Til hamingju með daginn Dagný.
Þetta sagði Fúsi þegar hann kom heim úr vinnunni í dag og kom ekki með blómvönd. Skildi engan undra.
Ég á nefnilega eins árs veikindaleyfisafmæli. Eða veikindaferðalagsafmæli, hvað svo sem slíkt afmælisfyrirbæri heitir annars.
Já og ekki nóg með það, heldur er alþjóðlegi eggjastokkskrabbameinsdagurinn í dag – World Ovarian Cancer Day.
Ovarii, Ovario, Ovaria, Ovarium, Ovary. Fallegt nafn, fallegt líffæri og ekki síst, nytsamlegt fram eftir aldri. Mér þykir á vissan hátt vænt um mína greiningu, hvernig sem það nú er hægt. Við erum einhvernveginn saman í liði, ég og eggjastokkarnir þó að þeir hafi dáið drottni sínum fyrir ellefu mánuðum síðan og verið fargað. En minningin lifir og blessuð sé hún.
Þetta lið okkar er afar fámennt – ég veit um eina aðra konu sem er með sömu greiningu og ég og þar sem við erum svo „spes“, höfum við talað saman í síma.
Án gríns, ég hef ekki fundið fyrir hatri gagnvart krabbameininu, enda lít ég á það sem vilja- og heilalaust fyrirbæri þar sem margt í því sambandi er tilviljunum háð. Af sömu ástæðu hata ég heldur ekki geitunga þótt þeir stingi mig.
Ef einhver hefði hvíslað að mér fyrir ári síðan, hvernig allt yrði, í hverju ég myndi lenda og hvursu langdregið ferlið yrði, hefði ég líklega kastað mér út um gluggann á annarri hæð á sjúkrahúsinu í Aabenraa með afar slökum árangri. Ég hefði lent í grasi og mögulega brotið eitt bein. Það hefðu verið vandræðaleg viðbrögð.
Ég veit í alvörunni ekki hvað ég hefði gert ef að ég hefði getað séð inn í framtíðina og vitað að ég ætti eftir að leggjast átta sinnum inn á sjúkrahús á 11 mánuðum. Eða að vera þrisvar sinnum flutt á milli landshluta í sjúkrabíl. Eða að eiga eftir að liggja tíu sinnum á skurðstofu og þar af, svæfð átta sinnum. Mér hefði heldur ekki dottið í hug að ég ætti eftir að stíga inná eða vera keyrt í rúmi eða hjólastól á Röntgendeildina 22 sinnum, þar af 13 sinnum í stóra skanna – CT, MRI eða PET.
Ég byrjaði á að halda upp á daginn í dag með því að fara til sogæðasjúkraþjálfarans á sjúkrahúsinu í Sönderborg, þar sem hún nuddaði mig hátt og lágt og vafði alla vinstri löppina fast inn í umbúðir þannig að ég get varla beygt hana. Síðan fór ég til Aabenraa í yoga hjá Krabbameinsfélaginu, stirð eins og staur, en ég hef sýnt betri takta í yoganu áður. Það var þegar ég var ekki vafin frá nára og niður að tám. Eftir yogað settist ég niður og spjallaði við Nínu sem ræður ríkjum í Krabbameinsfélaginu í okkar sveit. Hún sagði mér frá hópi af konum allsstaðar að úr heiminum sem höfðu fengið brjóstakrabbamein og læknast og klifu eitt af hæstu fjöllum Argentínu til að sýna á táknrænan hátt hversu auðveld fjallganga sé í raun og veru miðað við svo margt annað. Eða hvursu erfitt margt annað er, miðað við fjallgöngu. Fjallgöngu er nefnilega hægt að undirbúa í mörg ár og vera þannig í góðu andlegu og líkamlegu formi. Það er ekki farið af stað nema viljinn sé fyrir hendi. Það er ekki farið af stað nema veðrið sé gott og öryggisbúnaðurinn sé í lagi. Það er nákvæmlega vitað hvaða leið á að fara og hvernig hún er og hversu löng hún er. Það er hægt að snúa við eða láta sækja sig með þyrlu ef þreytan segir til sín eða ef einhver verður lasin. Fjallgöngufólk er tiltölulega fljótt að jafna sig eftir fjallgöngu.
Það er ekki hægt að undirbúa sig undir að fá lífshættulegan sjúkdóm. Það er ekki hægt að velja hvort eða hvenær sjúkdómurinn skellur á. Hann gerir það hvort sem það er sól eða norðaustan belgingsrassgat. Það er engan veginn hægt að sjá fyrir hvernig sjúkdómsferli hvers og eins verður, hversu langan tíma það á eftir að taka, né hvernig það endar. Þegar greiningin kemur, sést brött brekka framundan og tindur í fjarska. Eftir töluvert klifur og erfiði, kemst maður á tindinn, til þess eins að sjá að þettta var ekki bara einn tindur, heldur heill fjallgarður með ótal tindum og til þess að komast niður aftur, þarf að fara eftir endilöngum fjallgarðinum og yfir alla tindana. Stundum minnir þetta mig á ljóðið hans Tómasar Guðmundssonar, Urð og grjót sem við lærðum í Barnaskólanum. Hér birti ég fyrsta og þriðja erindi.
Urð og grjót.
Upp í mót.
Ekkert nema urð og grjót.
Klífa skriður.
Skríða kletta.
Velta niður.
Vera að detta.
Hrufla sig á hverjum steini.
Halda, að sárið nái beini.
Finna, hvernig hjartað berst,
holdið merst
og tungan skerst.
Ráma allt í einu í Drottin:
„Elsku Drottinn,
núna var ég nærri dottinn!
Þér ég lofa þvi að fara
þvílíkt aldrei framar, bara
ef þú heldur í mig núna!“
Öðlast lítinn styrk við trúna.
Vera að missa vit og ráð,
þegar hæsta hjalla er náð.
Verða kalt, er kvöldar að.
Halda seint og hægt af stað.
Mjakast eftir mosatónum.
Missa hælinn undan skónum.
Finna sig öllu taki tapa:
Hrapa!
Velta eftir urð og grjóti
aftur á bak og niðr í móti.
Leggjast flatur.
Líta við.
Horfa beint í hyldýpið.
Hugsa sér,
að höndin sleppi.
Hugsa sér,
að steinninn skreppi.
Vita urðir við sér taka.
Heyra í sínum beinum braka.
Deyja, áður en dagur rynni.
Finnast ekki einu sinni.
Það tekur mánuði, ár, áratugi að jafna sig eftir krabbameinsmeðferð. Margir jafna sig aldrei. Og það er ekki hægt að hætta við. Hvernig sem þrábeðið er um að stöðva tímann, spóla aftur á bak eða taka langstökk fram í tímann. Ekkert virkar, staðan er patt og viðkomandi situr í súpunni hvort sem honum líkar betur eða verr og reynir að grípa til mismunandi verkfæra úr hillunni sem gætu nýsts til að laga aðstæður. Ég notaði og nota enn æðruleysisbænina – Gef mér æðruleysi til að sætta mig við það sem ég fæ ekki breytt, kjark til að breyta því sem ég get breytt og visku til að greina þar á milli. Stundum er það strembið, en virkar vel þegar það tekst. En stundum langar mig til að gera eins og Mr. Creosote gerir í Monty Python, gubba öllu saman upp úr mér til að losa og létta á mér. Reyndar segir Nína að það sé í lagi. Kannski ekki í orðsins fyllstu merkinu en að horfast í augu við ógleðina, sem í þessu tilviki er bara myndlíking, finna fyrir henni, sætta sig við hana og þá fyrst getur maður brugðist við henni og gert eitthvað til að breyta líðaninni. Eða eins og Jesú sagði aðeins á dönsku í Tómasarguðspjallinu: Der som I fremdrager det, som er i Jer, vil det som I fremdrager, fresle Jer. Der som I ikke fremdrager det, som er i Jer, vil det, som I ikke fremdrager, ødelægger Jer. Alveg er það merkilegt að Jesús frá Nazaret og Nína frá Broager skuli segja það sama.
Annars er allt gott að frétta, ég skottast á milli bókasafnsins, kaffihúsana, skógarins, sjúkrahússins, strandarinnar, skansans og heimilisins á milli þess sem ég tek upp málningarpensilinn og mála veggi heimilisins rauða. Framundan er undirbúningstími í 51 dag fyrir næstu syrpu en sú syrpa inniheldur níundu svæfinguna og aðgerð númer fimm.
Ó ég hlakka svo til, ég hlakka alltaf svo til…
Eigið góðar stundir og njótið vorsins.
Elsku Dagný. Enn og aftur límist ég föst við símann og les pistilinn þinn og dáist af hæfileikum þínum til að lýsa því sem er svo erfitt er að lýsa og skilja. Vinnandi sem hjfr sem sinnir einstaklingum með nýgreinda lífshótandi sjúkdóma, fyrir aðgerð og eftir hana, tengi ég svo við skrif þín. Takk fyrir að deila og gefa mér afar mikilvæga innsýn í þetta ferli og bestu óskir um góðan bata.
?
Þú er góður penni. Gagnlegt að lesa. Góðir straumar fylgja úr heimasveitinni, þar ríkir ekta Íslenskt vorveður með snjóhraglanda og frosti.
Fallega skrifað frænka
Mundu síðustu ljóðlínuna, sjáðu tindinn, þarna fór ég…
Þú skrifar svo fallega og skemmtilega og myndrænt og einlægt. Snilldar penni!
Takk Dagný <3
Takk fyrir að leyfa okkur að fylgjast með þessu ferli elsku Dagný. Gagnlegt fyrir þig að setja þetta á prent og fróðlegt fyrir okkur hin að fá að skyggnast inn í þann heim sem þú dregur hér upp af lífi þínu með og eftir krabbamein. Gangi þér sem allra best að ná góðri heilsu á ný Dagný mín. Knús og kossar.