Þegar bók breytist í tyggjó sem næst ekki úr.
Þið þekkið það, er það ekki, þegar maður les bók og bókin verður eins klístrað tyggjó sem lendir í fötunum og það er ómögulegt að ná því úr, nema hvað bókin klístrast fast við heilann á manni í staðinn fyrir fötin. Og maður verður svo yfir sig hrifinn af bókinni að henni verður að deila með öðrum og því segir maður við Fúsa sinn: „Þú VERÐUR að lesa þessa“. Og hann svarar: „Já, einhverntímann….“ Og maður veit, af fenginni reynslu, að hann á aldrei eftir að lesa hana, sama hversu æðislega frábærlega góð hún er, því hann les eiginlega bara vísindaskáldsögur og ævintýrabækur, jú og fréttir. (Nú á hann eftir að senda mér skilaboð um að hann lesi mikið meira en þetta þrennt og jú, mikið rétt, hann les allskonar, nema ekki það sem ég les, en hver nennir einhverri upptalningu á því hvað aðrir lesa, þessi færsla á ekki verða endalaus…). En mér sárnar síðan svo óendanlega mikið yfir því að hann skuli ekki lesa bækurnar sem ég segi honum að lesa að ég nær varla andanum en gefst samt ekki upp og held áfram, ótrauð að þjarma að honum bókunum mínum.
Reyndar veit ég að það er til fólk sem þekkir ekki þessa bókaheilaklísturstilfinningu því það les ekki bækur og alltaf verð ég jafn hissa inn í mér. Jafn hissa og þegar fólk tannburstar sig ekki tvisvar á dag. Ég bara skil ekki afhverju fólk gerir það ekki. En svona erum við misjöfn, það eru líka mjög mjög margir mjög hissa á því að ég skuli ekki borða lifrarpylsu.
En talandi um tannburstun. Eins og mörg ykkar vita, vinn ég í Noregi í mismunandi bæum og bý oft með fólki sem vinnur hjá sama fyrirtæki og ég. Undanfarna daga hef ég búið með konu sem ég þekki vel vinnulega séð, höfum unnið saman í sjö ár og verið frekar nánar. Ég taldi mig þekkja hana vel og hef alltaf talið hana vera gallalausa. Þangað til núna. Þegar hún tannburstar sig, skvettist tannkrem út um allt. Á spegilinn, vaskinn, vegginn, skápinn… Svona eins og þegar krakki setur tannburstann á bak við framtennurnar og burstar fram á við. Leikur sér að því að skvetta. Blöndunartækin voru verst. Þau voru eiginlega alveg hvít, útmökuð. Síðan setur hún ekki klósettlokið niður. En hún er ekki ein um það. Það er einn helsti galli Dana, eiginlega má segja að það sé danskt þjóðfélagsvandamál að setja ekki lokið niður. Vissuði annars að klósettlok er dolokk á norsku?
Svona getur fólk annars komið manni á óvart. Hinn sambýlingurinn er Mikkel og hann spurði mig hvort ég kynni að kveikja á sjónvarpinu, því honum langaði að horfa á einhvern handboltaleik. Ég vissi ekki að keppnin sem var um daginn væri ennþá í gangi, því ég sé enga handboltastatusa á Facebook lengur. Ég tók báðar fjarstýringarnar og ýtti á einhverja handahófsvalda takka, ca. tvo á hvorri fjarstýringu en ekkert gerðist. Þannig að hvorugt okkar kann að kveikja á sjónvarpinu. En það kom svo sem ekki á óvart. Tveir hjúkrunarfræðingar og raftæki… það virkar sjaldnast (flokkast annars öndunavél og blóðskilunarvél nokkuð undir raftæki?)
En um hvað átti þessi færsla annars að vera? Jú bók. Hvernig bók getur farið á heilann á manni. En það gerist ekki nærri því við hverja bók en þegar það gerist, kemst maður í einskonar bókarvímu. Það gerðist þegar ég las (og hlustaði) á Mávahlátur um daginn.
Eins og ég sagði frá í síðustu færslu, gerði ég það á dönsku og þrátt fyrir það, var hún svo góð að ég er enn með hana á heilanum þó það sé vika síðan ég kláraði hana og löngu byrjuð á annarri. Ég hef staðið mig að því að kalla blóðskilunarvélina Öggu klukkan fimm að morgni: „Jamen dog, lille Agga“. Ég sagði það í alvörunni við vélina sem lét öllum íllum látum og pípíð úr henni skar í eyrun og allt var að fara til andskotans. Þegar ég mæti í vinnuna, langar mig rosalega til að spyrja: „Er der mange i brummen?“ En það myndi enginn skilja mig. Brummen er fangaklefi og þessi spurning væri ekki við hæfi á Gjörinu. Ég er alltaf að hugsa um þessa bók og ekki síst endirinn sem var svo góður. Ekki sykursætur góður heldur gæða góður. Eiginlega langar mig til að lesa hana aftur strax. Mig langar líka til að vita hvað galochesko er á íslensku, en það voru skórnir sem þær voru oft í og t.d. í jarðarförinni.
Fúsi verður að lesa þessa bók, þið verðið líka að gera það, þið ykkar sem eruð ekki búin að því.
Klukkan er orðin margt hérna í Stavanger, rigningin lemur rúðurnar með aðstoð vindsins sem er 12 metrar á sekúndu og þyrlan var að lenda á sjúkrahúsþakinu rétt í þessu. En það breytir litlu fyrir mig, því ég er í fríi í nótt. Ég sá það bara í fjarska því ég bý ágætlega hátt uppi.
Í bókinni var meiri snjór en rigning og því sé ég mest snjó þegar ég horfi út um gluggann þó það sé 6 stiga hiti.
Það er við hæfi að enda þessa færslu á sama hátt og bókin endar; á mávahlátri.
Ljósmynd: Berglind Knútsdóttir
meintir þú ekki klósettsessuna, var annars að spá í hvort hún væri með typpi sú sem frussar??
Hahahha nei þetta var kona og ég er búin að laga, kalla þetta reyndar lok en setan er allavega neðar 😉