Það sem á dagana drífur / Hreyfingin
Í morgun mætti ég í sveitafélagsleikfimina og það með glöðu geði. Það er nefnilega svona að þegar góður árangur hlýst af erfiðinu, þá verður geðið glaðara. Það segir sig nú sjálft, er það ekki?
Ég er reglulega spurð að því út á hvað þessi leikfimi gangi og það skal ég segja ykkur. Þetta er eins og mæta í líkamsræktarstöð með einkaþjálfara á kantinum. Í byrjun eru tvö viðtöl, fyrst við hjúkrunarfræðing sem að kortleggur núverandi líf þátttakenda og síðan við sjúkraþjálfa sem að býr til einstaklingsmiðað æfingarprógram þar sem tekið er mið af eftirfarandi: hvað má ég, hvað get ég og hvað vil ég. Síðan eru tímar tvisvar í viku, þar sem sjúkraþjálfarinn fylgist grant með öllum og beitir písknum óspart á sárlasinn leikfimishópinn. Við vorum upphaflega átta og ég held að tveir þriðju sé með ólæknandi krabbamein. Nú erum við fimm eftir – þrjú heltust úr lestinni af mismunandi ástæðum.
Við byrjum á að hita upp; ég vel alltaf róðravélina eða crossgræjuna, síðan eru einstaklingsbundnar æfingar. Ég er til dæmis sjúk í armbeygjur og magaæfingar af ýmsum toga. Eiginlega er ég bara sjúk í að liggja á mottu. Ég fer líka í tækin og það var einmitt það sem ég ætlaði að blogga um – eða segja ykkur frá hversu sterk ég er…
Ég var á undan hinum í tækin í morgun, þannig að þær sáu þyngdirnar sem ég var að taka og ég segi ykkur það satt, þær glenntu upp augun þannig að þau stóðu á stilkum. Fyrst var tæki sem æfir bakvöðvana og þær þurftu að létta um helming og við það hrósuðu þær mér í hástert; Hold da op, hvor er du bare stærk kvindemenneske, sögðu þær allar í kór. Síðan fóru þær í næsta tæki sem þjálfar brjóstvöðvana og aftur þurftu þær að létta um helming og aftur dundu hrósin á mér. Ég brást við með að brosa út í annað, vitandi að ég er nú langt í frá að vera vaxtarræktartröll – vitandi að þær eru bara því miður í slæmu ásigkomulagi vegna aðstæðna. Þá komu þær að læra og rassýtunni (legpress á ensku) og þá varð upp fótur og fit; Se, hun tager tres kilo, ja det gør hun sgu! 60 kilo! Er hun kvinde? Eller er hun en mand? Det er altså utroligt det her… Ja, vi er målløse.
Síðan kom flokkurinn til mín og þó þær ættu ekki til orð, þá ultu þau út úr þeim samt. Og ég lá afvelta á mottu og leyfði þeim að rigna yfir mig þangað til ég sagði við konurnar: Stop det her, þetta er ekkert spes, ég er bara fjörutíu og fjögurra ára og það er ekkert að löppunum á mér… Palli tók hundrað kíló muniði… (En Palli var einn af okkur en hætti fljótlega því hann nennti ekki þessari tøse-leikfimi sem gæti með góðum vilja þýðst sem tussu-leikfimi á íslensku; Jeg gider ikke den her tøsegymnastik, sagði hann blákaldur og fór.) Auk þess tók ég áttatíu kíló uppi á sjúkrahúsi og það var pís of keik (græjan þar var eitthvað öðruvísi)…svo þetta er bara ekkert spes…ekkert spes segi ég.
Ekkert spes siger hun, sögðu þær og hristu höfuðin. Síðan bættu þær við: kanntu ekki að taka hrósi? Man siger bare tak.
Ég fór eilítið hjá mér og þakkaði pent fyrir allt þetta yfirþyrmandi og að mínu mati, óþarfa hrós og sagði við þær að þær væru svo søde allesammen.
Ég hef alltaf verið svolítill einfari í líkamsræktarsölum og ekki haft neina einustu þörf fyrir að hrósa öðrum né að fá hrós þegar ég hef ýtt einhverju eða togað í eitthvað. Það gildir líka þarna. Finnst bara gott að vera ein með sjálfri mér og hlusta á Kim Larsen sem dynur í hátölurunum í hvert einasta skipti, alltaf sami diskurinn og hann endar á laginu Om lidt, sem er fallegt og vinsælt jarðarfaralag hérna í Danmörku. Í ljósi aðstæðna er þetta svolítið kómískt finnst mér og fyrst fannst mér óþægilegt að heyra lagið innan um þessar konur en nú hefur það vanist. Om lidt bli´r her stille… Og þá er við hæfi að hugsa til einnar úr hópnum sem hefur ekki mætt síðan fyrir áramót því að dauðinn nálgast óðfluga.
Annars ætlaði ég ekki út í þá sálma heldur langaði mig óskaplega til að breiða út boðskapinn um hreyfingu – eins og mér einni er lagið. Nú hrista eflaust einhverjir lesendur höfuðin sín í undrun. Ég að vera með hreyfingarpredikanir… Hér er ekkert sem passar.
Án alls gríns, þá er engin tilviljun að sjö sjúkrahús í Danmörku keyra Krabbameinsleikfimi fyrir fólk í lyfjameðferð í gegn ár eftir ár í nú fimmtán ár, því að rannsóknir hafa sýnt að með hreyfingu og áreynslu verður meðferðin og lífið almennt auðveldara.
Dönsku sveitafélögunum ber einnig skylda til að bjóða upp á hreyfingu og ekki bara fyrir fólk í einhversskonar krabbameinsferli, heldur einnig fyrir fólk með sykursýki, hjarta- og lungnakvilla, offitu, atvinnuleysi og fleira.
Að sjálfsögðu er þetta ekki endalaust, nei gamanið hjá mér er að verða búið, nú þarf ég að fara að sjá um mig sjálf og draga upp veskið sem að ég reyndar er nú þegar búin að gera, ég keypti mér æfingarteygjur, ekki nenni ég að mæta í dæmigerðan líkamsræktarsal á þessari stundu. Í miðju ferlinu í Sveitafélagsleikfiminni var stöðuviðtal, þar sem farið var yfir æfingarprógrammið og spurt ýtarlega út í hvað ég ætlaði mér eftir þessa leikfimi. Síðan í síðustu viku var lokaviðtal til að heyra aftur hvert mitt framtíðarhreyfingarplan væri. Ýtnin er gríðarleg. Það er bara ekki tekið í mál að ég leggist á sófann að leikfiminni lokinni. Þeir á danska þinginu segja að þetta séu fyrirbyggjandi aðgerðir og ódýrara fyrir ríkiskassann þegar reiknisdæmið hefur verið reiknað til enda.
Já án alls gríns, þá hefur bæði Krabbameinsleikfimin á sjúkrahúsinu og Sveitafélagsleikfimin verið einn af mörgum þáttum sem hafa bjargað lífi mínu svo stórt sé til orða tekið. Þó svo að ég hafi stundum skjögrað inn og út úr salnum á sjúkrahúsinu þegar ég var með aukaverkanirnar, þá var það samt gott, mér leið betur. Þannig að ef þið eruð sjálf ekki við góða heilsu en eruð hitalaus og ekki með vottorð frá lækni um að halda ykkur frá leikfimi, þá gerið ykkur stóran greiða og farið af stað. Fáið púlsinn upp, togið, ýtið, lyftið, hangið, beygið ykkur, teygið og sveigið. Lífið mun verða bærilegra, ef ekki mikið betra. Ég lofa.
Kannski ég verði bara sportisti með vorinu?