Sprettuhnífur til margs.
Jæja, fyrst ég er búin að útvarpa aðstæðum mínum fyrir alþjóð, þá get ég alveg eins haldið áfram að leyfa ykkur að fylgjast með hvernig mér svo gengur í aðstæðunum þessa dagana.
En fyrst vil ég þakka allar góðar kveðjur sem hafa borist og ekki síst gjafirnar. Ekki slæmt, ekki slæmt. Á sama tíma vil ég endurtaka og árétta að sama hvað kemur út úr komandi aðgerð, segja þeir að horfurnar séu feikilega góðar eins og ég skrifaði í tilkynningafærslunni. Ég sjálf er í góðum gír og einu áhyggjurnar sem ég hef eru, að ef þetta fer á verri veginn, hvort ég púlli að vera hárlaus. Og það mega nú teljast hégómalegar áhyggjur. Og líka hvort það sé eitthvað andskotans áfengisbann á meðan á lyfjameðferð stendur. Og aftur, það er alls ekki víst að ég þurfi að fara í lyfjameðferð. Alls ekki. Jú og svo verð ég pínu spæld ef ég missi af mörgum partýum í júní. Ég elska sumarpartý. Nei, ég elska öll partý.
Í gær fórum við Fúsi og Vaskur í göngutúr rétt fyrir kvöldmat og kíktum á kindur, lömb og geldneyti. Það var ánægjulegt en undrandi vorum við á afturenda kindannna. Þær voru flest allar með drullu. Ekki veit ég afhverju. Geldneytin voru hrifin af Vaski og Vaskur taldi sig einn af þeim, í það minnsta að stærð og vöðvastyrk. Engin vafi þar á.
Í morgun fórum við í skóginn. Þessa dagana þarf að velja tíma göngutúranna vel og vandlega. Upp úr hádegi og frameftir degi er ekki hundi út sigandi vegna veðurblíðu. Í skóginum í morgun sáum við það stóran snák að Vaskur hætti snarlega við að elta hann. Að öllu jöfnu eltir hann snákana, froskana og mýsnar. En þessi í morgun var hátt í meter að lengt og hárreistur. Vaskur lét hann óáreittan. Í fyrradag sáu Fúsi og Vaskur rádýr með lítinn kálf á stærð við kött. Við vissum ekki að rádýrskálfarnir væru svona litlir en svo gúgglaði ég og þeir eru víst bara 1-1,7kg við fæðingu.
Þegar ég kom heim, fór ég eitthvað að pæla í saumunum á maganum á mér. Síðasta aðgerð var speglun og því fimm göt sem höfðu verið saumuð saman. Hmmm… ef ég mundi rétt frá því ég var á þvagfæraskurðlækningadeildinni í denn, vorum við að segja fólki að láta taka saumana eftir 10 daga. Eða var það styttra? Ég bara man það ekki. Allavega, ég var á 12. degi í dag og fannst vera komin tími til að taka þá. En ég átti ekki hníf eins og við erum vön að nota á sjúkrahúsinu. Og ég nennti ómögulega upp á Gjörið til að sækja einn. Þá var að finna eitthvað hérna heima fyrir sem gat brúkast og datt mér fljótlega í hug sprettuhnífurinn minn sem er minnst 25 ára gamall.
Það fylgir mynd sem fengin er af netinu, fyrir þau fjölmörgu sem aldrei hafa séð slíkt verkfæri áður.
En þá kom babb í bátinn. Allt sem tengist saumadótinu mínu er geymt uppi í herberginu hennar Aldísar sem flutti að heiman fyrir fjöldamörgum árum og þar svaf ungur maður í nótt og fram undir hádegi. Einhver sem tengdasonurinn hafði boðið gistingu tvær nætur í röð. Mér finnst það sallagóð tilfinning þegar tengdasyninum líður svo mikið eins og heima hjá sér hjá okkur að hann hikar ekki við að taka næturgesti með sér heim af djamminu. En ég hafði aldrei séð manninn áður og gat því ekki leyft mér að fara inn og sækja sprettuhnífinn. Ég varð því að bíða eftir að Hvítasunnudjammarinn vaknaði.
Loksins…
En ég sem heilbrigðiskerfisstarfsmaður myndi seint fara með 25 ára gömul óhreinindi í skurðsár þó gróin séu, svo ég setti vatn í pott og fann mér steikartöng. Sauð vatnið og hélt um sprettuhnífinn með tönginni, dýfði hnífnum ofan í og sauð í dágóða stund.
Síðan fjarlægði ég saumana einn af öðrum með mjög góðum árangri. Eins og hægt er að sjá fram eftir degi á morgun á Instastory undir Alrun75 eða hér.
Þá vitiði það. Sprettuhnífur er mjög góður hnífur til að fjarlæga sauma úr fólki og líklega dýrum líka.
[…] Sprettuhnífur til margs. […]