10. maí 2018 – Kjökurlyndið
Naflinn var til friðs í allan gær eftir saumaskapinn í Aabenraa en í morgun blæddi aftur. Við erum ekki að tala um lítinn blóðvökva á plástri, heldur fleiri tugi millilítra. Og hófst því dagurinn á skiptingu. Ég nennti ómögulega að keyra til Aabenraa aftur en þangað eru 45 km og útbjó ég því kompressjón eða þjöppunarumbúðir úr því sem ég átti, límdi vel yfir og fór í buxur með góðri teygju sem áttu að gera sitt gagn. Naflinn róaðist. Það var líka orðið sáralítið eftir af lofti í líkamanum sem þýddi betri líkamleg líðan.
Uppstigningardagur. Allt svo rólegt. Svala með vinum. Fúsi eitthvað að brasa. Betri líkamleg líðan – fókusinn flyst. Skyndilega varð ég kjökurlynd. Bara svona á meðan ég var að tannbursta mig. Við fórum í göngutúr, afar hægan því þótt ég sé ekki þjökuð, er ég hæg. Lagðist í sófann við heimkomu og hlustaði á tónlist. Kjökurlyndið jókst. Var búin að mæla mér mót við fyrrverandi samstarfskonu á Gjörinu uppi á Gjöri því hún vildi gefa mér sáraumbúðir þar sem ég var orðin uppiskroppa og apótekið lokað. Ég reif mig því á fætur aftur til að fara í gömlu vinnuna mína. Um leið og ég steig inn á sjúkrahúsið (hérna í Sönderborg) fór ég að skæla. Ég skældi alla leið eftir ganginum í átt að Gjörinu og stóð síðan inn á kaffistofunni og var spurð af tilfallandi starfsmanni hvað væri að? „Mig vantar plástur“ stundi ég upp úr mér á milli grátkviðanna. „Ha, vantar þig plástur?“ „Já, Lukka ætlar að gefa mér plástur, sæktu Lukku.“ Það var hlaupið til, til að sækja plástur og Lukku. Aumingja fyrrverandi samstarfsfólk mitt, það sem ég legg ekki á þau. Akkúrat núna sakna ég þeirra gríðarlega. Þegar á reynir. Ætli það sé ekki svoleiðis stundum.
Í kvöld var annar þáttur af Eurovision. Ég horfi eiginlega alltaf, allavega ef ég er ekki að gera neitt annað. Í kvöld entist ég ekki yfir þessu og fór að búa til nýjan playlista á Spotify. Bara með konum.
Ég skírði hann Konur syngja og inn á hann komust allt frá Édith Piaf og Carla Bruni, til amerískra vinkvenna Cohens, til skólasystur minnar og meira að segja slæddist Borgfirðingur með. Að sjálfsögðu Borgfirðingur Eystri. Ég er nokkuð ánægð með þennan lista. Þarna eru ungar og gamlar, svartar, hvítar og rauðhærðar, íslenskar og útlenskar. Og hressleikinn er á skala 1-10.
Uppstigningardagurinn er dagurinn þar sem kjökurlyndið hefur ráðið ríkjum á heimilinu.