Nágrenni Hornafjarðar – Öxi – Egilsstaðir – Sjálfssalinn í Hjaltastaðaþinghá – Stóra Urð

…Framhald af síðastu færslu

Leiðin lá austar. Í snælduvitlausu roki sem feykti flestum fossum uppá við, ókum við í honum Klobba, í góðu skapi eftir velheppnaða útilegu. Nestið innihélt Egilsappelsín, ásamt fleiru vel sætu úr kaupfélaginu á Selfossi og á ekkert var hlustað þar sem við gleymdum ipod bíladæminu í DK og það virðist nú e-ð vera lítið um útvarp á þessum slóðum. Ég stakk upp á mismunandi bílaleikjum eins og við leikum alltaf á hraðbrautinni, en þar gáfumst við nú fljótlega upp því við mættum engum bíl. Allir komnir heim til sín eftir verslunarmannahelgina og engin hefur séð neina ástæðu til þess að skreppa á rúntinn um suðurlandið, reyndar alla leið á milli Selfoss og Egilsstaða. E-ð misreiknuðum við vegalengdir á milli bensínstöðva og salerna, því bæði þurftum við að pissa útí móa og krossa fingur í von um að ná á næstu bensínstöð. Það var N1. Stöðin var heldur í minna lagi og lítið um mannaferðir. Þannig að við bönkuðum upp á hjá bóndanum sem kom svo á fjórhjólinu sínu þessa 30m að besnínskúrnum… algjör gæi þessi bóndi 🙂 Stelpunum fannst þetta mjög sérstakt.

Í nágrenni Hornafjarðar stoppuðum við hjá Snæbjörgu vinkonu minni og fengum þar mjólk nánast beint úr beljunni, stelpurnar áttu ekki til orð og sögðu því lítið. Ég hef víst ekki verið dugleg í að fræða þær um lífið í sveitinni og hvað þá á kúabúum þar sem ég hef aldrei verið nein fjósakona. En mikið óskaplega held ég að þær hefðu gott af að fara í sveit til Snæbjargar minnar… það myndi líklega gera þær að alvöru mönnum… jújú það held ég nú.

Frá Snæbjörgu lá leiðin á Djúpavog og þar var blaðran tæmd á venjulegu salerni í sjoppunni á Djúpavogi og keyptur ís. Síðan var það Öxi. Það var svartaþoka og allsengin umferð. Ég keyrði Klobba og var hálffegin þokunni þar sem það er örlítill snertur af lofthræðslu innst inní heilahvolinu á mér (hef líkl aldrei sagt ykkur frá því og ætla mér ekki að gera það, svo að gleymið þessu bara), sem myndi þó aldrei hindra mig í neinu sem ég ÞARF að gera eða fara. En við vorum ekki komin langt þegar hitamælirinn í Klobba fór að hækka og fór hækkandi með hverjum metranum. Allt bullsauð. Ok, þar varð að stoppa. Og bíða. Og fylla á úr læknum… í miðri svartri þokunni á Öxi. Og áfram komumst við og alla leið í Eiða. 

Á Eiðum var bara chillað (slappað af og verið cool), þangað til veðurspáin varaði við íllviðri hinndaginn. Við drifum okkur í Stóru Urð á meðan veðrið var gott. Ókum í gegnum Hjaltastaðaþinghánna og fram hjá bensínstöðinni gömlu og nýja sjoppusjálfsalanum. Í Stóru Urð mættum við fleira fólki en  samtals alla leiðina frá Selfossi og upp í Vatnskarð. ALLIR voru í Stóru Urð þann daginn. Við löbbuðum vitlausan hring, viltumst í Stóru Urð en komumst þrátt fyrir allt, heil á húfi í bílana 🙂

(sjá myndir á fb eftir smá stund)

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *