Með vinum í Berlín og í Sønderborg
Var ég nokkuð búin að segja ykkur frá því þegar við fórum til Berlínar um daginn? Nú halda eflaust margir að ég sé að grínast og hafi verið á Seyðisfirði og farið þar í Berlín, húsið hennar ömmu, en nei, við fórum til höfuðborgar Þýskalands. Ferðin var ákveðin í febrúar, síðan hætt við hana í apríl. Ég hætti enn meira við hana í maí og útilokaði hana í júní. En tveimur vikum eftir aðgerðina, fannst mér ég vera svo brött að ég eygði mér von um að geta farið.
Vonin varð svo að veruleika og við Fúsi settumst inn í bíl, spenntum beltin og brunuðum af stað á laugardagsmorgni. Í Berlín áttum við stefnumót við Sessu og Magga en þau komu daginn áður. Þar sem tíminn í Berlín var naumur, var ákveðið að taka ferðalangastrætó á sunnudagsmorgninum sem hoppað er í og úr, til að sjá sem mest og átta sig á borginni.
Þarna erum við Fúsi við Brandenburgarhliðið.
Aðaltilgangur ferðarinnar var þó að fara á tónleika með P!nk sem er bandarísk söngkona á aldri við okkur Sessu (ekki Magga og Fúsa.)
Við áttum miða í sætum á Ólympíska leikvanginum og töldum vissara að fara í fyrra fallinu þar sem ekkert af okkur hafði komið þangað áður.
Ótti okkar við biðröð var óþarfur þrátt fyrir 65þúsund manna tónleika.
Maggi og Fúsi arka á móts við hliðið.
Árið 1934 var hafist handa við að byggja leikvanginn fyrir Ólympíuleikana 1936. Hitler vildi bæta ímynd Þýskaland með því að halda leikana og gera það vel. Hér er hægt að lesa nánar um leikvanginn.
Hér má sjá Sessu og Magga nýkomin inn á leikvanginn.
Fúsi og Maggi spenntir fyrir P!nk, hver væri það ekki?
Þessi færsla er meira myndir en texti, aldrei þessu vant er ég bara nokkuð stuttorð.
Lognið á undan storminum. Beðið eftir P!nk.
P!nk var meiriháttar góð. Hún er svo mikill töffari, fyrirmynd og frábær skemmtikraftur. Hún sérhæfir sig í loftfimleikum á tónleikum sínum og þegar hún fór þvert og endilangt í loftinu yfir leikvanginn, syngjandi So what, urðu líklega fleiri orðlausir en ég. Hér má sjá símamyndband á Youtube.
Maggi veifar
Daginn eftir héldum við heim á leið og komu Sessa og Maggi með okkur. Á heimleiðinni stoppuðum við í Lübeck sem er næststærsti bær í Schleswig-Holstein sambandslandinu og þrítugasti og sjötti stærsti bær í Þýskalandi með sína 216.712 íbúa. Lübeck er sérstaklega þekktur fyrir skemmtilega jólastemmingju. Þetta var um miðjan júlí og væntingarnar til sumarveðursins miklar og við léttklædd að venju. En veðrið lék ekki við okkur. Hitinn var undir tuttugu stigum og sólarlaust. Við stoppuðum því ekki lengi og héldum áfram heim í sólina sem var eins og alltaf, í Sønderborg.
Maggi og Fúsi svalir í Lübeck
Í Sønderborg var lífinu lifað og þ.a.m. farið í hand- og fótsnyrtingu, húðflúr og bæjarferðir.
Sessa nýtur þess að láta flúra sig.
Vinkonur að eilífu.
Þarna erum við hjá Tímahringjunum eftir Ólaf Elíasson og á bakvið trónir nýja hótelið sem heitir Alsik (eyjan okkar heitir Als.)
Eins og er, er Alsik hæsta bygging Jótlands.
Útsýnið uppi á 16. hæð er mjög flott. Þarna var ég að fara upp í fjórða sinn. Í þessum skrifuðu orðum er ég búin að fara fimm sinnum og hótelið opnaði um miðjan maí. Við erum sem sagt búin að fá utanaðkomandi gesti fimm sinnum síðan í maí.
Við fórum líka út að borða í Sønderborg
Og fengum okkur ís á eftir.
Og á milli alls þessa var bara slappað af í skugganum heima og hlustað á Fúsa segja sögur úr Fellabænum.
Takk fyrir samveruna og komuna kæru vinir.
Takk fyrir ferðasöguna. Gaman að þessu ! Við hjónin vorum að koma heim eftir laaanga dvöl í Svíþjóð. Ætluðum að vera í tvær vikur. En enduðu með að vera í tvö mánuði. Eiginmaðurinn fékk að kynnast spitölunum á Skáni og ber þeim fallega sögu. Frábært system og frábært starfsfólk. En samt er gott að vera komin heim !?