Komdu út því vorið kallar á þig
Þegar ég kom heim úr vinnunni í dag, hafði ég þörf fyrir að gera eitthvað skemmtilegt. Svala og Jacob kærastinn hennar höfðu ekki haft tíma til að fá páskaeggin sín um páskana og því spurði ég hvort þau vildu eggin ekki í dag. Jú jú, það vildu þau. „Okey, ég fer út í garð og fel þau…“ sagði ég yfir mig glöð og valhoppaði út í garð með eggin. Þau komu síðan út og svei mér þá ef Jacob var ekki spenntari en ég. Það vafðist eitthvað fyrir þeim að finna eggin, enda voru felustaðirnir með eindæmum góðir eftir áralanga þjálfum í páskaeggjafeluleik á lóðinni. Ég þurfti á endanum að gefa þeim vísbendingar; fiskur – kind – fugl eða eins og maður segir á dönsku; fisk – får – fugl. Eggið hennar Svölu var íslenskur hestur í hærra lagi. Það hékk innan um handklæði á þvottasnúrunni. Jacobs egg var vel falið uppi í tröllatrénu.
Eftir þetta fórum við Vaskur á ströndina og í skóginn. Það er mikið vor í lofti hérna í Danmörku þótt hitastigið bendi til að í framtíðinni verði talað um harðindavorið 2018. Þrátt fyrir það er stemmingin eins og hún á að sér að vera. Það er t.d. allt að verða vitlaust á Fredsmaj vatninu. Varpfuglarnir eru að ærast í tilhugalífinu og vatnið flæðir yfir bakka sína og út í sjó.
Veðrið var bara svona la la. Þegar ég stóð niður í flæðarmálinu fannst mér það frekar hryssingslegt. En samt fallegt.
Við mættum óvenjulega mörgum manneskjum sem voru að smakka á vorinu. Stígurinn í skóginum er blautur og eru forarpyttir á ýmsum stöðum.
Fyrsta fólkið sem við mættum voru tveir súkkulaðibrúnir hlauparar, svarthærðir og svartklæddir, í stuttbuxum, frekar útlendislegir og skildu þeir eftir sig mýkinginarefniský, sem er ekki töff árið 2018.
Síðan mættum við hjólandi konu, hún var með mjaltaklút um hárið, í gúmmístígvélum og aðeins með eina tönn. Ég veit það því hún skælbrosti framan í lífið.
Vaskur labbaði stundum alveg upp við mig á leiðinni og það er best. Minnir mig alltaf á þegar ég teymdi hest uppi á fjöllum og við gengum límd saman. Fannst það alltaf svo gott. Mér finnst samt best þegar Vaskur gerir þetta á sumrin því þá er ég í stuttbuxum og Vaskur er mýkri en allt sem mjúkt er.
Næst var ungt hlaupandi par í hlaupabúningi sem þau voru að eyða peningunum sínum í fyrir örfáum dögum. Nú átti að taka á því. Þau flissuðu og reyndu að hoppa yfir pollana og drulluna. Þau voru greinilega að fara í sinn fyrsta og síðasta hlaupatúr á þessu ári. Ég sá og veit að það verður ekkert úr þessu hjá þeim. Kannski sambandinu en ekki hlaupunum. Fólk sem hoppar yfir polla í hlaupi, er ekki að taka neinu alvarlega. Það er ekki með hlaupaúr og eru hvorki að fylgjast með hraða, meðalhraða, púlsi, þrýstingi né kloflengd. Því þegar ná á árángri verður að fylgjast með hlaupaúrinu og öllum þessum þáttum og fleirum til og þá er enginn tími til að vera hoppandi flissandi yfir polla, sama hvort fólk sé ástfangið eða ekki. Forgangsröðunin þarf að vera rétt. Þess vegna er þessi hlaupaiðkun hamingjusama parsins í skóginum í dag, dauðadæmd.
Skyndilega, niður í fjöru, vildi Vaskur snúa við. Hann sá veiðimann í vöðlum. Það finnst honum ekki skemmtileg sjón og skil ég hann vel. Þetta eru með þeim ljótustu buxum sem ég veit um og einhvern veginn tekst þeim að gera spengilegustu líkama ólögulega. Sem er oft synd. Reyndar er fólk í vöðlum sjaldnast spengilegt því það stendur bara kjurrt tímunum saman. En ég höndla þetta betur en Vaskur, ég get alveg gengið fram hjá svona múnderingu og því taldi ég kjarkinn í Vask og við héldum áfram leið okkar.
Næst tók miðaldra maður í skrjáfandi jogginggalla fram úr okkur á fullri ferð. Hann gargaði brosandi „HEJ“ í eyrað á mér, svo ánægður var hann með vorið í skóginum. Ég heilsaði á móti og til allrar hamingju var stígurinn framundan nokkuð beinn og því gat ég fylgst með honum um stund. Hann hljóp nefnilega með hendurnar inn í ermunum og sveiflaði handleggjunum í meira lagi, örugglega bara af því að hannv var svo glaður. Skemmtanagildið var alveg upp á tíu, ég gat ekki annað en brosað. Annarra manna skap smitar nefnilega glettilega auðveldlega, auðveldar heldur en flensa.
Síðasti einstaklingurinn sem við mættum var ungur maður í göngutúr. Hann var klæddur í svartan síðan jakka, húðlitaðan fleginn bol, rauðbrúnar buxur og hvíta skó. Já ég sver það. Hann var í hvítum skóm í drullunni og greinilega ekki vanur að labba. Virtist óstyrkur en samt svo sætur. Eiginlega langaði mig að til að byggja undir hann brú. Grunar að hann sé samkynhneigður, augnaráðið var þannig – vingjarnlegur – sagði „hej“ á svo indælan hátt en gjörsamlega sneyddur öllum áhuga gagnvart mér. Hann var líka með hvít iphone heyrnatól sem einnig bendir til karlmannssamkynhneygðar því þeir eru oft svo svakalega meðvitaðir um gæði í öllu sem þeir eiga og gera.
Þetta var mjög góður göngutúr. Eins og alltaf þegar vorið kallar á mig.