Haugasund – þá og núna.
Nú er ég í Haugasundi. Þar sem afleysingarferill minn hófst fyrir átta árum. Ég man eftir fyrstu vaktinni minni eins og hún hefði átt sér stað í gær. Það var kvöldvakt á akuttmottak eða Slysó/Bráðamóttökunni. Það kom allt inn á þessa deild og það helltust yfir mig hjörtu, lungu, þarmar, brot og jafnvel heilar. Og ég sem var þokkalega græn, hafði útskrifast sem hjúkrunarfræðingur tveimur árum áður og bara unnið á þvagfæraskurðlækningadeildinni. Þannig að litli hjúkrunarheimurinn minn hafði aðeins innihaldið blöðruhálskirtla, þvagblöðrur og nýru. Jú, og alveg ógrynni af typpalingum. Á einni vakt á þvagfæraskurðlækningadeildinni gat maður auðveldlega tosað í tíu typpi.
Þarna á fyrstu kvöldvaktinni þráði ég að leggja þvagleggi. Ég þráði að gera eitthvað sem ég kunni vel. Ég hljómaði líklega svipað og Stella í orlofi: „Á ég að leggja þvaglegg?“ á bjagaðri skandinavísku… „Nei vinan, það þarf ekki þvaglegg við handleggsbroti…“
Þarna á fyrstu kvöldvaktinni skildi ég sama og ekki neitt. Og mig langaði bara heim. Taka leigubíl út á flugvöll og fara með næsta flugi. Ég gat engan veginn séð hvernig ég ætlaði að meika 17 daga í Haugasundi með þessum hætti. Þetta var annað skipti sem ég kom til Noregs á ævinni og ég kunni enga norsku. Ég var í stökustu vandræðum með að skilja hvort ég mætti eða ætti að taka EKG t.d.. Du kan, du må. Eða hvort vinnufélagarnir hefðu gert það eða ætluðu að gera það eða hvort ég ætti að gera það eða gæti gert það. Ég var við það að fá slag þetta kvöld. En sem betur fer var næsta vakt betri og þarnæsta enn betri. Þessir 17 dagar urðu happasælir og grunnurinn var lagður í norskunni.
Þegar ég kom til Haugasund í gær, fór ég að reyna að rifja upp fyrstu ferðina mína í huganum. Ég mundi sama og ekki neitt nema eftir áður nefndri kvöldvakt. Ég varð að „gúggla“ í blogginu og í albúmunum á Facebook. Eins og mér var tamt á þessum tíma, hafði ég dritað út myndum af öllum sköpuðum hlut úr þessari ferð; rúminu sem ég svaf í, berjabláum putta, eldhúskróknum sem var að hruni komin, bókinni sem ég las úti á svölunum, miðbænum eins og hann lagði sig þá og gardínunum í íbúðinni sem ég sleit óvart niður. (Myndaalbúmið er ekki lengur opinbert á Facebook, af augljósum ástæðum).
Ég bjó í íbúð í eldgamalli blokk. Þessi íbúð er sú slitnasta sem ég hef búið í, í vinnuferðum til Noregs. En ég var með svalir.
Ég gerði líka bloggfærslu á einni vaktinni. En ég hef verið svo hógvær á þessum tíma að ég hef ekki kunnað við að breyta lyklaborðinu yfir í íslenskt. Þannig var það líka í byrjun á Gjörinu, ég var hógværðin uppmáluð. Ég kunni hvorki við að „fá lánuð“ dömubindi á deildinni né að breyta lyklaborðinu yfir í íslenskt. En sú hógværð entist kannski í svona viku. Og mikið óskaplega hafði ég alltaf gaman af þegar ég gleymdi að breyta lyklaborðinu aftur yfir í danskt, viljandi eða ekki og gremjan og lætin í vinnufélögunum áttu sér engin takmörk: „Hvad for Søren, hvað er eiginlega að tölvunni? Afhverju koma þessir skrítnu stafir? For fanden i helvede! Er tölvan biluð?“ Síðan uppgötvaðist hver hefði setið þar síðast og þá var fjandinn laus: „DAGNÝ SYLVÍA SEVASDÓTTÍA DIN DRITTSEKK! VARST ÞÚ AÐ EYÐILEGGJA TÖLVUNA??? VILTU GÉRA SVO VEL OG KOMA OG LAGA HANA FOR FANDEN I HELVEDE!“ Ó ég skemmti mér oft svo vel, nema þegar það var hringt heim til mín og ég þurfti að „laga“ tölvuna símleiðis í dýrmætum frítímanum. Æ, ég viðurkenni að stundum varð ég pirruð yfir tölvukunnáttuleysi vinnufélaganna og stundum átti ég það til að svara þeim að það væri auðveldara að breyta tungumálunum á lyklaborðum en fyrir Dana að opna en øl, for helvede.
