Það sem á dagana drífur / Hárið

Sjaldan ef nokkurn tíma hef ég safnað einhverju af eins mikilli áfergju eins og undanfarnar vikur. Ég er nefnilega að safna hári með öllum þeim lífsins sálar kröftum sem ég á til. Ég nenni ekki að vera svona lengur. Hvernig svona? Jú svona hárlaus. Eða krúnurökuð.

Myndir teknar í mars ´18 og janúar ´19.

Um áramótin sleppti ég höfuðfati á meðal manna í fyrsta skipti. Eftir það fór ég í vöfflukaffi, út að borða, í hádegismat á bókasafninu og í bíó, einnig án höfuðfats. Það voru komnir svolítið myndarlegir broddar enda hárið búið að vaxa síðan um miðjan desember og ég var að æfa mig í að vera svona á meðal fólks. En þar sem þeir eru svo fíngerðir og minna helst á dún, æðardún að sjálfsögðu, þá ákvað ég að snyrta aðeins.
Þegar ég gekk niður tröppurnar í morgun á leið niður á baðherbergi, minntist ég hársnyrtingarinnar rétt fyrir jól, augnabliki fyrir Íslandsferð, þegar ég rakaði óviljandi alltof mikið af. Þess vegna tautaði ég fyrir munni mér á leiðinni niður: Muna að stilla rakvélina, muna að stilla rakvélina, muna að stilla rakvélina. En svo varð mér litið til hliðar og sá að ég átti eftir að búa um rúmið, hætti að tauta og bjó um. Þegar það var búið, setti ég í þvottavél, tók af snúrunni, braut saman og gekk frá. Mundi svo eftir að ég ætlaði að snyrta lubbann.

Ég greip rakvélina hans Fúsa, kveikti á og renndi henni eftir höfðinu endilöngu á stystu stillingu. Djöfulsins. Ég hafði gleymt að stilla lengdina. Hvernig er hægt að vera svona gleymin? Allavega, það þýddi ekkert annað en að klára snyrtinguna á þessari stillingu. Andskotinn.

-Elskan mín, ég myndi ekki klæðast hermannajakkanum þínum næstu daga, sagði Fúsi þegar hann kom heim úr bakaríinu.
-Nei, það skal ég ekki gera, svaraði ég.
-Ekki heldur fara í leðurjakkann þinn, minnti hann mig á.
-Nei, ekki nema þá að vera með kvenlegan klút um hálsinn, svaraði ég aftur.
-Já, allavega ekki að vera með gaddaólina þína um hálsinn, sagði hann flissandi.

En eftir á að hyggja, var kannski ekkert svo vitlaust að raka broddana alveg af, alveg niður í rætur því að það sem féll í hvítan vaskinn, líktist ekki hári heldur salla af einhverju tagi. Slíku þýðir lítið að safna.

Samt finnst mér ég vera komin aftur á byrjunnarreit. Og það eru fermingar eftir tvo mánuði! Ég verð víst ekki með spennur í hárinu við þær athafnir. Auk þess er ískalt úti og það næðir í gegnum allt, vegna þess að mér finnst svo óskapans gott að lofta út. Stundum minni ég sjálfa mig á eftirminnilegan kennara sem gerði tilraun til að kenna mér ritvinnslu á unglingsárunum. Hún þurfti svo oft að anda að sér fersku lofti og ég skildi það ekki þá.
Mér er krónískt kalt á höfðinu, líka inn í híbýlum og það hvarflaði að mér í augnablik áðan að setja á mig buff. En svo rankaði ég við mér og ákvað að leggjast ekki svo lágt. Þó að ég líti út fyrir að vera á villigötum, þá ætla ég ekki að bæta buffi ofan á það útlit. En kannski ætti ég að beygja mig fyrir buffi vegna þess að líkaminn aðlagar sig oft að aðstæðum. Minn gerir það allavega og núna líkist ég meira nýfæddum og dúnmjúkum andarunga í framan en konu á fimmtugsaldrinum, vegna þess að andlitið er að bregðast við skjólleysinu sem hár myndi veita.

Ég hlakka óstjórnlega mikið til að geta gert greiðslu, bara örlitla greiðslu með einum litlum dropa af vaxi. Ég er óþolinmæðin uppmáluð og trúi því að hárið vaxi hraðar ef ég dreg andann djúpt að mér og kreisti honum, andanum, út aftur í gegnum húðina. Þetta geri ég sextán sinnum á dag. Einu sinni á klukkutíma í vakandi ástandi. Það er sagt að þolinmæði vinni þrautir allar og að það hafist allt með þolinmæðinni einni saman. Það er bara bull og vitleysa. Það hefst akkúrat ekki neitt með þolinmæðinni annað en að það sem á að hafast breytist bara í steingerving.

Kannski held ég upp á það með einhverjum hætti þegar ég get gert greiðslu, ég veit ekki ennþá hvernig en ég veit þó að ég ætla ekki að fá mér permanent. Sko aldrei. Sama hvursu sítt hárið verður. Það var nefnilega ein konan í sveitafélagsleikfiminni að fá sér permanent og ég fékk nú bara einhverskonar áfall þegar ég sá hana. Hún var með hár svolítið niður fyrir eyru og topp. At setja lambakrullupermanent í topp er nú bara það fyndnasta sem ég hef séð í langan tíma. Ég gat ekki hætt að horfa á hana þar sem hún hljóp á hlaupabrettinu beint á móti mér þar sem ég sat á róðrarvélinni og ég stóð mig aftur og aftur að því að skella aðeins upp úr. Þið kannist eflaust við það þegar þið eruð bara ein með sjálfum ykkur og að hugsa eitthvað fyndið og farið að hlæja. Það er ekkert athugavert við það þegar það gerist heima eða í bílnum, enda tek ég varla eftir því þá þannig séð en þegar það gerist niður á göngugötu eða inn í búð eða á álíka stöðum innan um fólk, getur það verið svolítið vandræðalegt.

Já, ég er orðin hundþreytt á að vera ekki með almennilegt hár þó ég ætli ekki að fá mér permanent. Svo þreytt á því að ég er farin að grípa til hárkollunnar endrum og eins. Í færslunni um hárið sem ég gerði fyrir jól og er hægt að lesa hérna, kvarta ég yfir hárlausum nösum. Núna kvarta ég yfir því að ná varla andanum fyrir brúskunum sem eru á góðri leið með að geta heilsað kumpánlega upp á búkonuhárin sem búa á hæðinni fyrir neðan. Og styn yfir því að þurfa að fara langleiðina niður  í gólf og skoða ökklana áður en hitastigið úti klifrar upp fyrir frostmark aftur. Áður en ég smeygi mér í vorskóna og bretti upp á buxnaskálmarnar.

Ó, það er svo erfitt að gera mér til hæfis…

 

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *