Pink is the new brown – 44ra
Í dag er afmælisdagurinn minn og mér finnst það frábært! Þessi færsla er skrifuð á miðnætti en það var akkúrat þá sem ég fæddist – á miðnætti annan ágúst. Þess vegna er minn afmælisdagur lengri en flestra annarra.
Mér hefur alltaf þótt gaman að eiga afmæli og fundist í lagi að eldast. Núna finnst mér það bara enn betra – ég hækka í tónlistinni um leið og ég undirbý stelpupartý, hengi upp jólaseríur úti í garði og sópa stéttina. Það hljómar eflaust klisjukennt en núna hefur fyrirbærið afmæli dýpri merkingu fyrir mig en áður. Í maí í fyrra, þegar ég vafraði um á milli vonar og ótta í tuttugu daga, sá ég allt í svörtu og hvítu. Annað hvort myndi ég deyja innan nokkurra mánaða og ekki verða 44ra ára eða vera ljónheppin og verða ævagömul. Það var enginn millivegur í mínum huga. Ég óð um í ófærð skynseminnar og í örvæntingunni. Ég var fáfróð og þröngsýn. Með tímanum áttaði ég mig á því að þegar um eggjastokkakrabbamein er að ræða, er útkoman ekki bara svört og hvít heldur allur litaskalinn. Kannski var þessi svarthvíta sýn mín líka lituð af því að langflestir af þeim sem ég þekki sem hafa fengið krabbamein, hafa annað hvort læknast alveg eftir hefðbundna meðferð eða dáið innan fárra vikna eða mánaða.
Og hér er ég – orðin 44ra ára og get státað af að vera hressari og hraustari en margur annar, því að einhver heppni hefur verið í spilunum sem ég fékk á hendina í þessu lífi.
Hér er ég og ég elska lífið nánast alla daga. Sérstaklega í dag, því að Aldís og Svala eru á leiðinni heim með lestinni, þær lenda í Sönderborg kl. 01:52.
Hér er ég og ég elska að eiga afmæli því það þýðir að ég er á lífi og að mig langi til að lifa.
Til hamingju með daginn ég.
Pink is the new brown
Til hamingju með daginn, elsku kæra, yndislega, bráðskemmtilega og fallega vinkona. Ég ætla líka alltaf að fagna afmælsdeginum þínum, þinn dagur kemur uppá svo miklu skemmtilegri tíma en dagurinn minn, svo ég er að spá í að eiga bara sama afmælisdag og þú 🙂 þannig að í dag varð ég 45 ára. Til hamingju við 😀
Elsku uppáhalds Sigrúnin mín!
Þú mátt alveg deila með mér deginum, þó það nú væri <3
Til hamingju með daginn vona að þú hafir átt góðan afmælisdag og haldið gott partý.
Takk kærlega Halla <3
Dagurinn var góður og partýið líka, alltaf gaman að smala saman vinkonuhópnum 🙂
Hjartanlega til hamingju með daginn þinn ! Já, það er svo satt að allir ættu að fagna hverjum afmælisdegi. Ég geri það svo sannarlega í dag. En ég man eftir að þegar ég varð 40 ára þá fannst mér það ekkert kúl að vera komin á fimmtugs aldurinn. Allt það skemmtilegasta væri að baki ! En ég hafði sem betur fer ekki rétt fyrir mér og næstu 40 ár hafa verið hreint út sagt verið dásamleg. Einn góður kennari í Bifröst hélt ræðu í fimmtugsafmælinu sínu, þar sem veislugestirnir voru margir um tvítugt. Hann sagði að þegar hann var tvítugur hefði hinum fundist sá aldur vera sá besti. Þrítugur og fertugur toppurinn á tilverunni . En núna að vera fimmtugur, það væri það besta sem fyrir hann hefði komið ! Krökkunum um tvítugt fannst svo sorglegt að þessi góði kennari sem var þekktur fyrir að segja satt , skyldi ljúga svona á afmælisdaginn sinn. Afmælisknús á þig ??????
Takk kærlega Margrét <3
Þessir tvítugu munu átta sig 😉
Innilega til hamingju með daginn . Algjör hetja sem þú ert ?
Takk kærlega Unnur <3