Ég setti í fb-statusinn minn um daginn að ég hefði þroskast heilmikið. Bara vegna þess að ég keypti dömublaðið Söndag og fór í nokkrar konubúðir. Blaðið er reyndar dauðleiðinlegt… eða þessar 5 síður sem ég hef rennt yfir. Finnst reyndar langflest svona dömublöð og slúðurblöð alveg dauðans pulsa. Og það gildir bæði dönsk og íslensk blöð. Blöð sem skrifa óþarfa upplýsingar um annað fólk, gera fólk frægt útfrá ENGU, skrifa um einelti, offitu, dauða, sorgir, atvinnuleysi, þunglyndi og væl, fá mig til að klæja á ýmsum stöðum. Einu blöðin sem eru lesleg eru dagblöðin og klámblöðin.
Konubúðirnar voru æðislegar… ég gekk um, strauk flíkunum, nusaði af þeim og spjallaði útí það óendanlega við búðarkonurnar. Fílaði mig í botn og fannst fötin æðisleg. E-ð svo elegant, falleg og gæðin skein af þeim. En það er bara einn hængur á henni Hugrúnu. Ég er ekki orðin nógu gömul til að ganga í þessum fötum. En hlakka óskaplega til þegar ég næ þeim aldri og ætla þá að versla af mér buxurnar og eyða öllum frífyrripörtum í að spjalla við búðarkonurnar og máta og kaupa. Það er einhvernvegin alltöðruvísi andrúmsloft í svona konubúðum heldur en í pæjubúðum eins og t.d. JimP. Og tala nú ekki um keðjubúðir þar sem ég fæ enga athygli!
Þannig að í gær var ég í vafa um hvort ég hafi e-ð þroskast þar sem ég nenni ekki að lesa Söndag og er of ung fyrir konuföt. En í morgun björguðust þroskamálin… ég fékk Jydske inn um bréfalúguna. í næstu viku ætla ég að vakna snemma og lesa Jydske eins og fullorðiin manneskja áður en ég fer í vinnuna. Síðan þegar ég mæti kl 7 get ég blásið mig út með því að segja: „það stóð í Jydske hérna í morgun að….“ eða „sá í Jydske hérna í morgun að þessi og þessi er dáin“ (er nefnilega alltaf seinust að frétta af fólki sem deyr því ég hef ekki keypt Jydske reglulega). Þetta myndi hljóma alveg svakalega fullorðinslega… allir í vinnunni myndu ímynda sér mig með linsoðið egg, brauð og kaffi, lesandi Jydske kl 6 á morgnana (og að sjálfsögðu með gleraugun).