Árið 2018

Kæru lesendur, gleðilegt ár með kærri þökk fyrir það liðna.

Já hvar á ég að byrja þegar rifja á upp árið sem liðið er? Árið 2017 kúventist um mitt ár, frá því að vera erfitt og þokukennt í að verða frábært. Árið 2018 var eiginlega öfugt, fyrri hlutinn var skemmtilegur og fullur af bjartsýni og tækifærum en kúventist síðan akkúrat og nákvæmlega 8. maí. Það var dagurinn þar sem ég vaknaði um morguninn glöð í bragði og ódauðleg, var svæfð á skurðstofu í Aabenraa og vaknaði síðan aftur eftir hádegi – dauðleg, í orðsins fyllstu merkingu. Og hef verið það síðan. Dauðleg. Því hefur verið frekar erfitt að kyngja og oft á tíðum svo yfirþyrmandi að staðið hefur í mér.
Árið 2018 er árið sem margir minnast sem góðviðrisársins mikla; besta vor í manna minnum, besta sumar í manna minnum o.s.frv. Sumarið 2018, þegar svitinn draup af hverju andliti og hvorki gólf né borðviftur voru fáanlegar í gjörvallri Evrópu eftir miðjan júní. Sumarið 2018, þegar freyðandi vínið seldist upp í ríkinu og rósóttir skósíðir sumarkjólarnir gældu við útitekna leggi kvenkynsins. Allavega hér í Skandinavíu og fyrir austan. Sumarið 2018, þegar eitthvað kolrangt var við veðrið.
Sólin hélt áfram að skína fram eftir hausti og vetri þrátt fyrir að oft væru dimm ský í grennd.

Ég ætla að halda uppteknum hætti og gera eins og undanfarin ár. Hafa upprifjunarannálinn í yfirskriftum í stafrófsröð.

Afrek
Mitt mesta afrek var að hafa haldið sönsum. Það finnst mér töluvert afrek.

BÆKUR 

Eftir að hafa litið yfir bókahilluna, skoðað gamlar bloggfærslur, skoðað Storytell og Mofibo og rifjað upp stað og stund, held ég að mér hafi tekist að týna saman flestar bækurnar sem ég las árið 2018. Þessi

Ég ætla að gefa bókunum stjörnur, eina til þrjár. Ef bók hlýtur þrjár stjörnur, mæli ég með henni vegna þess að hún var mjög góð eða góð og gagnleg. Tvær stjörnur, þá er hefur mér fundist bókin góð en kannski ekki frábær. Ein stjarna þýðir að ég get ekki beinlínis mælt með bókinni, en minni jafnframt á að bókasmekkur hvers og eins er misjafn og enginn er betri en annars.

Afdalabarn – Guðrún Jónsdóttir **
Þrúgur reiðinnar – John Steinbeck ***
Kátir voru karlar – John Steinbeck **
Ljósmóðirin- Eyrún Ingadóttir ***
Sakramentið – Ólafur Jóhann Ólafsson **
Bróðir minn Ljónshjarta – Astrid Lindgren **
261 dagur – Kristborg Bóel Steinþórsdóttir ***
Manneskjusaga – Steinunn Ásmundsdóttir ***
Stormfuglar – Einar Kárason **
Heimskra manna ráð – Einar Kárason ***
Drungi – Ragnar Jónasson *
Mistur – Ragnar Jónasson *
Aðventa – Gunnar Gunnarsson ***
Svartfugl – Gunnar Gunnarsson **
Heiðaharmur – Gunnar Gunnarsson ***
Mávahlátur – Kristín Marja Baldursdóttir ***
Kular af degi – Kristín Marja Baldursdóttir **
Millilending – Jónas Reynir Gunnarsson ** (Aldísi fannst hún mjög góð enda á sama aldri og höfundurinn, hún fékk svo nýju bókina hans í jólagjöf.)
Sauðfjárávarpið – Hákon Jens Behrens *
Hrafninn – Vilborg Davísdóttir ***
Eyland – Sigríður Hagalín Björnsdóttir ***
Syndafallið – Mikael Torfason ***
Birtingur – Voltaire ***
Planen – Morten Pabe ***
Havets børn – Anna Ekberg ***
Den hemmelige kvinde – Anna Ekberg *
Hvorfor hader han dig, mor? – Özlem Cekic ***
Hvor taler du flot dansk! – Abdel Aziz Mahmoud ***
Vejen hjem bliver længere og længere -Fredrik Backman **
Det lille bagere på Strandpromenaden – Jenny Colgan *
Bag lukkede døre – B.A. Paris **
Bøn om tavshed – Linda Castello (Amish krimmi) **

Vegna einskonar heilabilunar seinni hluta ársins varð ég að gefast upp á Vígroða eftir Vilborgu Davíðs og Den evige ild eftir Ken Follett. Vígroði innihélt of mörg nöfn (ég þarf að lesa Auði aftur) og í Follett bókinni var of mikið óréttlæti og óhugnaður. Ég tek þær báðar seinna.

FERÐALÖG.

Ísland í mars.
Ísland í desember.
… svo mörg voru þau ferðalög. Ég gæti auðvitað bætt um betur og flokkað vinnuferðir undir ferðalög til að punta þetta eitthvað en hvað hefur það upp á sig. Svona æxlaðist bara þetta ár. En samt… það má nú til gamans geta að ég náði sjö vinnuferðum til Noregs og til eftirtalinna staða: Stavanger, Bergen, Osló, Haugasund og Kristianssand. Ég fór í 33 flugferðir með fimm mismunandi flugfélögum.

FJÖLSKYLDAN

Fúsi er alltaf samur við sig – vinnur hjá sama fyrirtæki og hann hefur gert í rúman áratug, ásamt því að halda námskeið öðru hvoru út um allt land. Hann er að mestu leyti hættur að haltra eftir að hann fór í hnéaðgerð í haust og farinn ganga með gleraugu allan daginn. Hans helsta afrek er líklega það sama og mitt, að hafa haldið sönsum sem aðstandandi.

Aldís og Greg fóru frá París í Eiða í byrjun árs og voru þar til lok júní. Þaðan lá leiðin aftur til Parísar fram í september, en þá fluttu þau til Stokkhólms. Aldís hefur verið að þjóna en er byrjuð hjá Johnson & Johnson núna. Greg er að kokka á hóteli.

Svala vann við afleysingar á dvalarheimili í Dybbøl og ferðaðist hvenær sem tækifæri gafst. Í janúar fór hún til Filippseyja og síðan til Balí í lok maí. Hún þurfti einnig langt frí í lok júní til að fara á Hróarskeldu, þriðja árið í röð. Hróarskelduhátíðin er ekki bara löng helgi, heldur löng vika. Mig minnir að hún hafi verið þar í 10 daga. Í september spenntu Svala og Jacob síðan bakpokana á sig og héldu til Mexíkó. Þar voru þau í um það bil tvo mánuði. Þaðan héldu þau til Guetemala og Costa Rica. Jacob flaug þaðan heim til Danmerkur en Svala hélt áfram til Panama og sigldi síðan yfir til Kólombíu þar sem hún hefur verið síðan um miðjan desember. Hún er í Medellín og er á spænsku námskeiði.

GISTANDI GESTIR OG ÞEIR SEM DROPPUÐU INN. 

Það má eiginlega segja að árið hafi verið gríðarlega gestkvæmt, sérstaklega seinnihlutann og var vika vinsælt stopp. Mjög vinsælt.
Í apríl kom Sessa æskuvinkona mín í húsmæðraorlof og var planið að sóla okkur og drekka suðræna drykki allan tímann. En nei, veðrið sem ég hafði lofað Sessu lét ekki á sér kræla fyrr en daginn eftir að hún fór.
Maggi bróðir og Viktor tóku á móti mér þegar ég útskrifaðist af sjúkrahúsinu, reyndar var það ekki planið en allt fór öðruvísi en búist var við í þessari innlögn minni þarna í júní. Sigrún vinkona kom í júlí með tölvuna með sér og vann héðan í viku. Mamma kom þegar Sigrún fór, Rakel systir kom í lok ágúst og pabbi daginn áður en hún fór. Vinkona mín, Ingunn Eiríks sem upphaflega var stafræn vinkona en svo hittumst við, kom við á leið sinni um Danmörku og gisti í eina nótt.

„Drop inn“ gestagangurinn var líka mjög mikill og stór hluti hans var eiginlega eitt af því sem gerði það að verkum að ég hélt sönsum. Íslensku vinirnir voru frábær afþreying á svo margan hátt, Danirnir, sem að langflestir eru innan heilbrigðisgeirans, voru gámarnir sem tóku á móti þegar orðin fossuðust stjórnlaust út úr mér eins og stífla sem brestur. Sama tuggan eða sami fossinn aftur og aftur. En það bjargaði mér líklega, bæði afþreyingin og móttökugámarnir.

TÓNLEIKAR OG BÍÓ (eftir minni)

Teitur í Sønderborg slot
Thorbjörn Risager & The Black Tornado í Sønderborg hus
Gospelkór Sönderborgar ásamt myndlistasýningu í menningarhúsinu Harbæksgaard i Skovby.
Guns N´Roses frá svölunum á deild D6 á háskólasjúkrahúsinu í Óðinsvélum (OUH.)

Darkest hour
Utøya 22. juli
Journal 64
Bohemian Rhapsody
Zulu sommerbio – Ladybird

Árið 2018 var ár örvinglunnar, umhyggjunnar, ógleðinnar, vonarinnar, sorgarinnar, þreytunnar, heilabilunnar, bjartsýninnar,  hræðslunnar, svartsýninnar, væntumþykjunnar, gleðinnar, áhyggjunnar og ekki síst lífreynslunnar. Árið 2018 var sem sagt ár þeirra „unnar“ og „innar.“

Árið 2018 var mjög lærdómsríkt en stundum finnst mér eins og ég sé ekki að nýta þennan lærdóm eins og ég ætti að gera. Svona eins og ALLIR sem lifa af krabbamein virðast gera. Afhverju hef ég ekki breytt mataræðinu og fengið óstjórnlega löngun til að lifa því hollasta lífi sem til er? Afhverju langar mig meira í romm og Bingóstangir frá Góu en í sellerí? Afhverju hugsa ég alltof oft um hvernig ég verði mér útum vottorð í leikfimina, í staðinn fyrir að hella mér út í yoga, innhverfa íhugun og sítrónugufuböð sem eiga að vera allra meina bót? Hef ég kannski ekkert lært?

Árið 2018 fann ég í fyrsta skipti á ævinni fyrir einmanaleika þrátt fyrir að vera umkringd fjölskyldu og vinum. Enda er einmanaleiki ekki það sama og að vera einn. Mér hefur oft fundist ég vera alein með minn sjúkdóm því að enginn hefur skilið til fulls hvað þetta allt saman snýst um. Og það er ekki nokkur leið að útskýra það og það hvarflar ekki að mér að ætlast til að nokkur manneskja skilji það. Ég skildi það ekki sjálf fyrir átta mánuðum síðan. Ég mun tæpast skilja aðra krabbameinssjúklinga til fulls þrátt fyrir mína reynslu, því að öll upplifum við hlutina misjafnt, erum á misjöfnum stöðum og með ólíkan bakgrunn. Í örvæntingu minni á tímabili þráði ég að kynnast öðrum konum með sama krabbamein og á svipuðum stað í ferlinu og ég en það reyndist ekki auðvelt. Annað hvort voru þær varla til eða að við áttum ekki samleið þrátt fyrir allt. Í dag hef ég akkúrat enga þörf fyrir slíkan félagsskap. Veit ekki með á morgun.
Ég hef nokkuð oft verið spurð að því hvort það sé ekki æðislegt að vera laus við sjúkdóminn og bara búin… Ég svara langoftast með jú-i. Sem er auðvitað haugalýgi því ekkert er búið, ekki einu sinni lyfjameðferðin sem hangir eins og spotti aftan úr mér og ég næ honum ekki til að slít’ann. Kannski verð ég liðugri ef ég mæti alltaf í leikfimina og næ honum þá á endanum. Vonandi.
En það er þetta sem gerir það að verkum að það örlar á einmanaleika. Það er svo erfitt að útskýra og virkar svolítið tilgangslaust. En það er í lagi, svona er þetta bara.

