Gestir -gangandi og gistandi.
Sumarið er búið að vera óvenju gestkvæmt, bæði af gistandi gestum og gangandi. Enda tilvalið þegar sumarfríið er svona feikilega langt og lítið um ferðalög, að nýta það í félagslífið. Renniríið hefur reyndar verið svo mikið að ég hef þurft að skrá væntanlegar heimsóknir í almanakið mitt til að heimsóknirnar passi inn í hversdagslega prógrammet. Já geturðu komið í næstu viku? Miðvikudag klukkan eitt? Svona hafa samskiptin verið. Kallið mig danska en ef þið gerið það, þá fer ég í eilífa fýlu. Þetta heitir skipulagning og að hafa einhverja stjórn á lífinu sínu. Þetta hefur ekkert með þjóðerni að gera.
En almáttugur minn, hvað ég hef verið glöð með þennan gestagang. Og ekki síst vegna þess að það hefur svo oft fylgt þeim eitthvað. T.d. blóm, afskorin blóm, blóm í pottum, blóm í kúlum, fatnaður, tómatar, gæða sælgæti, íslenskt sælgæti, gæða gos, marengsterta fyrir 25 manns, skartgripir, morgunmatur, heimagerður hummus – hann var svo góður, þarf að muna að biðja um uppskriftina, heimatilbúnir sólþurrkaðir tómatar, heimaræktaðar gúrkur, heimaræktaðir kúrbítar, heimaorpin egg, heimatilbúið túnfisksalat, það besta sem ég hef smakkað – hér kemur uppskriftin af því.
5 dósir af almennilegum túnfiski
500 g af almennilegu og lífrænu mayonesi (ef það er ekki lífrænt, eru eggin í því ekki lífræn…)
2 og 1/2 matskeið rifinn laukur
0,6 dl sítrónusafi
3 teskeiðar salt
Þessu er blandað saman. Síðan er sett saman við:
14-15 matarlím
og 5 dl þeyttur lífrænn rjómi.
Þessu tvennu er blandað ofurvarlega saman, annars klúðrast allt held ég.
Ég kann ekkert á þetta matarlím og hef ekki gert þessa uppskrift sjálf og þarf þess ekki, því Dorta nágranni kemur með byrgðirnar til mín og ég set bara eitthvað í frystinn því það má frysta þetta. Dorta setur líka oft bleik hrogn útí og þá verður það svo dekóratíft og skemmtilegt. Á meðan ég man, þetta er heljarinnar stór uppskrift eða fyrir 12 manneskjur og vegna matarlímsins er hægt að setja salatið í hringform með gati í miðjunni, hvolfa og þá tollir það svoleiðis, ef þið vitið hvað ég er að meina. Þetta er oft gert í veislum. Held ég. Allavega er þetta besta túnfisksalat í heimi.
Já, fólk hefur líka komið með pönnukökur, naglalakk, tímarit, bækur til láns eða sem gjafir -ég elska bækur, allskonar krem og sápur, heimagerða sólberjasultu – hún var sjúklega góð, stór og góð eyru, axlir, bros og margt fleira sem ég er líklega að gleyma. Nema einu. Ein gjöfin gerði mig hálf klumsa. Ég fékk skilaboð frá Dortu nágranna um að hún hefði lagt Clöru Friis á borðið okkar fyrir utan og sagði að vonandi kæmi þetta sér vel. Clara Friis… Nafnið minnti mig á persónu eins og Kötju Kean sem var mjög fræg dönsk klámmyndaleikkona. Og því datt mér ekkert annað í hug en að Dorta nágranni, sem er á meðan ég man, leikskólakennari af hjartans lyst á barnadeildinni á sjúkrahúsinu, hefði splæst í uppblásna dúkku handa Fúsa. Gvuð, en vandræðalegt. Sérstaklega af því að Dorta er leikskólakennari, hefði verið annað ef hún hefði verið mjólkurfræðingur eða fasteignasali. Afhverju? Æ, ég nenni ekki að útskýra það, þið verðið stundum að hugsa sjálf.
