Þessi færsla er algörlega óháð fyrri færslum og má alls ekki með nokkrun hætti bendla hana við þær.
Svo er mál með vexti að síðustu tvær kvöldvaktir hafa fengið okkur hjúkkurnar til að spá svolítið íhversu mikið maður hugsar bara um sitt eigið tippi (myndi allavega gera það ef ég væri með tippi).
Fyrir örfáum dögum fannst múslímskur maður að sunnan mikið veikur á parkeringsplássi hér í nágrenninum. Hann er langkeyrsluvörubílstjóri og talar ekki dönsku, ensku né þýsku. Jú, ok, örfá orð í þýsku… líklega mest orð eins og „anlassen“ og „auflassen“ en alls engin persónuleg orð. Þar sem maðurinn er að sunnan, þekkir hann alls engan hér í DK.
Hann var lagður inn hjá okkur. Við pöntuðum túlk með það sama. Túlkurinn túlkaði planið fyrir músliman að sunnan og fór svo. Aumingja maðurinn var einn… allslaus, því allt dótið hans var í bílnum og mállaus.
En skyndilega fór fólk að koma, fólk frá sama landi og hann. Við settum í brýrnar og spáðum talsvert í hvaðan þetta fólk kæmi. Maðurinn var jú einn og þekkti engan og landið hans mjög langt í burtu. Þetta heimsóknarfólk talaði líka dönsku. Við bölvuðum túlkinum svolítið fyrir að brjóta þagnarskylduna, en ákváðum síðan að spyrja fólkið hvað væri í gangi. Jú, þannig var mál með vexti að túlkurinn hafði sett sig í samband við félagið þeirra (eins og ísl.fél okkar) og beðið fólk um að heimsækja manninn og spjalla við hann. Eins og við manninn mælt streyma menn inn, fólkið er líka búið að fara í bílinn hans og sækja dótið hans og setja sig í samband við fyrirtækið hans og redda ýmsum málum. Það koma bara menn í heimsókn, en þetta eru menn á öllum aldri og þeir koma færandi hendi með ýmislegt matarkyns. Sjúklingurinn hefur það bara gott miðað við aðstæður, bíður og vonast eftir að verða fluttur til síns heimalands en eins og er, er það ekki hægt vegna ástands hans.
Í gærkvöldi kom einn af mönnunum inn á skrifstofu til okkar, hann var varla komin með bílpróf en nennti samt að eyða kvöldinu í miðaldra karl sem hann þekkti ekki neitt. Þessi ungi sagði: „VINI OKKAR finnur til, getiði hjálpað honum?“
Við litum hver á aðra og held við allar höfum hugsað það sama… þessir menn hugsa ekki bara um sitt eigið tippi.
Myndi ég nenna að eyða seinnipörtunum og kvöldunum í að heimsækja mállausan íslending upp á sjúkrahús?
Mig því miður grunar að ég hugsi alltof mikið um mitt eigið tippi!
Já, það er alveg rétt, maður gefur sér sko ekki tíma til að sinna öðu en eigin tippi, svona yfirleitt alla vega :-S
æi var það ekki með Ypsiloni???? Typpi???