Ég hef tekið þá ákvörðun um að láta undan samfélagslegum þrýstingi og fara að stunda fitness með hópi fólks. Ákvörðun þessi var tekin þegar ég áttaði mig á að ég passaði ekki inní ávaxtanorm samfélagsins… ég er hvorki epli né pera… ég er óútskýranlegur ávöxtur! En ég vil vera pera! Markmiðið með ákvörðuninni er að verða pera og lifa eðlilegu lífi í gallabuxum 3ja ára og yngri. Mér þætti heldur ekki miður ef ég gæti einnig lifað eðlilegu lífi í næstum prjónuðu lopapeysunni minni en eins og stendur get ég tæplega andað í henni þar sem hún þrengir óþægilega að lungunum í mér. En vanar prónakonur sem ég hitti á förnum vegi í Bilka, segja að peysan gefi sig… sem er eins gott því ekki ætla ég að gefa mig né lungun úr mér.

Veðrið heldur áfram að vera sorglegt. Þó er óveðrið gengið yfir og allt með kyrrum kjörum. Það brast nefnilega á óveður hérna á Mylluhæðinni í fyrrinótt. Ég heyrði hjólin okkar detta og var viss um að síðustu eplin myndi fjúka af trjánum. Eins eru nánast öll skærgulu laufin fallin af Ginkgo Biloba. Litunum fækkar í garðinum og bráðum verður hann bara grá-græn-brúnn með örlitlu bleiku ívafi. Ég verð alltaf svo smeik þegar það er óveður á nóttunni… ég ligg alltaf og ímynda mér að t.d. hjólin fjúki um koll (sem gerðist í fyrrinótt) en ég fæ sáran sting í miðjan magann ef hjólin liggja á hliðinni. Er líka hrædd um að það fjúki e-ð lauslegt í bílinn okkar eða að viðkvæma kúlutréð hreinlega brotni. Allir dauðir hlutir verða lifandi fyrir mér í óveðrum og mig finnur óendanlega til með þeim að þurfa að vera úti. Vildi að ég gæti hýst allt! En eins og ég sagði áður… nú er logn en veðrið bara með eindæmum sorglegt. Ég færi bara að skæla ef ég færi að sísla e-ð í garðinum mínum í dag.

Og nú eru að koma kosningar… og hvað á að kjósa??? Er ekki enn búin að ákveða mig en ætla að senda öllum flokkunum mail og biðja þá um að fresta jólunum í ár… síðan kýs ég þann flokk sem gerir þetta fyrir mig. Veit nefnilega að þetta er bara smáatriði fyrir þá miðað við fjárhagsvandræði sveitarfélagsins, grotnun skólanna, vanrækslu við eldri borgara og að ná markmiðinu um að vera CO2 neutral 2029.

Megi ég eiga góðan dag með góðri bók og hágæða rándýrum prjónum úr búðinni hennar Siggu.

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *