Hvar hefur þú sofið og svafstu vel?

Við hjónin vorum að hanna og smíða náttborð og bekk fyrir framan hjónarúmið til að leggja rúmteppið á og þar með auka líkurnar á að búið verði um það. Bekkurinn virkar.

Í gærkvöldi þegar ég var að fara að sofa og gekk inn í svefnherbergið, sá ég hundinn okkar liggja steinsofandi undir rúmteppabekknum. Það minnti mig svakalega á þegar Maggi bróðir sem er aðeins yngri en ég, var látinn sofa undir skrifborðsbjákni móðurbróður míns í Berlín á Seyðisfirði. Ekki vegna þess að hann var óþekkur, heldur vegna þess að það var ekki pláss annarsstaðar þó svo að húsið hafi verið gríðarstórt, að mér fannst árið áttatíu og eitthvað. Þetta var í fyrri göngunum og Héraðsmenn og aðrir heimalingar í Berlín fylltu hvern krók og kima. Ég held að ég hafi sofið fyrir framan skrifborðið.

Einnig kom líka fyrir að einhver lagði sig í grænu baðkarinu en ekki veit ég hvort það var beinlínis vegna plássleysis eða af öðrum ástæðum.

Um leið rifjuðust upp mismunandi svefnstaðir vegna gestagangs og þar af leiðandi plássleysis í gegnum tíðina. Frændi minn, sem þá var vinnumaður hjá okkur á Tókastöðum á níunda áratugnum, svaf einu sinni á eldhúsgólfinu og ég svaf á ganginum.

Annar frændi minn, á barnsaldri, var látinn sofa í spariforstofunni á bóndabænum á Eiðum og sem betur fer er sama og ekkert gengið um þá forstofu og því var ekki troðið á honum á meðan hann lá þarna í draumaheimi.

Í Stakkahlíð svaf Borgfirðingurinn alltaf í borðstofunni. Sama hvort hann var einn í húsinu eða uppundir 100 manns fylltu það.

Fyrir um það bil 35 árum var 40 manna hópur á leið úr Þórsmörk stuttu eftir jól og vegna veðurs og ófærðar varð ferðin löng og erfið eða um sólarhringur. Þegar niður á Selfoss var komið, voru allir orðnir þreyttir og veðrið of vont til að halda áfram, svo ákveðið var að hvílast í lítilli íbúð pabba vinkonu minnar. Allir fletir voru nýttir, líka bert gólfið og því lá einn undir ílöngu sófaborðinu og annar bókstaflega undir jólatrénu. Þröngt máttu þreyttir og sáttir liggja.

Sama vinkona er í þessum skrifuðu orðum í heimsókn hjá mér frá Íslandi og var ég alveg handviss um að hún vissi að það væru tvö gestaherbergi hjá mér ásamt nógu öðru svefnplássi. Samt tók hún með sér fjórar svefndýnur í ferðalagið. Aldrei fyrr hef ég fengið gest sem tekur með sér fjórar dýnur til Sönderborgar og fer með þær aftur til Íslands. Hún er sá gestur sem hefur verslað hvað minnst af öllum okkar gestum í öll þessi ár, eða aðeins þrjú sokkapör, því það er ekkert auka pláss í töskunni. Líklega situr eitthvað í henni að hafa séð manninn liggja á beru gólfinu undir jólatré fyrir 35 árum síðan.

Hefur þú annars, lesandi góður, sofið á einhverjum skemmtilegum stað?

– Þetta voru lokaorðin í Austurglugganum 27. júlí 2018

Á myndinni er ég með hárkollu. Og hatt. 

