Ég lenti á fundi.
Ég er svo heppin að eiga heilan helling af góðum vinkonum og eru þær jafn ólíkar og þær eru margar. Hver og ein skipar sitt hlutverk í mínu lífi. Ein þeirra gæti t.d. kallast skandalavinkonan og það með hundrað prósent réttu. Alveg frá því að við kynntumst, þegar við vorum rétt rúmlega tvítugar, höfum við oftar en ekki skandalast eitthvað saman. Og rétt er að taka það fram að þessir skandalar hafa að mestu leyti verið saklausir þannig séð. Eftir að við urðum fertugar hefur ekkert gerst. Ég var viss um að við værum sestar í helgan stein hvað þetta varðar.
Þangað til fyrir nokkrum dögum.
Sigrún spurði hvort ég kæmi ekki með sér á AA fund eða Al Anon fund. Ég spurði hvort hún væri alveg gaga? Já okei, kannski Al Anon þar sem ég ætti klárlega meira erindi en alls ekki á AA. Hún gúgglaði smávegis og fann fund í bænum. Þú kemur bara með mér, sagði hún. Ég hafði lúmskan grun um að þetta væri hreinn og klár AA fundur og sagði að ég hefði ekkert að gera þangað. Ég hef alltaf borið mikla virðingu fyrir AA samtökunum og séð hversu mikið gang þau geta gert. Hreinlega bjargað mannslífum og ótal fjölskyldum. Jú jú, þú hefur bara gott af því, svaraði hún og lét gusta af sér eins og henni einni er lagið. Þú þekkir heldur ekki eina einustu hræðu þarna, lofaði hún. Ég var mjög efins. Búin að búa í bænum í 17 ár!
Sigrún sagði að allir væru velkomnir og að ég færi varla að senda hana eina á danskan fund, hún sem væri nánast búin að gleyma dönskunni sem hún lærði í Álaborg fyrir 15 árum síðan.
Kræst.
Veit ekki afhverju ég læt hafa mig / draga mig / plata mig útí allskonar bull aftur og aftur, algerlega óháð aldri, menntun, reynslu og fyrri störfum. Og reynslu af fyrri glappaskotum.
Ég fór með henni á fund og um leið og ég kom inn í litla fundarherbergið, sá ég mann sem ég hef þekkt í 17 ár!
Dísús kræst!
Ég held nú að flestir viti hvernig AA fundir fara fram án þess að hafa verið þar, en eftir að allir í kringum borðið höfðu sagt eitthvað, þá var röðin komin að mér. Ég var sem sagt síðust. Sigrún var búin að segja að ég gæti bara sagt að ég væri bara að hlusta á þessum fundi. Að ég þyrfti ekki að segja neitt. Sem var mjög líklega skynsamlegt ráð í þessari stöðu.
Nei nei, frekar datt mér í hug á síðustu stundu að segja að ég hefði ekki drukkið í sex vikur af persónulegri ástæðu og svo væri ég aðeins að vinna með 12. sporið þar sem ég væri svolítið að skipta mér að drykkjuvenjum fólks í kringum mig…
Og Sigrún var eiginlega ekkert skárri. Hún hafði ryðgað í dönskunni og í einhverju paniki, fór hún að draga Candy Crush inn í áfengissýkina og talaði um ”leg.“ Fólkið í kringum borðið starði á hana og hafði ekki hugmynd um hvað hún var að tala. Nema kannski einhverjir sem sáu fyrir sér einhvern leik með henni þar sem hún var klædd í Candy floss… Veit samt ekki. Var ég búin að segja að við Sigrún vorum minnst 25 árum yngri en sá yngsti?
Dísús fokking kræst!
Eftir að fundinum var formlega slitið, var boðið upp á sleipa jarðaberjatertu og haldiði ekki að það hafi verið uppáhalds tertan hennar Sigrúnar á námsárunum í Álaborg. Hún varð svo glöð að hún blakaði handleggjunum eins og lítill andarungi sem þráir að fljúga. Síðan át hún eiginlega alla tertuna. Karlarnir höfðu gaman af. Karlar af þessari kynslóð njóta þess oft að horfa á yngri konur borða.
Á meðan Sigrún naut tertunnar, laumuðu tveir karlmenn sér að mér, líklega þeir reyndustu í bransanum og lögðu bækling á borðið við hliðina á mér. Spurðu svo hvort ég ætti erfitt með að komast að heiman. Og sögðu mér að ég væri alltaf hjartanlega velkomin, á sama hvaða stigi ég væri. Ég fann fyrir hjartagæskunni og samkenndinni þarna inni, á því lék engin vafi og hef ég reyndar aldrei verið í neinum vafa um það, þegar þessi samtök eiga í hlut.
En mér fannst ég ekki eiga heima þarna.
Þegar ég loks slapp út, með bullandi samviskubit yfir að hafa verið þarna undir fölsku flaggi, gat ég samt loksins andað léttar. Á leiðinni heim fórum við Sigrún aðeins að kryfja þennan atburð. Ég benti henni á muninn á okkur og þeim, við miklu miklu yngri og af allt öðru sauðahúsi en þau. Ekki af betra sauðahúsi né verra, bara öðruvísi. Ég benti henni á að ég hefði litið út eins og hálfviti, með tússaðar svartar augabrúnir því ég hafði verið í augabrúnahúðflúri fyrr um daginn. Vegna þess að ég missi ekki bara hárið, heldur líka „andlitið“ og þar sem ég er afleitur teiknari og alls enginn listmálari, treysti ég mér ekki til þess að hefja hvern einasta dag í marga mánuði, kannski ár, á því að teikna á mig augabrúnir. Ég meina, skriftin mín skilst ekki eftir sjöunda orð. Sigrún fór að hlæja og sagði: „ekki nóg með að þú sért með svartússaðar augabrúnir, heldur ertu líka með hárkollu!!! Það vantaði bara að þú hefðir límt á þig yfirvaraskegg!“
Þarna bilaðist ég úr hlátri.
Þarna má sjá hluta af dulargervinu, þ.e.a.s. hárkolluna.
(Þessi færsla er fyrir birtingu, lesin yfir, ritskoðuð og samþykkt af Sigrúnu.)
Þú ert æði. Færð mig til að hugsa og hlæja.
Knús og kram.
<3 Takk fyrir frábær skilaboð Hanna Dóra 🙂
Magnaðar. Knús elsku Dagný
Knús til baka mín kæra <3
haha – nú hló ég upphátt. Þið eruð báðar æði 🙂
Þú þekkir hana Sigrúnu og því ætti þetta ekki að koma þér á óvart 😉
Snillinga vinkonur!!!
Snillinga systir sem þú átt Hjördís 😉
Þú ert æðisleg frænka takk fyrir þessar færslur
Dásamleg skrif…ég hló upphátt.
Gangi þér vel elsku Dagný.
Kærleiks og batakveðja
Evs