Uppáhalds jólalögin mín og spekúlasjónir í framhaldinu.
Jólaundirbúningurinn hér á bæ hefur verið upp og niður þetta árið. Það setur óneitanlega mikið strik í reikninginn að hvorug stelpnanna skuli vera heima og um margt annað að hugsa en sörur og randalínur þessa dagana. Við skreyttum um mánaðarmótin og ætlaði ég bara að skreyta smá en endaði á að setja allt jólaskrautið sem ég elska, upp. Og ég elska eiginlega allt jólaskrautið okkar. Svo að allt fór upp.
Við slepptum þó seríum í gluggana þetta árið og settum upp tvær stjörnur í staðinn. Við erum vön að setja upp fjórar til fimm seríur í garðinn en létum tvær duga í ár.
Ég ákvað líka að sleppa jólakortum (held að ég hafi gert það líka í fyrra) og fannst það svíða svolítið, sérstaklega vegna þess að mér finnst óhemjuskemmtilegt að fá kort og vil því svo gjarnan að fólkið mitt fái kort á móti.
Ég hef heldur ekkert bakað en er alveg sátt við það því að ekkert af heimilisfólkinu sem er heimavið, hefur gott af sykrinum sem fylgir bakstrinum. Ég keypti íslenskar kleinur um daginn og ætla að verða mér úti um randalínusneið þegar ég kem til Íslands.
Já við Fúsi og Aldís ætlum að halda jól í Keflavík og og Kópavogi í ár. Þetta verður stutt og vonandi laggott stopp.
Síðan hef ég verið að hlusta á jólatónlist og þar breytist lítið. Alltaf á ég mér þrjú óuppáhaldslög og þrjú uppáhaldslög – ár eftir ár. Alltaf sömu lögin.
Þrjú óuppáhaldslögin mín eru:
- Sleðaferð með Brooklyn Fæv (verð að slökkva um leið og það byrjar, annars fæ ég heiftarlega magaverki.)
- Ég hlakka svo til með Svölu Björgvins (það koma sprungur í eyrnagöngin mín sem er synd því að Svala var bara barn þegar hún söng þetta.)
- Last Christmas með Wham (ef það er spilað í verslun þar sem ég er stödd, þá hætti ég við að versla í versluninni.)
Þrjú uppáhaldslögin mín ár eftir ár eru:
Teikning: Þórdís Tryggvadóttir
- Jólakötturinn með Björk – Bæði textinn og Björk, ég bara elska þetta.
- Snjókorn falla með Ladda og Merry Christmas everyone með Shakin´ Stevens – Ég kemst alltaf í gott skap og ÞARF alltaf að dansa við þetta lag. Síðan elska ég næstum öll lög þar sem maður heldur að þau séu búin en svo eru þau ekkert búin. Þetta gerist á 2,21 mínútu í þessu lagi. Þetta er best í heimi. Ef að ég einhvern tímann sem lag, þá ætla ég að láta það „klárast“ í miðju lagi.
- Gleði og friðarjól með Pálma Gunnars. – Bara elska það. Og elska Pálma.
Ég labbaði út í Kaupfélag snemma í kvöld og á meðan ég var að klæða mig út í kuldann, hljómaði Gleði og friðarjól í útvarpinu.
Víða er hart í heimi, horfin friðarsól. Það geta ekki allir haldið gleði og friðarjól.
Ég setti á mig húfuna og áfram söng Pálmi…
…Þrautir, raunir náungans, víst koma okkur við.
Ég elska þetta lag bara svo rosalega mikið.
Biðjum fyrir öllum þeim sem eiga bágt og þjást, víða mætti vera meir´um kærleika og ást.
Ég get engan veginn ímyndað mér að ég eigi nokkurn tíma eftir að hætta að elska það. (Hvað hefur orðið elska komið oft fyrir fram að þessu?)
Ég fór dúðuð út, enda skítkalt í Danmörku þessa dagana. Fyrir utan kaupfélagið var heimilislaus maður að selja dagblað heimilislausra ásamt jóladagatali. Ég keypti jóladagatalið um daginn fyrir utan annað kaupfélag, þannig að í kvöld keypti ég dagblaðið þeirra sem heitir Hus forbi. Þessi heimilislausi maður er útlendingur eins og ég. Við erum samt ekki eins útlendingar en eigum það þó sameiginlegt að hafa bæði flutt frá föðurlandinu til að freista gæfunnar. Hann þó líklega í meira mæli en ég. Þessi maður ætlar að eyða jólunum hjá vini sínum sem á lítinn sumarbústað.
Ég verslaði það sem mig langaði í, í kaupfélaginu. Þegar ég kom út aftur, var maðurinn farinn – pínulítið sem betur fer, hugsaði ég. Maðurinn var í hrópandi ósamræmi við sjálfa mig, það eina sem við eigum sameiginlegt í fljótu bragði er augnliturinn og að vera útlendingar. Hann minnti mig óþarflega mikið á gjánna á milli okkar og hvernig ég verð alltaf duglegri við að styrkja allt og alla í desember, að einhverju leyti til að fróa minni eigin samvisku, að einhverju leyti því að jólaandinn með öllum sínum kærleik kemur yfir mig. En þó að þetta sé viss samviskufróun, þá er svo mikilvægt að gera eitthvað, þó að það sé ekki nema 20kr hér og þar ásamt brosi hingað og þangað og láta aðra sem á þurfa að halda, njóta góðs af því. Því að eins og ein heimilislaus kona á sextugs aldri sem var í viðtali í danska ríkissjónvarpinu fyrri stuttu sagði: „Það besta sem ég veit, er þegar fólk sér mig sem manneskju.“
[…] Uppáhalds jólalögin mín og spekúlasjónir í framhaldinu. […]