Lofsöngur og Labello

Mig langar til að segja ykkur frá skemmtilegu atviki sem gerðist í dag. Ég var nýmætt í vinnuna á 18 tíma vakt á Gjörinu í Kristiansand og hafði fengið nýjan sjúkling sem var alls ekki upp á sitt besta og þurfti að fara í tölvusneiðmyndatöku sem fyrst. Mér til fylgdar fékk ég hjúkrunarfræðing sem tilkynnti mér að hann hefði unnið á deildinni í 20 ár. Spurði svo hvort ég væri þýsk eins og sænska drottningin? „Nei, ég er íslensk“ svaraði ég. Þó fór hann að syngja. Við vorum á fullu við að græja sjúklinginn fyrir tölvusneiðmyndarrúntinn; taka til lyf, færa dælur, aftengja eitt, tengja annað osfrv. og ég bjóst alls ekki við söng. Hvað þá þessum.

Ó, Guðs vors lands. Ó, lands vors Guðs.

Vér lofum þitt heilaga, heilaga nafn.

Ég leit furðu lostin upp frá flókabendli af slöngum og leiðslum og spurði hvort hann væri virkilega að syngja íslenska þjóðsönginn? Jú jú, hann var að því. „Og afhverju kannt þú hann?“ spurði ég. „Ég söng hann einu sinni í Þrándheimi fyrir 25 árum síðan fyrir Vigdísi Finnbogadóttur og nú langaði mig að syngja hann fyrir þig. Ég bara brast í söng “ svaraði hann og hélt áfram að syngja.

Úr sólkerfum himnanna hnýta þér krans

þínir herskarar, tímanna safn.

Fyrir þér er einn dagur sem þúsund ár.

Og þúsund ár dagur, ei meir:

Undir þessum línum keyrðum við útúr stofunni og fram á gang. Hann syngjandi hástöfum og ég upp með mér, af því eitt af því besta sem ég veit er þegar karlmenn syngja fyrir mig. Ef þið bara vissuð hversu oft ég hef beðið Fúsa um að syngja mig í svefn –  eða bara syngja. „Syngdu Fúsi, syngdu.“ Ég hef þrábænt hann alla okkar búskapartíð og mun halda því áfram þar til dauðinn okkur að skilur.

Lyftan opnaðist. Við keyrðum sjúklingnum inn.

Eitt eilífðar smáblóm með titrandi tár.

Sem tilbiður Guð sinn og deyr.

Lyftan opnaðist og við keyrðum sjúklingnum út. Hjúkrunarfræðingurinn, sem ég bara man ekki hvað heitir: Anders? Petter? Frode?, spurði hvar við ættum að mæta í tölvusneiðmyndatökuna og ég svaraði hátt og skýrt með ítölskum hreim: „La bello“. Mér fannst ég svöl að hafa svona mikla stjórn á hlutunum.

„Ha, La bello? Ertu að meina Lab. elleve (Lab. 11)?

Ó nei, vandræðalegt! La bello á ítölsku þýðir fallegt og á þýsku er það varasalvi.

 

 

 

 

 

Ég hafði hringt niður í röntgendeildina og tilkynnt komu okkar og þau tilkynntu mér á móti að koma í La bello. Mér fannst mjög sniðugt og öðruvísi hjá þeim að nefna stofurnar sínar ítölskum nöfnum og velti fyrir mér hvernig í ósköpunum þeim hefði dottið það í hug. Eiginlega var þetta einum of hugmyndaríkt að mínu mati.

Hjúkrunarfræðingurinn syngjandi tók bakfall af hlátri og leist mér ekkert á blikuna því hann er um 195cm á hæð, ljós yfirlitum og nauðasköllóttur. Ekki var ég tilbúin til að reisa hann við ef hann dytti aftur fyrir sig. Ég er ekkert vöðvatröll, ekki frekar en hann, enda þessi stétt – hjúkrunarfræðingar – ekki þekkt fyrir að stunda mikið af leikfimisæfingum.

Hahaha hélstu að stofan væri kölluð La bello, hahaha!

Rosalega fyndið eitthvað…

Þegar hann var búinn að hlæja, hélt hann áfram…

Íslands þúsund ár,

Íslands þúsund ár,

…söng hann af miklum krafti þegar við rúlluðum rúminu inn á „La bello“.

Geislafræðingarnir stóðu bara og sögðu ekki orð. Síðan lækkaði hann sig og söng með grátstafinn í kverkunum:

Eitt eilífðar smáblóm með titrandi tár.

Sem tilbiður Guð sinn og deyr.

Síðan var tekin tölvusneiðmynd.

Framan af vaktinni og þangað til núna, gerðist lítið annað markvert miðað við sönginn í byrjun. Þessi týpísku gjörgæsluverk tóku við; lyfjablandanir, lyfjagjafir, mælingar, stillingar, stellingar og endalausir rúntar niður á röntgendeildina. Ég fór þrisvar með sjúklinginn þangað á 5 tímum. Ég ætlaði því að fara að klára þessa bloggfærslu og bjóða góða nótt en þá barst heldur til tíðinda hér á Gjörinu. Ég var bara að borða síðustu  blóðmörssneiðina í mestu ró og makindum, þegar maður með mölbrotna hryggjarsúlu hleypur nakinn fram hjá mér á harða spretti. Á eftir honum koma þrír lögregluþjónar, tveir læknar og tveir hjúkrunarfræðingar. Það átti að ná honum niður og „spænann.“ En þess þurfti ekki, hann hljóp svo hratt og náði góðu forskoti yfir á kvensjúkdómadeildina, þar sem hann lagðist á gólfið og sofnaði værum svefni sem hann fékk ekki sofa nema í mesta lagi tvær mínútur. Hann hefur svo ekki sofnað aftur.

 

 

 

 

 

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *