna enda pottþétt beðið eftir þér reynslunni ríkari. Ekki ókeypis reynsla, búin að taka á þér allri en hefðir aldrei fengið reynsluna í vinnunni. Life is bitch og þú þurftir að fara í gegnum þennan hluta. Njóttu lúxusins í Nyborg. Hlakka til að sjá dagbók daganna?