11. maí 2018 – Lífið er lykkjufall
Ég vakti Fúsa klukkan hálf fimm í morgun og bað hann um að taka af mér sængina. Báðar hendurnar á mér voru rennandi, sem og toppurinn sem ég var í og lakið. Það hafði blætt aftur. Ég skipti um umbúðir og fór aftur að sofa.
Þegar ég fór á fætur hringdi ég upp á sjúkrahús og talaði við lækni á deildinni. Útskýrði hver ég væri og hvað málið væri. „Já ég er búin að heyra um þig“ svaraði hún. Frábært, er ég nú orðið sorglega tilfellið í vikunni innan sviðsins á litla „fjórðungs“ sjúkrahúsinu í Aabenraa? Þetta sem kom öllum á óvart – unga, hrausta og 100% heilbrigða konan sem átti bara að fjarlægja legið úr. En á hinn bóginn, ég hef alltaf verið gefin fyrir athygli og ekki er verra ef örlítil frægð fylgir. Neita því ekki.
Ég útskýrði fyrir lækninum hvað hefði gerst og hvað ég hafði gert. Spurði svo hvort ég ætti bara að halda áfram að útbúa þjöppunarsáraumbúðir? „Hey, þótt þú sért hjúkka, áttu ekki að þurfa að vesenast með þetta sjálf. Farðu til heimilislæknisins þíns…“
Ég fór til læknis. Hún bað mig um að vera vakandi fyrir hita, svima og ilius eða þarmalömum eins og ég gúgglaði mig fram til að héti á íslensku. Fokking alvarlegt vesen það skal ég segja ykkur. Lét mig svo hafa fleiri plástra og skiptingargræjur til að spjara mig um helgina. Var einnig í beinu sambandi við lækninn uppi á sjúkrahúsi sem gaf mér tíma á mánudaginn.
Þegar ég kom heim, biðu mín tvær vinkonur, lakkrís af bestu gerð, súkkulaði, blóm og spjall um allt múlígt. Svo gott, svo gott.
Seinna um daginn var ég orðin þreytt og lá á nýja sólbekknum mínum, sem að Fúsi hafði farið og keypt handa mér í tilefni aðstæðna og hlustaði á nýja playlistann minn og spólaði hratt yfir öll jákvæðnislög. Ég elska tónlist en get ekki státað af að vera skynsöm varðandi tónlistarval þegar á reynir. Reyndar, á hinn bóginn, fer hressandi stuðtónlist í taugarnar á mér ef ég er ekki í stuði og ekki tilbúin til að fara í stuð. Svo kannski er þetta eðlilegt tónlistarval?
Þarna sem ég lá og horfði upp í himininn og á fallega strúkturinn í laufunum á Gingó Bílópa trénu okkar með tárin í augunum og lét hugmyndarflugið algerlega hlaupa með mig í gönur, sveimaði mávur yfir mér. Hann sveimaði í mikilli hæð, minnst tugi metra hæð. Og til að auka á vanlíðan mína, fór ég að velta því fyrir mér hverjar líkurnar væru á að hann dritaði og að það myndi hitta mig. Þvílíkt fall og skellur sem það yrði. Oj. Ég hefði rakleiðis haft samband við einhvern einhversstaðar í heilbrigðiskerfinu og heimtað própófól. Til að sofa bara allt frá mér. En mávurinn hélt í sér og fór annað. Til allrar hamingju.
Í dag eru sjö dagar – sem jafngilda 700 dögum – í viðtalið. Og þolinmóð verð ég að þreyja, það dugar sízt að láta kjarkinn deyja.
En þarna sem ég lá, fannst mér lífið bara vera lykkjufall. En minnti sjálfa mig fljótlega á hversu oft ég hef misst niður lykkju í mínum prjónaskap og alltaf getað lagað, enda á ég enga götóttar heimaprjónaðar flíkur.
Ef mér batnar, eins og ég veit,
Og ég kemst um blómareit.
Lífið draumur ávallt er,
Sem eilífðinni fljótt að ber.
Jú jú og nei nei, það ætti ekki að koma nokkurri sálu á óvart að ég skuli hlusta á svona texta á þessum verstu tímum. Annars er þetta brot úr ljóði eftir Evu heitina frænku.