Mestallt um risarækjur.

Stundum þegar við Fúsi erum bara tvö heima, nennum við ekki að elda og oft er ansi freistandi að borða bara upp úr skálinni með hundinum. En við eldum samt. Við erum alin upp við það. Eða sækjum mat. Við erum ekki alin upp við það en teljumst líklega til nútímafólks sem sækir stundum mat. Við nenntum ekki að elda í gærkvöldi en urðum að gera það því að í þessari viku var búið að sækja einu sinni og borða úti einu sinni.

Því varð eitthvað fljótlegt og létt fyrir valinu. Létt vegna þess að við erum ekki skurðgrafarar. Við lifum léttu lífi.

Ég keypti því risarækjur, steinselju og brauð í Kaupfélaginu.

„Förum að elda“ sagði ég við Fúsa.

„Nei, ekki strax, klukkan er ekki einu sinni fimm“ svaraði hann.

Ég var svöng og gerði mér því forrétt og hringdi norður yfir heiðar. Á meðan ég talaði við pabba sem sat á kaffistofu í hesthúsi, borðaði ég 15 rúgmjölsstangir með graskersfræjum og osti, ásamt þykku lagi af húmmus ofan á. Þessu skolaði ég niður með þremur glösum af Tradición Método Tradicional Seco Cava 2008 frá Delapierre. Við erum þarna í Katalóníu á Spáni. Hljómar fínt en er bara venjulegt. Grunar að flaskan kosti bara femmtíukall eða eitthvað eins og þeir segja víst fyrir austan.

Ég talaði við pabba í 17 mínútur.

Þegar ég lagði á, sagði Fúsi: „Ó, klukkan er hálfsjö….“ Lærði fólk ekkert á klukku í Fellabæ í gamla daga?

Við fórum að elda. Söxuðum sex hvítlaugsgeira og tæplega einn rauðan chilli. Helltum vel af ólífuolíu á pönnuna, örugglega uppundir þremur desilítrum, ég mældi ekki og sparaði ekki. Svissuðum svo hvítlaukinn og chillíið við miðlungshita og söxuðum rauða papriku á meðan. Samkvæmt uppskriftinni sem ég notaðist við, áttu að vera chilliflögur og paprikuduft en ég átti þetta ferskt og valdi það.

Síðan settum við risarækjurnar á pönnuna, hækkuðum hitann aðeins og steiktum í örstutta stund. Það er mjög auðvelt að ofelda rækjur og því þarf að passa tímann.

Vissuði að einu sinni hætti ég að borða risarækjur? Jú, það var vegna mikillar umfjöllunar um rækjueldiskvíarnar í Víetnam, en það eitt af fjórum stærstu risarækjueldislöndum í heiminum. Umfjöllunin var um kvíar sem voru svo mengaðar og eitraðar að fætur barnanna sem tíndu rækjurnar, voru allir út í brunasárum og oft þurfti að skera þá af við ökla vegna ígerða. Og neytandinn var að bera sér til munns, mengaða fæðu, fulla af lyfjum og eiturefnum. Svíar mótmæltu fyrir nokkrum árum og byrjuðu að sniðganga þessa vöru. Og ekki nóg með bágbornar vinnuaðstæður og mengun, heldur voru/eru heilu skógarnir af leiruviðarskógi ruddir vegna rækjueldis. Flestir ef ekki allir skógar hafa sinn tilgang og það eru alltaf einhverjar afleiðingar fyrir vistkerfið af að ryðja skóga í stórum stíl.

En heimurinn vildi borða risarækjur og því var farið að reyna að gera eitthvað í málunum. WWF  eða Alþjóðlegi náttúruverndarsjóðurinn, ásamt fleirum, fór að hafa eftirlit með rækjueldinu og vinna í því að betrum bæta aðstæður, bæði fyrir umhverfið og fólkið. Því samkvæmt WWF er ekki lausnin að sniðganga vöruna, þar sem þetta er risa iðnaður í þessum annars fátæku löndum, með mikla efnahagslega þýðingu.

Í dag er hægt að kaupa vottaðar risarækjur sem eru merktar ASC.

Helstu Kaupfélögin í Danmörku; Bilka, Fötex og Netto, sem falla undir Dansk Supermarket, selja eingöngu vottaðar rækjur.

Hvert var ég annars komin?

Samkvæmt uppskriftinni átti að kreysta sítrónusafa úr hálfri sítrónu yfir, en ég átti bara lime þannig að ég notaði það. Ég átti líka opna hvítvínsflösku og skvetti smá yfir.

Síðan setti ég saxaða papríkuna útí, létt malla í mesta lagi í eina mínútu og sáldraði svo steinselju yfir allt. Þetta leit rosalega fallega og girnilega út og auðvitað hefði ég átt að taka mynd en ég var ekkert að hugsa um það. Var ekkert að hugsa um að blogga um þetta í gærkvöldi. Með þessu borðuðum við tvö heilt flüte – og ég hélt áfram með Tradición Método Tradicional Seco Cava 2008 frá Delapierre.

Kvöldið fór svo í að horfa á fréttirnar á RÚV og pirrast yfir að það sé ekkert á Netflix sem hentar okkur báðum – það tók 70 mínútur að pirrast. Það endaði með að Fúsi fór að sofa og ég horfði á Gísla Martein því ég fíla þáttinn hans á föstudagskvöldum. Ég fíla Gísla Martein í fjölmiðlum.

Ef ég hef haft áhrif á ykkur með matargerð minni og ykkur langar líka að gera svona þá er upprunalega uppskriftin hér.

En mín uppskrift varð svona:

550 grömm vottaðar risarækjur.

Pottþétt uppundir 3dl ólífuolía.

6 hvítlaugsgeirar.

Næstum því heill rauður chilli. Hefði mátt vera alveg heill.

Safi úr 1/2 lime.

1/2 rauð paprika, frekar stór.

Handfylli af steinselju.

Borið fram með löngu flüte og minnst heilli flösku af hvítvíni, freyðivíni eða kampavíni.

Myndin er þannig séð undir áhrifum frá bonpon511 á Instagram.

 

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *