Amman á tröppunum.
Í morgun sat ég og var að lesa Svartfugl eftir Gunnar frænda. Bókin fjallar um morðin sem framin voru árið 1802 á Sjöundá og þar sem ég get rakið ættir mínar til Sjöundáar, í gegnum Ástu ömmu, er ég meira spennt fyrir þessari bók en ella. Ég var bara að byrja á henni og kannski rekst ég á Jón Ólafsson, nafn langalangalangaafa í bókinni. En líklega ekki, ætli hann hafi ekki flust að Sjöundá eftir atburðina og því verið alsaklaus.
Allavega, undanfarna mánuði hefur mér títt verið hugsað til ömmu og hvernig hún tók á sínum aðstæðum. Hún var með erfiðan nýrnarsjúkdóm og þurfti því að vera í pokaskilun reglulega, eitthvað sem hún lærði að gera sjálf og sá um sjálf. Hún flutti frá Seyðisfirði til Egilsstaða árið 1993 vegna þessa og dó 1998. Í þessi fimm ár, stóð hún í skiluninni á milli þess að sjóða salt- og hrossakjöt til að bjóða okkur Fúsa í, í mat. Vegna þess að Fúsi elskaði og elskar salt- og hrossakjöt. Hún dekraði hann alltof mikið miðað við hvernig hann lifði lífinu í þá daga.
Amma hafði aldrei tekið bílpróf og var ekki góð til gangs eftir að hún flutti upp í Hérað og þar sem ég var komin með bílpróf, gerði hún mig að sérlegum einkabílstjóra sínum. Þannig upplifiði ég það. Á Toyota Starlet, árgerð ’80, rúntuðum við út um allan bæ en þó langmest í Kaupfélagið. Ekki get ég sagt að mér hafi alltaf fundist þessar Kaupfélagsferðar skemmtilegar, enda tóku þær tíma. Fyrir ömmu hefur þetta verið stór viðburður, hún gat hitt fólk og skoðað hina ýmsu sviðaskanka í frystiborðinu. Hún komst út með þessu móti. Amma hitti alltaf einhvern sem hún þekkti og ef hún nú þekkti engann, þá kynntist hún bara nýju fólki sem líka var að virða fyrir sér sviðaskankana í frystiborðinu. Og ég stóð fyrir aftan, alveg að springa út óþolinmæði, enda bara 17, 18, 19 ára.
Þrátt fyrir þennan erfiða króníska sjúkdóm, man ég ekki eftir að hún hafi kvartað, barmað sér, vorkennt sér né tuðað yfir stöðu sinni. Hún bara gerði þetta því að hún þurfti þess.
Og ég var eitthvað að hugsa um hana í morgun, um leið og ég var að lesa bókina um morðin á Sjöundá.
Þá hringdi dyrabjallan, klukkan 08:17. Ég kíkti út um gluggann og sá að bíllinn fyrir utan var merktur Flekstrafik, sem er þjónusta sem keyrir fólki sem ekki getur notað almenningssamöngur, til og frá hinum ýmsu stöðum. Ég hef nýtt mér þessa þjónustu til Odense. Ég fór til dyra ásamt Vaski. Fyrir utan stóðu tvær konur, önnur líklega um sextugt, hin ævagömul með skjálfandi staf. Sú sextuga hélt undir handlegginn á þeirri ævagömlu. Ég sagði hæ. Þessi sextuga sagði líka hæ. Hin brosti bara veiklulega. Ég beið, það var þeirra að tala, segja hvað þær vildu, því að þær dingluðu. Þær sögðu ekkert. Ég horfði og lyfti augabrúnunum í spurn. Þá sagði þessi sextuga: Sætur hundur. Ég játti því og hélt áfram að horfa á þær. Þær voru ekki með söfnunarbauk í höndunum, enga bæklinga, enga tösku og þessi ævagamla var of gömul til að vera Votti Jehovi og ganga með boðskapinn í hús. Hvað vildu þær eiginlega?
Þá sagði þessi sextuga við þá ævagömlu: Claudina, er það hingað sem þú áttir að fara? Já, var svarið og þær gerðu sig líklega til að koma inn.
Ég gerði mig breiða í dyrunum og spurði hvort þær væru nú alveg vissar um það? Já, er þetta ekki Møllegade 21?
Jú víst er það, en í Sønderborg, svaraði ég. Minnug bandaríska ferðamannsins sem keyrði frá Keflavík norður á Laugarveg á Siglufirði í staðinn fyrir á Laugaveg í Reykjavík. Og vegna þess að einhverjir af okkar gestum hafa endað á Møllegade í Broager eða í Augustenborg í gegnum tíðina.
Þá dróg greinilega ský frá sólu hjá þeirri ævagömlu því hún rétti upp vísifingurinn, brosti breitt og sagði: Jú alveg rétt, jeg bor i Augustenborg. Sú sextuga stundi þungt og studdi síðan skjálfandi konuna niður tröppurnar aftur.
Var það afþví að ég var að hugsa um ömmu, að einhvers konar almætti ætlaði að færa mér „ömmu?“ Skítt með það þó að hún héti Claudina Olsen og væri ekki viss um hvar hún ætti heima.
Þetta er ekki amma mín. Þetta er bara amma á Internetinu.