Fermingarundirbúningur hjá skátafjölskyldu.
Fyrir nokkrum vikum var ég úti í skógi að ganga með hópi af konum sem myndaðist í vetur eftir að sveitafélagið hafði smalað okkur saman í leikfimi af því að það var talið gott fyrir okkur. Ég gekk við hliðina á Siggu (sem er tilbúið nafn til að tryggja nafnleynd) og talið barst að yfirvofandi fermingu sonar hennar.
Ég: Hvað segirðu Sigga, hvernig gengur fermingarundirbúningurinn?
Sigga: Bara stórvel, nú vantar okkur bara rauðan renning á borðið.
Ég: Ekkert annað?
Sigga: Nei, ekki eftir að við fundum grænar servíettur.
Ég: Grænar?
Sigga: Já það var nú meira vesenið að finna rétta græna litinn, það tók margar vikur, annað hvort var hann of dökkur, of ljós eða myntugrænn!
Ég: Okey það var gott að þið funduð þá rétta græna litinn…
Sigga: Já til allrar hamingju, Kalli litli er nefnilega skáti og klútarnir þeirra eru grænir og rauðir og borðþemað í fermingunni er klútarnir.
Ég (með skelfingarsvip): Eiga borðin að vera eins og skátaklútar?
Sigga: Já auðvitað eða réttara sagt, eins og búningarnir. Dúkarnir og kertin verða gul eins og jakkarnir.
Ég hef nú oftar en einu sinni og oftast en tvisvar látið skoðun mína í ljós varðandi stílinn hjá skátum og þær skoðanir hafa ekki verið þær jákvæðustu. Skátastíllinn slær öllum stílum við, meira að segja stílnum hjá forsetum Íslands en þeir eiga það til að láta sjá sig opinberlega í strigaskóm við sparileg föt, í sitthvorum skónum og jafnvel með buff á höfðinu.
Ég hef aldrei getað skilið afhverju skátastíllinn þarf að vera svona hræðilegur, því að sjálft skátastarfið er ekki hræðilegt. Ég held að það sé verið að gera marga góða hluti í svona samtökum og félagsskapurinn er góður. Svala okkar sótti töluvert í skátana, fór ítrekað með vinkonu sem gestur og þegar hún var búin að vera gestur í nokkrar vikur, þá var farið að rukka hana um félagsgjald sem innihélt skátabúning en þá bakkaði hún og tók u beygju. Gat hreinlega ekki hugsað sér að fara í þennan grófa skyrtujakka og binda klútinn um hálsinn og tók sér þá pásu í nokkrar vikur en fór síðan aftur að mæta sem gestur, þá kannski með annarri vinkonu, þangað til hún var rukkuð aftur og búningnum otað að henni. Svona gekk þetta í mörg ár en auðvitað flosnaði hún upp úr þessum félagsskap á endanum. Þetta hefði ekki farið svona ef litasamsetningin hjá skátasamtökunum hefði verið smekklegri. Seinna fór Svala að æfa fótbolta og valdi að æfa með félaginu í Sönderborg sem bauð upp á skástu fótboltabúningana.
Sigga hélt áfram að segja mér frá fermingunni sem á að vera um miðjan maí en var algjörlega tilbúin á allan hátt þegar þetta samtal átti sér stað en það var í byrjun mars. Ég heyrði ekkert hvað hún var að segja, því ég gat ekki hætt að hugsa um litaþemað á borðunum. Mig langaði líka ofboðslega til að spyrja hana hvort þau ætluðu að kveikja bál inni í veislusalnum og grilla snúrubrauð? Jafnvel syngja klassíska skátasöngva eins Bræðralagssönginn eða hið sívinsæla skátalag Polly Wolly sem byrjar svona: Hérna eru skátar að skemmta sér – hæ Polly Wolly, doddle all the day…