 

 

 

7 Responses to “Hvar hefur þú sofið og svafstu vel?

  • Ásdís
    6 ár ago

    Þú ert dásemd, oft hefur verið þröng á þingi, iðulega sofið á gólfum á Þrándarstöðum og margsinnis hjá mér. Einu sinni kom ég heim, var að vinna í Valaskjálf á dansleik, hafði með mér einn frænda bóndans, þegar við komum inn þá var alls staðar legið, húsið hálf innréttað , helmingurinn einn geymur, þar sváfu 5 manns og öll rúm upptekin. Ég bauð drengsa upp á þvottahúsið eða baðherbergið, hann valdi þvottahúsið. Þegar við vorum á okkar frumbýlingsárum, bjuggum við í ca 30 m2, áður en við bjuggum þar, bjuggu þar hjón með 5 börn og amman var einnig. Í þessu sama rými, gistu hjá okkur 5 manna fjölskylda. Þröngt mega sáttir sitja og þar sem er nægt pláss er líka hjartarými.

  • Inga Heiðdal
    6 ár ago

    Þegar ég var í sveit á Tókastöðum þá svaf ég fyrsta sumarið í „geymslunni“ sem var þá stofan ótilbúin og full af alls konar dóti. Þar var gamall þungur trébekkur sem ég svaf á. Gott ef voru ekki innisnúrur þar líka. Það er eins og mig minni það.

  • Ég var einu sinni au pair í Bandaríkjunum. Var þá reyndar að hugsa um gamla veika konu en ekki barn/börn. Ég bjó því hjá og umgekkst mest gamalt fólk. Áður en ég fór út hafði ég frétt að stelpa frá Hvammstanga var í skóla í borg ekkert svo langt frá þar sem við bjuggum. Ég hafði því samband við hana og ákvað að heimsækja hana. Sonur gömlu hjónanna keyrði mig og þar var ákveðið að ég myndi gista. Við stelpurnar ætluðum út að skemmta okkur með skólafélögum hennar. Gott mál. Ég mæti á staðinn, sonurinn fer til baka, við farnar að hafa okkur til fyrir útstáelsið þegar hún segir allt í einu „æ, ég gleymdi víst að segja þér að ég var búin að lofa 2 öðrum stelpum að gista hérna fyrir löngu og það er því ekki neitt pláss fyrir þig. Þú getur auðvitað sofið á stofugólfinu en ég á enga dýnu“! Hún átti bókstaflega ekkert sem ég gat legið á og endaði ég því á að sofa, fullklædd, á teppalögðu stofugólfinu, með að mig minnir lak ofan á mér.

  • Guðrún Margrét
    6 ár ago

    Ég hef sofið undir borði í Sænautaseli vegna gífurlegs vatnsveðurs sem gerði á okkur í ferðafélaginu Völundi

  • Aldís
    6 ár ago

    Hva! Á ekkert að fara með hana í h&m!?!

    Annars þá svaf ég eina nótt á gólfinu á Egilsstaðaflugvelli. Var að koma úr menntaskólaútskriftarferð og það var svo vont veður í Keflavík að vélin var send til Egilsstaða. Svo lágum við þarna, langþreyttir og þunnir menntskælingar eftir 2 vikna sólarlandadjamm, á hörðu gólfinu þangað til veðrinu slotaði

  • Margrét Guðmundsdóttir
    6 ár ago

    Ég var alltaf í sveit á Vestfjörðum á sumrin. Frábær 7 ár á sama stað. Íbúðarhúsið var pínulítið og sváfum við krakkarnir hér og þar þegar komu næturgestír. skemmtilgast þótti okkur samt að sofa úti í hlöðu. Sennilega er ekki eins gaman að sofa í heyböggunum í dag.kær kveðja. Þú ert flott með hárkollu og hatt?

  • Jóhannes Þórarinsson
    6 ár ago

    Þegar systir mín, 2 árum eldri, gerði mig útlægan úr herberginu okkar, svaf ég í gúmmíbát fram á gangi. Kano sem hentaði ótrúlega vel sem rúm. Þarna var minn svefnstaður þar til bróðir minn flutti að heiman nokkrum mánuðum síðar.

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *