Hlutverkið

Í fyrradag gengum við Fúsi og Vaskur eftir ströndinni og mér datt í hug nýtt áhugamál – eða iðja; að safna steinum með gati. Á þessum örstutta göngutúr fann ég ekki einn einasta stein með gati. Ég varð að vonum hundsvekkt. Þetta er enn eitt af því sem ekki gengur upp þessa dagana, vikurnar, mánuðina. Nú eru liðnir tveir mánuðir frá því að ég breyttist í sjúkling. En þá leit ég ekki á mig sem sjúkling. En nú er ég sjúklingur. Ég heiti Dagný og ég er sjúklingur. Ég er með sjúkdóm og þarf á sjúkrahúsum að halda. Þetta er hlutverk sem ég valdi mér ekki sjálf og skrítið að þurfa að sætta mig við. Mér sem hefur alltaf fundist gaman að bregða mér í hlutverk, þó þau væru ekki stór. Bara t.d. í félagsskap Pink Ladies eða á snappinu. En þetta er nýja hlutverk mitt er á engan hátt skemmtilegt né ánægjulegt. Það er erfitt og því fylgir alveg heilans hellings vinna. Ég er oft eftir á í þessu sjúklingahlutverki. Það er svo viðamikið og flókið að ég hleyp sífellt við fót. Dregst bara aftur úr en geri samt mitt allra besta til að vera með. Ég tvíbókaði mig til dæmis á mánudaginn sem kemur. Allt í einu sá ég í morgun að ég á bæði að vera á Aabenraa sjúkrahúsi og hjá hárkollukonunni kl. 09:30. Stundum velti ég því fyrir mér hvaða karma sé að glefsa í rassinn á mér. Hvurnig í ósköpunum ég hafi eiginlega hagað mér í fyrra lífi til að þurfa að standa í þessu núna.

Svæðið mitt á netinu (e-box) þar sem allt frá því opinbera kemur, er rauðglóandi af bréfum, tilkynningum og tímum í hitt og þetta.

Þegar bréfið um tíma í lyfjameðferð kom, brá mér íllilega í brún. Ég var engan veginn tilbúin. Ég hélt að það væri innan fjögurra vikna frá síðustu aðgerð… Einhvern veginn hafði ég ekki heyrt rétt eða ekki meðtekið eða vonast ómeðvitað eftir meiri tíma, enda var heilinn í mér á yfirsnúningi á tímabili og réði takmarkað við meira – og er kannski enn. En auðvitað er það innan fjögurra vikna frá því að krabbameinið finnst. Auðvitað. Samt var ég svo ótilbúin. Bæði líkamlega og andlega. En það þýddi ekkert annað en að bíta á jaxlinn, það væri mér og lífslíkum mínum fyrir bestu að byrja strax sögðu þeir, sama þótt líkaminn væri í henglum. Ég byrjaði 28. júní.

Mér líður stundum eins og kolkrabba með átján arma og það er togað í þá alla úr öllum áttum. Í allt fæ ég bréf og tíma í hitt og þetta frá sjö mismunandi deildum á þremur mismunandi sjúkrahúsum. Ég sá að eitt var þó bull og hringdi og slaufaði því sambandi. Nú eru það bara sex deildir. Bæjarfélagið hringdi í mig til að láta vita að það sé til staðar ef eitthvað er og vill fá mig í viðtal þegar ég verð hressari, til að segja mér hvað er í boði fyrir fólk eins og mig hjá þeim. Heimilislæknirinn vill sjá mig og tala við mig sem fyrst. Hún vill örugglega senda mig til sálfræðings til að fyrirbyggja þunglyndi. Hún er pottþétt ekki að fara að skoða á mér magann, sem á meðan ég man, lítur út eins og brot af Austurlandi. Efst til vinstri trónir Snæfellið. Út frá því eru tvær heiðar og á eða fljót á milli heiðanna. Það fer eftir því hvoru megin við Fljótsdalsheiðina maður er. Uppi á heiðunum eru tóftir eða þústir gamalla heiðarbýla. Það er líka ágætlega stórt vatn innan um heiðarbýlin. Hengifoss er þarna líka, svo líklega er þetta fljót í staðinn fyrir á, á milli heiðanna. Þ.e.a.s. ef maginn minn á að vera nokkurn veginn landfræðilega réttur. En þetta myndi heimilislæknirinn ekki skilja. Né sálfræðingur ef út í það er farið. Og til að hafa það á hreinu, þá er þetta myndlíking, það er ekki rennandi fljót á maganum á mér. Hann er tiltölulega þurr. Sjúkraþjálfarinn hjá bæjarfélaginu er byrjaður með mig í endurhæfingu. Í ágúst skipti ég yfir í sjúkraþjálfara uppi á sjúkrahúsi. Af því að þá ætti ég að vera orðin sterkari. Bæjarfélagssjúkraþjálfarinn kenndi mér þrjár hlægilega léttar æfingar. Og ég má bara gera þrjár endurtekningar af hverri þeirra. Hljómar það ekki klikkað létt? Ég sem sá auglýsingu í maí um Crossfit fyrir konur sem væru nýbúnar að fæða barn og hugsaði að kannski gæti ég verið með í þeim hópi seinna í sumar… Ég þarf að fara til tannlæknis til að láta gera status. Heimahjúkruninn vill ekki sleppa mér alveg. Ég þarf að fara til hárkollukonunnar. Ég er sífellt í símanum, annað hvort er hringt frá stofnun eða ég hringi í stofnun. Eins og mér leiðist að tala í síma. Ég geri gamla vinnufélaga og eldgamla vinnufélaga að „pusher-um“ á sjúkrahúsdeildunum á sjúkrahúsinu hérna í bænum. Þeir skaffa mér nánast allt sem hugurinn girnist. Nema própófól og annað slógvandi.

Ég veit að þetta er ekki skemmtileg færsla og síður en svo full af húmor og glensi. Þið hrósuðu mér fyrir hreinskilni og opinskáleika í sambandi við tvær síðustu færslur. Ég þakka fyrir það, en kannast ekki við að hafa verið opin, ekki eins og ég vildi. Ég stiklaði bara á stóru. Skautaði yfir.

Sigrarnir hafa verið alltof fáir og alltof sjaldan hafa borist góðar fréttir. Síðast þegar ég fékk góða frétt, var í maí eftir jáeindaskannann, segulómskannann og sneiðmyndatökuna; að æxlið væri bara í kviðarholinu, hvergi annarsstaðar. Síðan þá fæ ég hamar í hausinn hvað eftir annað, mismunandi fast en alveg nógu fast. Á öllum tímum sólarhringsins. Stundum veit ég ekki hvort mér sé smá óglatt út af lyfjameðferðinni eða út af aðstæðunum. Hallast að því síðarnefnda. Stundum langar mig bara til að fara út í skóg, standa á hæðsta kantinum í skógarjaðrinum sem snýr að sjónum og gubba öllu þessu sjitti út í sjó.

Ég hef þó einu sinni upplifað stóran sigur í öllu þessu ferli og verið verulega stollt af sjálfri mér, eitthvað sem ég lifði á í nokkra daga. Það var tveimur nóttum eftir síðustu aðgerðina, sem sagt eftir seinni bráðaaðgerðina. Ég lá enn ein á stofu og hitinn úti var óbærilegur. Glugginn var opinn, sem og hurðin fram á gang – í von um trekk. Ég límdist að venju föst við vatnshelda dýnuna í rúminu, líklega á bullandi breytingarskeiði og ekki byrjuð á hormónum. Þessa nótt kom loksins vindur og þá byrjaði að hrikta í króknum á glugganum. Ég gat náttúrulega ekki sofið fyrir þessum látum. Um miðja nótt losaði ég mig frá rúminu, fyrst vinstra megin, síðan hægra megin og stóð upp. Þessa nótt var ég með í allt fimm hluti af einhverju tagi tengda við mig. Ég leit í kringum mig og kom auga á pakka af grisjum. Tók tvær og boraði þeim ofan í sitthvora lykkjuna og setti svo krókinn aftur í. Eftir þetta hrikti ekki í neinu. Ég upplifði mig sem snilling. Sjálfbjarga snilling.

 

 

29 Responses to “Hlutverkið

  • Margrét
    6 ár ago

    Mikið varð ég fegin að sjá pistilinn þinn. Þetta var nú ekki neinn gleðilestur. En engu að síður gleðilegt að fá fréttir af þér. Get ekki annað en hugsað hlýtt til ykkar og vona að eftirleikurinn verði ykkur auðveldari. Kærar kveðjur ???

    • Stefán Stefánsson
      6 ár ago

      Takk fyrir okkur að lofa okkur fylgjast með megi ykkur ganga sem best elsku frænka ps það er eðlilegt að missa minnið og gleyma hlutum en það kemur aftur það er ekki pláss fyrir allt núna, ég er búinn að prófa það.

    • Stundum „sökkar“ lífið, en sem betur fer er það oftar skemmtilegt 😉
      Kær kveðja til þín og þinna.

  • Sigþrúður
    6 ár ago

    Gangi þér vel Dagný mín. Það er nú stutt í húmorinn hjá þér þrátt fyrir þetta allt:) kveðja frá okkur hér á bæ.

  • Þu ert ein af þeim sem brosir i gegnum tárin. Þeþratt fyrir föllin reisiru þig við. Og það góða við okkur mannfólkið er að við gefumst ekki upp þó á móti blási. Við berjumst og finnum lausnir og förum þà vegi sem eru okkur færir og smátt og smátt stækka og greiðfarast aðrir vegir. Knuzzz og haltu áfram að vera þu. Lifðu með sjukdómnum en ekki bakvið hann. Þá tekur hann (sjukdomurinn yfirhöndina) notaðu hverja stund fyri að brosa og kikja frammávið þvi það græjar flest ????

  • Þu ert ein af þeim sem brosir i gegnum tárin. Þeþratt fyrir föllin reisiru þig við. Og það góða við okkur mannfólkið er að við gefumst ekki upp þó á móti blási. Við berjumst og finnum lausnir og förum þà vegi sem eru okkur færir og smátt og smátt stækka og greiðfarast aðrir vegir. Knuzzz og haltu áfram að vera þu. Lifðu með sjukdómnum en ekki bakvið hann. Þá tekur hann (sjukdomurinn yfirhöndina) notaðu hverja stund fyri að brosa og kikja frammávið þvi það græjar flest ????

  • Þú ert dásamleg og trúi ekki öðru en að Lífið og framtíðin verði þer dásamleg þú átt það skilið. Baráttukveðjur til þín elsku frænka mín

  • Jónína Rós
    6 ár ago

    Vel skrifað – gangi þér vel með þetta flókna verkefni ?

  • Guðrún Margrét Jónsdóttir
    6 ár ago

    Akkúrat

  • Alda Áskelsdóttir
    6 ár ago

    Gangi þér sem allra, allra best í þessu erfiða verkefni elsku Dagný mín <3

  • Er hér á tjaldsvæðinu i Atlavík og sendi þér góða austfirska orku þú vinnur báðum þetta hindrunarhlaup

  • Sigríður Ragna
    6 ár ago

    Gangi þér vel?

  • Elsku Dagný mín. Takk fyrir mig, þú kemur þessu svo vel frá þér, niður á blaðið sem berst til mín og annarra. Það er satt að þetta er hundleiðinlegt verkefni, sem klárast á endanum þó þér líði ekki þannig núna. ? Og þú munt standa uppi sem sigurvegari…. annað er aldrei í boði. Haltu áfram að leita að steinum með gati eða einhverju öðru sem dreifir huganum og leyfðu fólkinu þínu að halda utan um þig. Knús til ykkar ??

  • Haha setti inn hjörtu og sól og það breytist í ? og.

  • Hjalti Stefansson
    6 ár ago

    Úfff, hriklega erfið spor og líklega ekkert annað í stöðunni en berast

  • Elsku frænka, þú ert hörkukvendi og ég sendi þér/ ykkur baráttukveðjur og KÆMPE KÆMPE KNUS???

  • Oooo ?? Á að vera hjarta og knúskall. Mamma biður kærlega að heilsa.

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *