Pilsið
Ég keypti mér pils í fyrrasumar sem er ekki í frásögur færandi nema fyrir það að það var pantað af netinu í hreinni örvæntingu. Ég var nýkomin heim af sjúkrahúsinu, hitinn var óbærilegur og ég átti af hversdagsfötum einn kjól, tvennar svartar buxur og einar náttbuxur sem höndluðu og huldu bæði margoft uppskorinn og stokkbólgin magann og þvagpokann á lærinu. En buxurnar voru eða eru, ég á þær enn, kolsvartar og brenndu á mér skinnið í sólinni, náttbuxurnar voru síðar og alltof hallærislegar til að taka á móti gestum í og kjólinn svo fleginn að pósturinn var farinn að bera út bréf nágrannanna í okkar póstkassa. Ég fór því á netið, því að ég var ekki búðum hæf og pantaði mér pils svo fallegt að þetta var fallegasta pils sem ég hef á ævinni átt.
Það bjargaði mér, ég elskaði það
það huldi allt sem mig langaði ekki til að sýna
það huldi allt sem aðrir máttu ekki sjá
það leyfði vindinum að umlykja á mér leggina
það var bjart, skemmtilegt, fallegt
það bjargaði mér, ég elskaði það
ég var í því dag eftir dag
alla daga sem sólin skein
og sólin skein alla daga
það var svo þægilegt
og fallegt
ég elskaði það
þangað til í fyrrakvöld.
Það hékk bara inni í lokuðum skápnum
og ég var farin að sofa en ekki sofnuð þegar
pilsið fer að poppa inn í höfðinu á mér
poppaði og poppaði og ég snéri mér og snéri mér
þangað til ég sofnaði
og í gær hélt pilsið áfram að poppa og poppa
allan liðlangan daginn
og maginn í mér skoppaði og skoppaði í ógleði
og ringulreið
tárin runnu
þangað til ég sótti pilsið inni í skáp
og fór með það upp í skáp
á annarri hæð
eins og það myndi laga skoppið í maganum
en það gerði það ekki
ég sótti pilsið upp í skáp og setti það í ösku
niðrí skáp
ofan á hárkolluna
allt var gott
þangað til í dag og maginn fór aftur að skoppa
mig langaði til að gubba
en gerði það ekki
ég sótti öskjuna með pilsinu inní skáp
og setti allt heila draslið í stærri öskju
og læsti henni með gaffateipi
nú er allt gott
punktur