Leikfimin – sem á að vera allra meina bót.
Ég verð að segja ykkur í hverju ég byrjaði í á mánudaginn. Ég byrjaði nefnilega í sex vikna langri krabbameinsleikfimi sem kallast Kroppur og krabbamein (Krop og kræft) og er á vegum Ríkisins held ég. Allavega er þetta landlæg leikfimi og ætluð krabbameinssjúklingum sem eru í lyfjameðferð. Í fyrstu lyfjagjöfinni í júní kynnti hjúkrunarfræðingurinn þetta fyrir mér og ég sagði bara já já, rétt áður en ég lognaðist útaf. Ég fæ antihistamínsprautu (ofnæmislyf), ásamt barksterum og þarmaverndandi lyfi, hálftíma áður en lyfjagjöfin hefst og steinsef því alla fjóra klukkutímana sem tekur lyfin að renna inn. Og vegna þess að ég sagði já já, sendi hjúkrunarfræðingurinn inn beiðni á endurhæfingardeildinni á sjúkrahúsinu í Sönderborg sem síðan hafði samband við mig.
Þessi umræddi hjúkrunarfræðingur sem er með sérmenntun í næringarfræði, fræddi mig líka um mikilvægi vítamína, bætiefna og allskyns annarra efna en ég heyrði bara suð og hroturnar í sjálfri mér. Ég bað hana um að skrifa þetta á miða fyrir mig. Þegar við komum heim, sendi ég Fúsa með miðann í heilsubúð með þau skilaboð um að kaupa bara allt sem á honum stæði. Ég hef síðan samviskulega gleypt næstum allt sem keypt var en get engan veginn sagt til um hvort það virki eða ekki. Nema hörfræolíuna. Hún bragðast eins og lýsi sem ég hef aldrei getað drukkið því ég er alin upp á milli fjalls og áss, langt frá sjó. Hörfræolían var keypt seinna og það sem verra er, ég hélt að Fúsi hefði ekki keypt hana og hann hélt að ég hefði ekki keypt hana, svo við keyptum bæði sitthvora fínu lífrænu flöskuna. Þetta er örugglega allra meina bót, ef bragðlaukarnir virka ekki.
Þar sem ég byrjaði í lyfjagjöf rétt fyrir danska sumarfríið, þurfti ég að bíða til 6. ágúst eftir að byrja í krabbameinsleikfiminni. Það var allt í lagi því á meðan var ég í endurhæfingu hjá sveitafélaginu, reyndar stóð sú endurhæfing mestmegnis af afslöppun eða mindfulness því mér fannst það skemmtilegast og gagnlegast.
Síðan þegar ég átti að byrja í leikfiminni 6. ágúst, kom eitthvað upp á í einkalífinu, ef svo má að orði komast í einskærri kaldhæðni, því ef betur er að gáð, er lítið um hefðbundið einkalíf þessa dagana. Allavega, ég gat ekki byrjað 6. ágúst og því var mér frestað til núna. Og þessi frestun var síður en svo neitt gleðiefni fyrir mig, þar sem ég ætlaði að fara á sex vikna námskeið akkúrat núna í að styrkja andlega viðnámsþróttinn minn eða Styrk din mentale robusthed, eitthvað á vegum Krabbameinsfélagins og hljómaði mjög svo spennandi og gagnlegt. En í þetta skipti var ég tilneydd til að forgangsraða líkamlegri leikfimi því þau segja að rannsóknir sýni og sanni að líðanin er betri í lyfjameðferð ef fólk er pískað áfram í leikfimissal.
Því mætti ég galvösk á mánudaginn klukkan hálf níu upp á sjúkrahús, í nýkeyptum innanhússkóm, kvennahlaupsbol og með leikfimishúfuna mína. Já og nesti. Því þetta er engin klukkutímalöng leikfimi, eins og t.d. Crossfitleikfimin sem 70% vina minna og ættingja stunda og borga auk þess helling fyrir. Nei þetta er engin léttaleikur. Krabbameinsleikfimin er þrisvar í viku og þrjá klukkutíma í senn. Ókeypis. Ég veit að nú spyrja allir hvort þetta sé algjör klikkun. Ég held það. Örugglega algjört rugl. Reyndar fer fyrsti hálftíminn í að mæla blóðþrýsting, púls og hita til að tryggja að allir séu við hestaheilsu. Við erum tólf, ég er yngst og sá elsti eða elsta er 72 ára. Ein er að vinna þrátt fyrir lyfjagjöf, einn er nýbúinn í aðgerð á maga, ein er útlensk eins og ég, þrjú eru með hár, ein er með hárkollu. Við hin erum með húfur eða beran skallann. Sem minnir mig á það að ég þarf að fara að panta tíma í klippingu.
Á mánudaginn var í fyrsta skipti sem ég hitti aðra krabbameinssjúklinga. Við sátum hringinn í kringum borð í byrjun dags og sjúkraþjálfarinn og hjúkrunarfræðingurinn kynntu prógrammið og reglur leikfiminnar. Ég virti fyrir mér hópinn og fannst ég skera mig úr. Kannski af því að ég var yngst, kannski af því ég að var sú eina með augnmálningu – glætan ég stigi inn í leikfimissal án bananaskyggingar á augnlokunum, kannski af því að ég var ég og þau voru þau. Ég fann enga tengingu. Þangað til sú með hárkolluna, fór að klóra sér undir henni og síðan að grínast í eitt stutt augnablik með að hafa hana skakka. En svo lagaði hún hana og ég fór að hlæja alveg neðan úr maga og fann að það er einhver tenging.
Öll vorum við hitalaus og með fyrirmyndar blóðþrýsting svo hægt var að hefja leikfimina. Sólin skein skært inn í bjartan og víðan leikfimissalinn og sjúkraþjálfarinn og hjúkrunarfræðingurinn voru alveg í essinu sínu á meðan við hin vorum frekar feimin og óörugg. Þangað til við vorum látin twista í upphitunni og síðan að fara í eltingarleik. Þá breyttist allt.
Krabbameinsleikfimin samanstendur af þrekæfingum, þolæfingum, slökun ásamt fyrirlestrum. Á prógramminu er meðal annars sálfræðingur, kynlífsfræðingur og næringarfræðingur. Ég man ekki eftir öðrum fræðingum en það er ekkert að marka, ég man ekkert stundinni lengur. Ég man þó að það á að tala um lyfjagjafaheila eða Chemobrain sem er þekkt og hvimleitt fyrirbæri sem margir lyfjagjafasjúklingar upplifa.
Ég mætti aftur í dag og eins og ég greindi frá ofar, er fyrsti hálftíminn nýttur í að mæla lífsmörk og drekka kaffi. Og í dag losnaði aldeilis um málbeinið á nokkrum þar sem aukaverkanir voru aðalumræðuefnið. Einn sagðist ekki ætla að fá aukaverkanir, hann er ekki búinn að fara í sína fyrstu lyfjagjöf. Tvær sögðu að það væru engar aukaverkanir. Ein sagðist verða þurr í munninum. Önnur sagðist fá smá hægðatregðu. Mér leið eins og hálfvita og sagði ekki orð. Ég er yngst og mikið yngri en flestir og ætti því að vera sterkust. En leið eins og ég væri veikust. Mér líður eins og hver einasta fruma líkamans sé eitruð og að rifna í sundur í mínum aukaverkunum. Maginn fer í klessu. Ég mæðist rosalega. Beinverkir, liðverkir og vöðvaverkir geta gert mig geðveika. Mér verður líka illt í tánöglunum.
Og hin segjast ekki fá neinar aukaverkanir? Hvaða rugl er það? Svo virðast sum þeirra líta svo vel út. Það er ekki að sjá að þau hafi lést neitt, allavega ekki um 10 kíló. Þau eru ekki einu sinni guggin. Andskotan ekkert að sjá á þeim að þau séu í lyfjameðferð. Þetta fór svo í pirrurnar á mér í morgun að ég kom bara ekki upp orði þarna fyrir klukkan níu. Drakk bara mitt kaffi og nartaði í gulrót. Þetta var öðruvísi tilfinning en ég hef áður fundið fyrir því í allt sumar og haust hefur tilfinningin verið öfug. T.d. um daginn vorum við Fúsi niðri á göngugötu og gengum á eftir einfættum manni. Ég hugsaði að ég vildi frekar vera ég heldur en hann. Eða þegar ég lá í nokkra daga á krabbameinsdeildinni á OUH um miðjan ágúst og lá þá með konu á stofu sem er með ólæknanlegt krabbamein í munninum. Það var eins og stórri kjötbollu hafði verið stungið ofan í neðri vörina og ég átti erfitt með að horfa framan í hana. Mér fannst ég ljónheppin með mitt. Í hversdagsleikanum sé ég eða heyri stanslaust um fólk sem mér finnst vera í mikið verri stöðu en ég á svo margan hátt. Og mér finnst ég oft vera heppin og ég finn oft fyrir þakklætistilfinningu gagnvart minni stöðu. En þarna í morgun blossaði upp ókunnug tilfinning. Líklega vegna þess að ég er yngst í hópnum og því ætti ég að vera sterkust, sprækust, frískust, fljótust… En ég er það síður en svo. Það er bara eitthvað svo rangt. En ég jafna mig. Ég er reyndar búin að jafna mig. Það gerðist bara um leið og ég var búin í leikfiminni og gekk í gegnum aðalsvæði sjúkrahússins og niður í Röntgendeildina til að skipta mér af og stjórnast í minni eigin meðferð. Á leiðinni sá ég svo margt fólk sem var að mínu mati greinilega mikið verr statt en ég; hreyfihamlað, krónísk veikt, allt of þungt, með lungnaþembu osfrv. Því þegar allt kemur til alls er ég alveg ljónheppin þannig séð, þrátt fyrir alla mína óheppni. Ef litið er þannig á það. Sem ég geri sjálf þegar bjart er í kringum mig.
Það mætti halda að þessi mynd hafi verið tekin í dag en svo er ekki. Þetta er um það bil þriggja eða fjögurra ára gömul mynd og þarna þótti töff að vera með beltið utan yfir bolinn.
Hef hugsað oft til thín í sumar??Og léttir að “heyra” frá thér. Gangi thér vel með enduruppbygginguna. Bkv. Sesselja
Hugsa oft til þín mín kæra gangi þér vel
Besta kveðja Ástrún
Þú er gersemi áfram þú
Þú ert frábær penni, gaman að lesa bloggið þitt. Sendi þér hlýjar kveðjur ??
Mögnuð…… það hefur ekkert með aldur að gera hvernig helv…. lyfjameðferð fer með fólk. Knús yfir hafið ??