Hjón í aðstæðum eins og við Fúsi erum í, eiga það til að upplifa að kynlífið hverfi eins og dögg fyrir sólu út úr hversdagsleikanum. Hvort sem okkur líkar betur eða verr. Það þarf engan stærðfræðing til að reikna það út. Samfarir eru bannaðar um óákveðin tíma samkvæmt prófessor á OUH. Það er skráð og skjalfest. Í bæklinga -og pésabúnkanum sem upp hefur safnast síðan í maí, eru allavega sjö bæklingar og pésar sem snúast um kynlíf. Þar eru líka linkar á hinar og þessar síður og símanúmer hjá kynlífsfræðingi sem stendur okkur til boða ef á þurfum að halda. Við erum semsagt hvorki þau fyrstu né ein. Ég skrifaði fyrr í þessari færslu að það væri hellingur að gera og því er þreytan og jafnvel örmögnunin stundum slík, að þessháttar hugsanir eða langanir eru ekki beinlínis til staðar. En samt á ég að það til að sakna sjálfrar mín á svo margan hátt. Stundum hvarfla að mér áhyggjur um hvort allt verði eins og áður, þegar þar að kemur. Hefur eitthvað breyst eða „bilað?“ Á ég eftir að finna fyrir því að mig vanti helminginn af kynfærunum mínum?
Oft þegar ég er á milli svefns og vöku, fer mig að hálfdreyma. Um daginn var mig að hálfdreyma og í draumnum var ég að svekkja mig á þessum aðstæðum og að mig langaði vera eins og ég var áður. Skyndilega og algjörlega ósjálfrátt, fór ég að öfunda öll vinarpörin okkar hérna í Sönderborg (þið utan Sönderborgar, verið þakklát fyrir að hafa sloppið) og sá þau öll fyrir mér vera að stunda kynlíf. Sem betur fer ekkert spennandi, bara eitthvað hjakk en ekkert par slapp. Aðeins ein til tvær sekúndur per par sem betur fer! Mér fannst þetta ekkert skemmtilegur hálfdraumur og ég skammaðist mín mjög mikið fyrir að vera að öfundast út í vini okkar og hvað þá að sjá þá. Og só sorrý að ég skuli blogga um þetta, en ég get svo svarið það, ég sá ekkert þannig séð, enga appelsínuhúð né krumpaða rassa.
Einhvern tímann, einn daginn þegar mínum ástkæra líkama þóknast að gróa eða þá að hann fái aðstoð og verði tjaslað saman af sérfræðingum á OUH, get ég kannski sett KL í kalenderinn. KL yrði kóðinn fyrir kynlíf. Svo enginn annar myndi fatta. Með svipuðum persónulegum árangri og þegar ég hef skrifað MC, TB og FS og algjörlega gleymt hvað þýðir. Veit bara að það hefur ekkert með mótorhjól, berkla né Fjölbrautaskóla Suðurnesja að gera.
Ef það verður pláss.
Suma daga er ég skrifstofukona. Eða heitir það fræðingur? Kannski, afsakið ef ég hef sært einhvern. Þekki þetta á eigin skinni. Ég hálsbrýt nefnilega fólk í huganum ef það kallar hjúkrunarfræðinga hjúkrunarkonur.
Suma daga er ég skrifstofufræðingur. Eða kannski bókari. Eða viðburðarstjórnandi. Eða ritari. Æ ég veit ekki hvað ég er. Kannski bara örvinglaður krabbameinssjúklingur. Ég allavega sit stundum klukkustundunum saman með hina heilögu þrenningu ungafólksins – iphone, Mac og kaffi fyrir framan mig og reyni að hafa stjórn á aðstæðum og sjá til þess að líf mitt sé eins bærilegt og á verður kosið. Það tekst misjafnlega.
Vitið þið annars hver hin heilaga þrenning Frakka er? Kaffi, sígó og „kaka“ (eða caca sem á frönsku þýðir kúkur.)
Aldís mín kenndi mér þennan.
Og á meðan ég man, Clara Friis eru perur. Dorta nágranni kom með þrjátíu fullþroskaðar perur af perutrénu sínu og skildi eftir á borðinu okkar.
Eigið góða helgi.
Þetta er í fyrsta sinn sem ég les bloggið þitt, góð og gildishlaðin lesning ??? Aðdáunarverður kraftur í þér ókunnuga hetja ??? Hjartans kveðjur til þín með von um bata ??
Vertu velkomin Sigríður <3 og takk kærlega fyrir skilaboðin og kveðjuna.
Finnst ég verða að vara þig við… stundum bulla ég út í eitt, stundum ekki 😉
Kær kveðja
Dagný
Æ neiiiii broskarlarnir og hjörtun sem ég sendi þér birtust sem spurningarmerki…. ferlegt
Elska blogið þitt.
Það vekur upp hugsanir, hlátur, sorg, og samúð. En lang lang oftast hlátur.
Ekki hætta að skrifa.
Kv Hanna Dóra.
Ég elska svona skilaboð!
Kær kveðja
D
Þú heillar mig.
kv
Dandý
Sömuleiðis!
Kv.
Dagný