Já, og hérna er svo gamla bloggfærslan, greinilega skrifuð á handarhlaupum og eiginlega var ég mjög á báðum áttum, ef ekki öllum, um hvort ég ætti að endurbirta hana. Ekki vegna þess að það vantar íslenska stafi, heldur roðna ég eiginlega yfir þessum skókaupum sumarið 2010. Ég er ekki skósjúk og ekki vön að versla svona, svo mér brá bara við að lesa þetta. Ég man að ég tók með mér hvíta tásusandala því það var í tísku á deildinni minni í Sönderborg að vera í tásusandölum í vinnunni þetta sumarið. Þessir sandalar gengu alls ekki í Haugasundi því þar varð að vera í sokkum því annars voru tærnar í stórhættu því rúmin voru þannig hönnuð og það var alltaf verið að keyra þeim fram og til baka. Þess vegna keypti ég nýja vinnuskó. Ég keypti líka blómótta hælaskó. Síðan man ég ekki meir. Síðan hef ég eflaust haft uppundir fjögur pör með mér; eitt í vinnuna, eitt í bæinn, eitt á fjallið, eitt til einhvers…
Núna, átta árum seinna, bý ég ekki í þessari slitnu blokk, heldur á hóteli niður í bæ. Ég lenti seint á sunnudagskvöldið á Karmøy, tók leigubíl til Haugasunds og naut þess að vera keyrð upp að dyrum. Engin töskudráttur frá flugrútu í híbýli. Talandi um tösku, er ljótt að segja að ég hlakka eiginlega meira til að fá töskuna mína heim frá Filippseyjum heldur en dóttur mína? Þannig séð. Það er algér töskukrísa á heimilinu. Tvær töskur eru á Íslandi, sú stærsta og minnsta (ég ætlaði að sækja þær í janúar) og miðstærðin niður á Filippseyjum. Allar þessar eru fjórhjóladrifnar. Í janúar og febrúar hef ég verið að draga úr sér dregnar framhjóladrifnar töskur á eftir mér með misfögru mynstri. Þegar færðin er eins og hún hefur verið, þá drífa þær bara ekki neitt.
Já hvar var ég…? Jú, ég var komin til Haugasunds 2018.
Þegar ég gekk inn um hóteldyrnar, heyrðist hátt og dramatískt: „Og þarna kemur Sylvía Sævarsdóttir…“. Fullorðinn Norðmaðurinn sat þarna í móttökunni, skælbrosandi. Ég spurði hvort ég væri með skilti framan á mér? „Nei, sá það bara… fötin og dóttir…“ sagði hann og brosti enn breiðar. Ég var líklega eitt spurningarmerki því hann bætti svo við að ég hefði verið eina kvenkynið sem væri ekki búin að tékka sig inn. Hann hafði sem sagt lagt saman tvo og tvo. Mér fannst þetta skemmtileg móttaka, lét mér líða í augnablik eins og ég væri að ganga upp á svið og væri fræg. Það munaði sekúndubroti að ég hefði vinkað til hægri og vinstri.
Ég verð bara í þrjá daga í Haugasundi svo ég næ ekki að versla ógrynni af skóm, né að fara upp á fjall.
Þegar ég fór í vinnuna í dag, gekk ég greitt eftir göngugötunni. Síðan sé ég borpall við höfnina þegar ég horfi út um gluggann á deildinni. Það verður líklega allt sem ég sé í þessari ferð.
Hef búið 2 ár i Noregi og veit ennþá ekki hvort eg á eða má. Skil þennan rugling 100%!
Þetta er flókið 🙂 Líka því að í dönskunni þýðir „må“ það sama og í íslensku… En trúðu mér, þetta lærist 😉