Sumarið 2019
Haustið er komið, ég fann fyrir því í gær þegar ég sat úti á stuttermabolnum rétt áður en tók að kvölda og hitinn féll niður í 20 stig eða undir og sólin lét ekki sjá sig akkúrat þá. Já við erum góðu vön hérna í Danmörku. Mér leið eins og krókloppinni, fór inn og í peysu. Ég fagna samt haustinu því að sumarið er búið að vera skemmtilegt og langt og tími til kominn að skipta um árstíð. Mér finnst ég hafa gert svo ótrúlega margt og upplifað mikið – svei mér þá, þetta er held ég bara eitt besta sumar í manna minnum að mínu mati. Ég er ekki að rembast við að vera jákvæð, heldur er þetta bara staðreynd.
Sumarið í Danmörku varir frá 1. júní til 31. ágúst óháð veðri. Mér finnst það þægilegt því þá veit ég það. Á Íslandi er meira talað um hvort sumarið sé komið? Eða er sumarið að koma? Allir líta til himins, klóra sér og spyrja sig: hvenær kemur sumarið eða skyldi koma sumar í sumar? Síðan kemur sumarið og allir hlaupa til, kaupa sólarvörn og krukkudrykkjaskammtara með krana (sjá mynd á bakvið link), láta renna í pottinn og halda pottapartý.
Ég elska sumrin í Danmörku, þau eru frekar fyrirsjáanleg en ég elska líka sumrin á Íslandi – ég sakna þeirra stundum og langar heim í berjamó. Það er eðlilegt eða eins og Klaus Rifbjerg rithöfundur sagði í denn: „Ef maður fær aldrei heimþrá, er það vegna þess að maður hefur ekki fært sig um eina tommu“. Reyndar verð ég að viðurkenna að ég hef sjaldan eða nánast aldrei fengið heimþrá í þeirri merkingu sem ég legg í hana með tilheyrandi gráti og vanlíðan þó að mig hafi oft langað heim hvort sem heima hefur verið í Sönderborg eða fyrir austan. Ég held að það sé vegna þess að ég er frekar góð í að vera þar sem ég er, þó að ég segi sjálf frá. Það er eitt að langa til að fara í berjamó og upplifa haustlitina á Íslandi, annað er að vera með heimþrá. Kannski hef ég bara aldrei fært mig um tommu? Nei, ég hallast frekar að eigin sjálfshóli hér rétt á undan. Kannski er aðlögun annar af ofurkröftunum mínum, hinn ofurkrafturinn er ofurheyrn og er alls ekki skemmtilegur.
Í berjamó.
Já sumarið 2019 var mergjað og margt gert. Það byrjaði með stæl, ég stundaði líkamsrækt í líkamsræktarstöð og naut þess. Fór líka í yoga einu sinni í viku og er orðin yogasjúk, átti lærdómsrík, áhugaverð og skemmtileg samtöl við sálfræðing og hjálpaði Fúsa við að mála næstum allt húsið að innan. Fékk mömmu í heimsókn og fór síðan í aðgerðina sem ég hafði óttast alveg heilan helling. En sú aðgerð gekk vonum framar þrátt fyrir að verða lengri og viðameiri en búist var við en er samt í minningunni eitt stórt sólskinsbros ef hægt er að tala um skurðaðgerð sem bros. Ég sveif um heiðbláan himininn á risastóru og fallegu klakkaskýi lengi á eftir og geri kannski enn. Við fengum fleiri gesti, fórum í nokkur sumarpartý, héldum partý, fórum til Berlínar, til Íslands, fórum í bíó bæði inni og úti, ég var tvisvar hjá Svölu í Kaupmannahöfn, við gerðum Hornið okkar úti svo huggulegt að sögur fara af, þræddum skóginn, ströndina, annarra manna heimili, veitingarstaðina og kaffihúsin. Sumarið endaði ég svo á að stunda sjóinn. Þann 14. ágúst kom grænt ljós á að ég mætti dýfa mér ofan í vatn og beið ég ekki boðanna og fór í Vök stuttu seinna. Og í sund á Egilsstöðum til að athuga í öruggu umhverfi, hvort ég gæti synt, svona áður en ég myndi stinga mér í öldurnar í sjónum. Síðastliðna viku hef ég varið klukkustundum í heildina ofan í sjónum og bæði synt og látið mig fljóta svo lengi að ég hef verið með sjóriðu þegar ég hef komið í land og þurft að standa kjurr í talsverðan tíma til að stingast ekki á hausinn og slasa mig ekki.
Ég elska sjóinn.
Sumarið í sumar var níunda heitasta sumar frá mælingum. Sumarið í fyrra var það heitasta ásamt sumrinu 1947. Í fyrra voru samt fleiri sólskinstímar en árið 1947. Fjögur af heitustu sumrum síðan mælingar hófust hafa verið á þessari öld og við höfum því að upplifa þau. Það var árið 2002, 2003, 2018 og 2019.
Eftir svona sallafínt sumar, fagna ég haustinu með öllum þeim veðra- og litabrigðum sem tilheyra. Skýin finnst mér alltaf flottust á haustin og strax í dag sýndu þau sig á bláum himninum. Ég taldi um sjö mismunandi tegundir skýja í kringum fótboltavöllinn við Kærvej. Hvert öðru fallegra. Hugsið ykkur.
Velkomið haust.
Gaman að lesa þennan pistil og gott þú naust sumarsins og nýtur haustsins framundan elsku Dagny
Gaman að lesa þetta Dagný mín.
Þú ert svo sannarlega sumarstúlka,já og hauststúlka og…….og….:)
Áfram þú mín kæra.
Hér í Búðardal í morgun þurfti að skafa rúður,en ég duglegi gekk bara í vinnuna,já þessu 100 metra 😉