Valhoppandi í brómberjamó.
Í gær, á kaldasta degi sumarsins þegar ringdi eldi og brennisteini, vildi Fúsi fara í brómberjamó út í skóg. Ég spáði í hvort maðurinn væri ekki með öllum í mjalla. Hvað hann ætlaði að fara að æða út í 16 stiga kulda og rigningu? Hann var alveg harður á þessum berjamó og krafðist þess að ég kæmi með! Ég sjúklingurinn… Datt hann á hausinn eða hvað? Ég sagði honum að ég færi andskotann ekkert út úr húsi því ég gæti forkulast eða hvað það nú heitir. Ég gæti bara orðið fárveik. En Sigfús er húsbóndinn og það þýddi ekkert að mótmæla. Út varð ek að fara.
Hann ætlaði að vera stórtækur í berjamónum og tók því eins líters skyrdall með sér. Og valhoppaði á staðinn. Þið þekkið hann…
Við hófum tínsluna og eiginlega kom það strax í ljós að Fúsi hafði ekki mikla reynslu í berjatínslu. Hann lét stundum bara tvö ber í fötuna í einu. Maður lætur sko heila lúku í einu. Ég fór að segja honum til og m.a. sagði ég honum að hann þyrfti ekki að óttast lyngorma á berjunum eins og heima á Íslandi í rigningu. Það eina sem hann þyrfti að varast var að æða ekki nakinn inn í berjarunnann því brómber vaxa á þyrnum. Það gæti orðið óþægilegt og ef óhappið yrði myndi ég beita sömu aðferð og Stella beitti við meiðslum Georgs árið 1986. Ég sagði Fúsa það. Hann passaði sig á þyrnunum.
Það gekk ágætlega að kenna Fúsa að tína ber og það er ekki nema von að hann kynni það ekki, þar sem hann er alinn upp í Fellabæ City og lítið um ber þar. Fellabær hefur aldrei verið talinn neinn Mjóifjörður hvað berjasprettu varðar. Hann hélt nú ekki, sko að að hefði verið lítið um ber í Fellabæ. Nú hvar voru þau, spurði ég í forundran. Jú, svaraði Fúsi, þar sem Snæbjörn á heima núna. Þar fyrir ofan. Ég var ekki alveg með, spurði hvort hann væri að meina fyrir utan. Nei fyrir ofan, það er svona kantur þarna, svaraði hann. Ég var enn alveg óáttuð og spurði hvort það væri ekki búið að byggja þar. Og þar með byggja yfir berin? Það var farið að fjúka aðeins í Fúsa og því hálf urraði hann á mig að það væri kantur þarna og þar væru ber. Punktur. Ég bara gat ekki lagt saman tvo og tvo og spurði hvort berin væru í kantinum eða á kantinum. Og hvursslags ber þetta væru.
Ekkert svar.
Og seinna yfirlýsing um að bjóða mér aldrei aftur með sér í brómberjamó.
Alveg rétt hjá Fúsa, alveg hellingur af berjum í brekkunum í Fellabæ í den, skrapp oft þangað
Á bágt með að trúa því… afhverju fórstu ekki útí Þrándarstaði? 😉
hahaha get reyndar staðfest þetta með berin í Fellabæ, styð Fúsa fyllilega í því 😉
Afhverju eru bæði þú og mamma þín á móti mér og með Fúsa? Það var ekki neitt einasta ber í Fellabæ og heldur enginn ber… 😉