Blóðnasir í Sönderskóginum.
Við fórum í göngutúr í skóginum í dag, Fúsi, Vaskur og ég og í tilefni páskana fór ég að ræða tilheyrandi hátíðisdaga við Fúsa. Ég var að segja honum frá atburðum sem gerðust í lífi Jesú og að í gær fyrir 2018 árum síðan eða á föstudaginn langa árið núll, hefðu tvær konur verið á gangi og gengu fram hjá hellinum þar sem Jesú var grafinn. Nema hvað, þeim brá heldur mikið í brún þegar þær uppgötvuðu að hann var risinn upp frá dauðum. Tóku þær til fóta sinna og hlupu til lærisveinanna til að tilkynna upprisuna. Aðeins tveir voru heima en það voru Jóhannes og Pétur. Þeir tóku á rás, berfættir og flýttu sér að hellinum. Og þarna í sögunni var komið að spurningu og því spurði ég Fúsa:
a) Kom Jóhannes fyrstur að upprisunni?
b) Kom Pétur fyrstur að upprisunni?
c) Voru þeir jafnfljótir og komu á sama tíma að upprisunni?
Fúsi gat ekki svarað þessu og vissi að ef hann svaraði, yrði það hreint gisk út í loftið. Það getur hann ekki sætt sig við. Hann byrjaði að tuða. T.d. um að þetta væri hvorki staðfest né skjalfest. Engin trúverðug vitni hefðu verið til staðar og væru þetta því bara sögusagnir sem héldu ekki dropa af vatni. Ég sagði að það þyrfti ekki að ræða þetta, það bentu allar vísbendingar til þess að þetta væri heilagur sannleikur. Hann æsti sig og varð hálffúll. Dæmigert þegar fólk með enga háskólagráðu rífst við fólk með háskólagráðu…
Síðan gengum við áfram og komum að tjörn þar sem mikið af öndum, gæsum og eitt álftapar heldur til. Ég sagði Fúsa að ef ég þyrfti að vera dýr, vildi ég helst vera sundfugl. Samt ekki álft því ég myndi ekki höndla ástarsorgina við makamissi og ekki gæs því ég nenni ómögulega að fljúga sjálf, fleiri þúsund kílómetra tvisvar á ári. Helst vil ég vera önd. Þá gæti ég bæði flogið, synt og kafað. Og væri ágætlega vinsæl meðal annarra fugla og fólks. Annað en mávar, þeir eru því miður oft óvinsælir. Allra síst myndi ég vilja vera dúfa.
Fúsi vildi vera ugla en þá benti ég honum á að uglur deyja mjög oft í bílslysum og það væri frekar leiðinlegur dauðdagi fyrir fugl. Hann varð eitthvað öfugsnúinn vegna þessa nýja fróðleiks sem ég hristi þarna fram úr erminni eins og ekkert væri og spurði hvort ég væri að bulla. Ég sagði honum að svona hluti vissi fólk ef það horfir á fræðsluefni í sjónvarpinu í staðinn fyrir bullþætti um eitthvað sem ætti sér enga stoð í raunveruleikanum.
Ég sá út undan mér að blóðþrýstingurinn hjá Fúsa fór hækkandi. Ég sé það alltaf á æðinni sem liggur niður eftir enninu á honum. Ég þekki minn mann.
Skyndilega fór að blæða úr nefinu á honum – eins og úr sjálfum Kristi. Blóð Krists, líkami Krists. Ég segi þetta dagsatt. Ég fékk nú næstum því áfall. Fúsi fór að ganga afturá bak til að sulla ekki niður á úlpuna sína og skildi eftir sig blóðuga jörð. Við vorum ekki langt frá bílnum – sem betur fer. Þetta hefur aldrei gerst áður, þrátt fyrir pirringsæsing annað slagið.
Þegar við komum að bílnum, spurði Fúsi hvort ég væri ekki með eitthvað í veskinu mínu sem hægt væri að nota til að stöðva blæðinguna. Hann þekkir sína konu. Veskið mitt inniheldur allan andskotann sem nýtist í neyðaraðstæðum. T.d. paracetamól, súkkulaði, snýtupappír, plokkara, einn plástur, íbúprófen, D-vítamín og járn ásamt einni appelsínu, naglaklippur, dömubindi í minnst tveimur stærðum, heklunál (vopn í algerri neyð), ímódíum, laxóberaldropa, nítróglycerín, tranexamsýru og tyggjó.
Ég rétti honum næturdömubindi. Hann tók við því þakklátur og fór að opna það. Þrátt fyrir að það standi stórum stöfum OPEN á því, tókst ekki að opna pakkninguna á undir þremur mínútum. Í 25 ár hefur hann búið með konu á blæðingum og greinilega lítið lært. Loksins tókst þetta og Fúsi skellti því bindinu í andlitið á sér… með límið á undan. Ég hélt að ég myndi andast úr hneykslun… hefur hann ekkert verið að fylgjast með í öll þessi 25 ár?
Þegar ég tók myndböndin sem sjást í Youtube myndbandinu að neðan, var upphaflega meiningin að þau væru einungis ætluð til sýnis dætrum okkar og átti ekkert að gera meira með þau. En þið ættuð að þekkja mig. Allt fer út í alheiminn. Og mikið óskaplega pirrar það mig að hafa ekki snúið símanum rétt.