Sullustelpa alias Arnfríður Ólafsdóttir.
Mig grunar að færslur um sambýlinga mína í Noregi séu orðnar nokkrar talsins án þess að ég sé þó að telja. Enda vel ég að skrifa um það sem mig langar til að skrifa um, áháð því hvort það séu endurtekningar eða skylt efni. Hver ætti annars að vera spá í því, nema mögulega ég sjálf.
Hér kemur sem sagt enn ein færslan um sambýli mitt við fólk af ókunnugum toga. Reyndar er þetta eftirfylgni af annarri færslu síðan í haust. En til upprifjunar má lesa hana hér. Þetta var færslan um konuna sem kallaði sjálfa sig Sullustelpu (það segir nú ekki lítið um manngerðina) og ég átti í mesta barsli með að búa með. Konan sem þvingaði mig til að drekka Somersby.
Alltaf þegar ég rifja upp þessa kvöldstund með Sullustelpu, dettur mér í hug stuttmyndin góða; „Fáðu já“ sem var gerð um árið og sérstaklega atriðið þar sem stelpan þvingar kærasta sinn til að borða hamborgara. Þó svo að samanburðurinn sé ýktur, ég veit það.
Allavega, á föstudaginn lenti ég í Stavanger og kom mér fyrir í íbúðinni sem fyrirtækið á. Í henni eru þrjú herbergi. Fyrir í íbúðinni var hvolpakona – en tíkin hennar hafði nýverið eignast átta hvolpa og konan gerði lítið annað en að sýna mér myndbönd af þeim… Við heilsuðumst og ég horfði á þessi forbandede myndbönd lon og don. Nei, nú er ég að ýkja, ég þurfti að horfa á slatta, síðan fórum við að sofa til að vera tilbúnar á næturvakt. Í þriðja herberginu var líka einhver en við vissum ekki hver.
Á deildinni varð mér litið á vaktarplanið fyrir helgina og sá mér til mikillar hrellingar að Sullustelpa stóð þarna skýrum stöfum. Mér rann kalt vatn á milli skins og hörunds. Til að vera viss, feisbúkkaði ég hana og mikið rétt, þetta var hún. Sullustelpa bjó í þriðja herberginu.
Ég eyddi mikilli orku og tíma á næturvaktinni í að búa til tæklunarplan. Hvort ég ætti að tækla hana á manneskjulegan- og fullorðinslegan hátt eða fara einföldu leiðina og eitra fyrir henni. Þá er ég ekki beinlínis að tala um að kála henni, heldur setja nokkra dropa eða réttara sagt; marga millilítra af vatnslosandi lyfi út í kaffið hennar. Þá myndi hún bara sitja á föst á klóinu og ég laus allra mála.
Um morguninn fóru hvolpakonan og ég heim í íbúðina og beint í rúmið, þó ekki í sama rúm, nei Guð hjálpi mér. Báðar vorum við á kvöldvakt seinna um daginn. Ég vaknaði grútmygluð og þreytt eftir alltof stuttan svefn og þar sem ég stóð í eldhúsinu, vel utan við mig, kom ókunnug kona. Og mér varð svo bylt við að ég spurði: „Hver ert þú?“. Í staðinn fyrir að rétta henni höndina og kynna mig. Þetta gat ekki verið nein önnur en þriðji íbúinn.
„Arnfríður Ólafsdóttir heiti ég“ svaraði konan. Nafnið Arnfríður Ólafsdóttir er að sjálfsögðu uppspuni en mér fannst það komast næst danska nafninu hennar Sullustelpu og þessarar konu. Þær heita sem sagt sama nafninu, eins og algengt er með Dani.
„Ha í alvöru? Ég hélt sko að… bla bla bla“ ég bullaði bara eitthvað. Líklega ekki í fyrsta skipti.
Konan hefur ábyggilega haldið að ég væri hasshaus.
En mér tókst að lokum að útskýra fyrir henni að ég hafði búist við að sjá allt aðra manneskju út frá nafninu og okkur kom svo alveg prýðilega saman. Þvílíkur léttir.
Síðan í gærkvöldi var ég aftur á kvöldvakt og hitti enn einn afleysingahjúkrunarfræðinginn. Já við erum mörg á deildunum í Noregi. Um helgina vorum við fjórar á Gjörinu og það eru oft fleiri í einu. Þessi sem ég hitti í gær sagði: „Þig hef ég hitt áður einhverntímann… bíddu nú við…látum okkur nú sjá… leyfðu mér að hugsa… Jú þú ert sú sem bjóst með Arnfríði Ólafsdóttur í haust… Sú sem hún þvingaði til að drekka með sér Somersby“ Jú mikið rétt, ég er hún… Somersbyfórnarlambið.
Hún bjó líka í íbúðinni í haust, kom seinni hlutann af dvölinni minni og þekkir aðeins til Arnfríðar Ólafsdóttur í gegnum freelance lífið. Og hún þekki ekki til Sullustelpunafnsins. Við höfðum aðeins talað um hana og þessar áskoranir sem fylgja henni og ég hafði tjáði henni hversu mikið mig hryllir við sykursulli eins og Somersby.
Við urðum svo samferða heim í gærkvöldi, hún býr í íbúðinni sem að fyrirtækið leigir hérna í Stavanger.
Hún hélt áfram: „Veistu, eftir þessa frásögn þína í haust, þá datt mér í hug að smakka þetta Somersby þegar ég beið á flugvellinum á leiðinni heim.“
Ég: „Ha, keyptirðu þér Somersby á flugvellinum…???“
Hún: „Já, sólin skein og það var svo heitt. Þetta gat varla verið svona slæmt eins og þú lýstir. Það hlaut að vera eitthvað svalandi við þetta.“
Ég: „Og?“ Var orðin frekar spennt að heyra hennar álit.
Hún: „Guð minn góður, þetta var hreinasta eitur eins og þú sagðir. Mér varð strax flökurt þarna á barnum og síðan var ég eiginlega flugveik! Allur þessi sykur og bobblur.“
Ég (sigri hrósandi): „Ég sagði þér þetta…“
Hún: „Já ég ældi næstum um borð.“ Hún tók utan um axlirnar á mér þar sem við gengum hlið við hlið, tvær þjáningassystur í kvöldgolunni í Stavanger: „Nú skil ég betur hversvegna þú varst svona *trámatíseruð eftir þessa sambúð með Arnfríði Ólafsdóttur, nú skil ég þig.“
*trámatíseruð þýðir að vera eyðilögð á sál og líkama, hvorki meira né minna.