Það sem á dagana drífur / Handbolti
Alveg er það merkilegt hvað lífið og tilveran geta verið hverful. Fyrir einungis tveimur vikum síðan tapaði ég mér alveg í geðvonskunni út af handboltaleik sem riðlaði dagskránni á RÚV á sunnudagskvöldi. Fréttunum var seinkað og ég rétt gat haldið mér vakandi yfir Ófærð. Segið mér á meðan ég man, er Ólafur Darri að fara að taka þátt í Söngvakeppninni 2019? Einhver var að tala um það.
En þar sem ég hef setið svolítið í súpunni undanfarna mánuði og þurft að sætta mig við það, hef ég gert mitt besta til að tileinka mér þau ágætu orð sem fyrsti hluti Æðruleysisbænarinnar inniheldur til að létta mér lífið. (Þetta er ekkert grín, þessi bæn er sannleikurinn.)
Gef mér æðruleysi
til að sætta mig við það sem ég fæ ekki breytt,
kjark til að breyta því sem ég get breytt
og visku til að greina þar á milli.
Þannig að þegar ég hafði eytt aðeins of mörgum dýrmætum kröftum í að agnúast út í sjónvarpsdagskrána, vakti ég sjálfa mig upp úr geðvonskudvalanum, fór með bænina og tók fyrstu hendinguna til mín.
Ég hef því alla tíð tengt íþróttaáhorf við erótík eins og gert hefur verið frá örófi alda. Gott dæmi um það er glíman.
-Þess vegna hef ég aðeins getað horft á þá íþróttamenn sem heilla mig.
-Þess vegna horfði ég endrum og eins á brot úr leikjum Manchester United þegar jafnaldri minn Beckham sólaði upp völlinn hér í denn og skoraði hvert markið á fætur öðru með fallegu leggjunum sínum.
-Þess vegna hef ég aldrei getað skilið þegar fólk horfir ógagnrýnið á hvaða íþrótt með hvaða íþróttafólki sem er. Um jólin varð ég til dæmis vitni að því að bróðir minn og móðir horfu á dartkeppni þar sem tveir menn, mjög svo lítið fyrir augað, voru að keppa. Ekki það að þeir hafi verið of ungir, þeir voru á gullaldrinum svokallaða, með grátt í vöngum og tilheyrandi en þeir báru ekki með sér kynþokka, síður en svo. Og yfir þessari keppni voru bróðir minn og móðir æst í meira lagi og ég skildi akkúrat ekki neitt í neinu.
-Þess vegna var ég svona ofboðslega heilluð og æst yfir handboltanum fyrr á þessari öld þegar jafnaldrar mínir voru að gera það gott. Árin 2002, 2004, 2006, 2007, 2008, 2011, 2012, 2013, 2014 voru skemmtileg og mjög heit. Þetta voru góð ár fyrir okkur Fúsa, þar sem kyndingin var skrúfuð í botn. Nei annars, bökkum aðeins…
Eftir að sá gullfallegi og mjög svo kynþokkafulli markmaður Kasper Hvidt (sjá mynd) hætti árið 2008, dvínaði erótíkin og þar með áhuginn á að horfa á handbolta. Árið 2012 var síðasta árið sem ég barði þessa íþrótt augum en þá voru þeir allir hættir, það er að segja, allir þessi kynþokkafullu á mínum aldri. Hver man ekki eftir grallarabrosinu hans Joachims Boldsen? Eða kyssulegu vörunum hans Michaels V. Knudsen? Hver man ekki eftir sjálfum konungi kynþokkans; Kasper Hvidt? Bara við að rita nafn hans, lætur mér líða eins og átján falleg fiðrildi flögri um í maganum á mér. Þetta voru góð ár, mjög góð og gerðu margt gott fyrir mitt hjónaband. Síðan hefur mikið vatn runnið til sjávar og við Fúsi þurft að leita nýrra leiða til að varðveita kyndinguna og ég að telja í mig kjark til að grafa upp öðruvísi tilfinningar gagnvart handboltanum til að sætta mig dagskránna í sjónvarpinu þessa dagana og vera með í þjóðfélagsumræðunni. Ég fór því inn á Wikipedia fyrir örfáum dögum síðan og skoðaði hvern og einn leikmann með tilliti til aldurs og komst að því að þeir eru flestir jafnaldrar dætra minna í dag. Og þessi nýja vitneskja eða vöknun gerði það að verkum að ég fékk aftur sterkar tilfinningar til strákanna, ekki þær sömu og áður, ekki þessar heitu og kynferðislegu heldur bara beisik væntumþykju. Svona eins og þeir væru allir vinir dætra minna og heimagangar á okkar heimili. Ég ímyndaði mér að ég gæti sagt við þá eins og ég hef sagt við heimalingana undanfarin ár: Hej Landin, viltu kryddbrauð? eða Hej Mikkel, já auðvitað máttu fá þér mjólk….
Af þessari ástæðu horfi ég núna (í þessum skrifuðu orðum) með gleði í hjarta á úrslitaleikinn á heimsmeistaramótinu í handbolta og óska danska landsliðinu (sonum mínum) alls hins besta í dag og um ókomna framtíð.