8. maí 2018 – Allt verður í allrabesta lagi.
Ég mætti upp á sjúkrahúsið í Aabenraa í gær kl 7.10 til að fara í aðgerð. Ósköp einfalda og þannig séð, saklausa aðgerð; legnám. Vegna saklauss kvilla.
Mér var vísað inn á einkastofu með flottu baðherbergi og sjónvarpi. Þetta dásamaði ég í hástert. Því ég hafði búið mig undir að liggja með háaldraðri og nánast dauðvona konu á stofu. Bara af því að svoleiðis er/var það oft.
Rétt fyrir átta var ég sótt og mér keyrt inn á skurðstofu þar sem allir voru í óðaönn að undibúa allt – spes fyrir mig. Allir í voðalega góðu skapi og ég líka. Þannig séð, ég átti bara eftir að græja eitt og það var; hver átti að taka á móti mér á vöknun, eða réttara sagt, hver átti ekki að taka á móti mér. Ég var búin að tryggja mér svæfingarlæknana fyrir löngu síðan, svæfingarhjúkrunarfræðingunum hafði ég enga skoðun á sem og skurðhjúkrunarfræðingunum. Yfir skurðlæknunum hafði ég algert kontról. Ég græjaði vöknunarhjúkrunarfræðinginn á svip stundu, hef eflaust virkað frek og stjórnsöm en hvað með það. Til að kóróna stjórnsemina, bað ég þær í guðana bænum um að gæta engrar hófsemi í svæfingarlyfjunum. „Gefið mér bara helling… af öllu!“ Þær lofuðu því.
Skurðlæknirinn kom síðan og bauð mér góðan daginn, á meðan skurðhjúkrunarfræðingarnir settu mig í stellingar og skorðuðu mig af. Hann spurði hvort ég væri reddý og lét eins og þessi aðgerð væri bara sneið af köku. Ég sagði já og það er eins gott að ég endi ekki á Gjörinu eins og Legnámið föstudeginum áður. Það legnám endaði nefnilega á Gjörinu og ég var að vinna þar þá.
– „Sénsinn bensinn, þú ert allt annað dæmi. Pís off keik, pís off keik.“
Ég hélt áfram að fylgjast með og allir voru duglegir að segja mér í smáatriðum hvað væri að gerast. Af því að ég var ein af þeim, sem sagt „indenfor systemet.“
„Vá hvað þetta er súrrealístiskt að liggja hérna“ stundi ég upp, allsendis óvön að vera þiggjandi í þessu húsi. Þau samsinntu því.
Þegar augnlokinn þyngdust, reyndi ég að hrópa: „Munið mikið própófól…. (sem er uppáhalds svæfingarlyfið mitt.)“ Ég held að það hafi ekki komið neitt hljóð. En ég svaf svooo vel. Þegar ég vaknaði, reyndi ég að segja þeim það og þakka fyrir stóra skammta en það heyrði engin í mér held ég.
Mér var keyrt yfir á vöknun og ég heyrði að klukkan var orðin 12. Ég hafði verið á skurðstofunni í 4 tíma. Með höfuðið niður í 30 gráðum. Ég hlaut að vera eins og bolti í framan. Ég fann lítið til, sem voru viss vonbrigði því ég hafði hlakkað til að fá oxynorm (verkjalyf). Ég fékk bara einu sinni oxynorm og bara lítinn skammt. Djöfss hörkutól hlaut ég að vera… nýbúin í 4 tíma legnámi og þurfti ekki verkjalyf. Eftir rétt rúmlega klukkutíma var mér keyrt yfir á deild því ég var svo stöðug, verkjalaus og bara svo frábær að öllu leyti. Ég hlaut að vera einsdæmi hugsaði ég með mér. Enn svolítið lyfjuð en samt, nokkuð skýr að mér fannst.
Og sannfæring mín um að allt væri eins og það ætti að vera var svo sterk að ég spurði einskins. Ég pantaði mér ferska ávexti, ís og vatn.
Síðan kom læknirinn svolítið seinna. Hann settist í gluggakistuna. Ekki á stólinn við hliðina á rúminu því hann er ekki prestur. Læknar setjast oft upp á borð eða í gluggakistur ef þeir þurfa að segja eitthvað mikilvægt. Ef þeir eru bara með venjuleg skilaboð um að allt hefði gengið að óskum, standa þeir oftast. Eyða ekki dýrmætum tíma sínum í góð skilaboð. Ég sá strax á honum að hann ætlaði að segja eitthvað mikilvægt. Hann byrjaði að útskýra aðgerðina og þetta sem hann sagði, fór til skiptis eins og ljósmyndir eða bíómynd í gegnum hausinn á mér og út vinstra megin og staðnæmdist þar. Hann var ekki að tala um magann í mér. Allt sem hann sagði var vinstra megin við mig. Ekkert virtist tengt mér sjálfri. Hann var ekki að tala um mig. Stundum voru ljósmyndirnar eins og slide show á ógnarhraða. Stundum voru myndskeið í slow motion. Ég þurfti að fá mér vatnssopa. Nú skil ég afhverju fólk þarf stundum að fá sér vatnssopa þegar annað fólk talar við það. Á augabragði þornar maður upp eins og agnarsmá lind sem úlfaldar lepja síðustu dropana upp úr í steikjandi sól í eyðimörk.
Hann talaði og talaði og sagði meðal annars: „Opnuðum – óvæntur fundur – verulega óvæntur – blómkál – beiðni – ferli – til Odense – onkologisk (krabbameinssvið) – MR (segulómskanni) – PET/CT (Jáeinda og tölvusneiðmyndataka) – allskonar – allskonar – mjög skrítið – gerðum ekkert nema senda frosið sýni – lokuðum – þykir það verulega leitt – gangi þér vel – kær kveðja“ og síðan kreysti hann á mér öxlina.
Hann fór og ég fór að skæla. En samt skildi ég eiginlega ekki neitt. Slide showið við hliðina á mér, vinstra megin við mig, hélt áfram. Ég hárlaus í hjólastól, ég eldspræk í ferðalagi, ég í kistu – fyrir jól.
Ég sem lagðist inn; 42ja ára kona, áður hundraðprósent heilbrigð eða eins og maður skrifar í skýrslurnar í Danmörku; 42 årig kvinde, tidligere sund og rask.
(Ekki man ég nákvæmlega afhverju ég tók þessa mynd, líklega hefur hún átt að notast í færslu um endurnýtingu á fötum… Vaskur er hundafyrirsæta en til að taka af allan vafa, þá er hann líka varðhundur sem ver garðinn sinn.)
Kvöldvaktin mætti á staðinn, hjúkrunarfræðingur sem ég hef þekkt síðan nákvæmlega vorið 2005. Henni tókst að koma vitinu fyrir mig tímabundið og reka mig upp í rúm að sofa, um miðjan dag. Sagði að ég hefði ekkert heim að gera akkúrat þarna. Ég spurði hana hvort ég mætti fá própófól. Það mátti ég ekki en samt sofnaði ég.
Fúsi kom til mín og inn um opinn gluggann barst sár kornabarnagrátur. Ég man að ég hugsaði; bara ég hefði verið að fæða barn og þyrfti að hugga það. Leggja það á brjóst eins og ég var svo góð í fyrir rúmlega 20 árum.
Seinna um kvöldið fór ég heim, með líkamann fullan af lofti (eftir aðgerðina) og í joðlituðum netanaríum. Enn með legið mitt inn í mér.
Það kemur líklega fáum á óvart hver hljómaði í bílnum á leiðinni heim. Því er þetta lag dagsins.