Árið 2018 
var ár pokans. Stundum kallaði ég sjálfa mig Pokakonuna en það er skírskotun í danska orðið Posedame sem merkir kona sem býr á götunni og varðveitir það litla sem hún á í plastpoka. Þó svo að það sé alveg fráleitt að bera saman mínar aðstæður og pokakonunnar á götunni. Ég myndi ekki vilja skipta við hana. Það voru eingöngu pokarnir sem fengu mig til að uppnefna sjálfa mig með þessum hætti.

Árið 2019, takið eftir; 2019, byrjaði ofboðslega vel. Í lok nóvember fór ég í blóðprufur hjá erfðargreiningardeildinni á OUH til að kortleggja krabbameinið erfðarfræðilega og til að athuga hvort það væri arfgengt. Ég vissi að svarið kæmi fljótlega eftir áramót og bað um bréf ef svarið væri gott og viðtal ef að það væri slæmt. Ég var líka búin að ákveða að steinþegja þangað til Svala kæmi heim frá Suður Ameríku ef að svarið yrði slæmt.
Í fyrrakvöld kom bréf þess efnis um að krabbameinið væri EKKI arfgengt og þvílíkur ofboðslegur léttir. Ég hefði varla afborið ef að Aldís og Svala hefðu þurft að fara að taka ýmislegar ákvarðanir fyrir aldur fram og sífellt vitandi að þær væru með eitthvað vesenis gen í sér.

Þetta voru langbestu fréttir fyrir mig í mörg ár. Er lífið bara ekki dásamlegt?

Símamyndir sem voru teknar 4. desember í fallegasta göngutúr lífs míns.

 

 

 

8 Responses to “Árið 2018

  • Heil og sæl,
    magnaður pistill hjá þér, dáist að þér að deila þessu með okkur.
    Bókalistinn fjölbreyttur og stjörnurnar flottar.
    Þú ert mjög góður penni og til fyrirmyndar hvernig þú kemur þessu í orð. Áfram þú og eigðu gott ár 2019, set nafnið þitt í bænabókina.
    Kveðja Halla

  • Afram Dagný! ?

  • Vel skrifaður annáll Dagný, þú ert frábær penni. Takk fyrir að leyfa öðrum að lesa heilandi skrifin þín.
    Mér líst sérstaklega vel á bókalistann þinn og stjörnugjöfina, nokkrar þarna sem ég á eftir!

  • Hanna Dóra Magnúsdóttir
    6 ár ago

    ?
    Hugsa oft til þín.

  • Margrét Lukka Brynjarsdóttir
    6 ár ago

    Djöfull komstu yfir margar bækur!!!!!

  • Hæ þú hæ þú megi 2019 verða þér heilsuríkt ?

  • Gleðilegt nýtt ár og gangi þér og þínum allt í haginn. Alltaf gaman að lesa pistlana frá þér.
    Bestu kveðjur.
    Malla

  • Halldór Jóhannsson
    6 ár ago

    Megi árið 2019 vera þér og þínum gott.
    Takk fyrir að deila þessu með okkur kæra Dagný,og alla pistlanna.
    Áfram þú kæra vinkona.

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *